Beinir skattar

Ákvarðandi bréf nr. 010/2003

13.10.2003

Leiðbeiningar um framtalsskil félaga sem hafa heimild til að færa bókhald og semja ársreikninga í erlendum gjaldmiðli - endurútgáfa bréfs frá 18. september.

13. október 2003 T-Ákv. 03-010 2003-06-0223

Inngangur.

Samkvæmt I. og II. kafla laga nr. 25/2002, um breyting á lögum nr. 145/1994, um bókhald og lögum nr. 144/1994, um ársreikninga, má veita félögum sem skylt er að semja ársreikninga sína samkvæmt lögum um ársreikninga heimild til að færa bókhald og semja ársreikninga sína í þeim erlenda gjaldmiðli sem telst vera starfrækslugjaldmiðill félagsins. Lög þessi komu til framkvæmda 1. janúar 2002. Samkvæmt ákvæðum 1. mgr. 91. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt og eignarskatt, skal skýrslu þessara félaga til skattyfirvalda (skattframtali) fylgja undirritaður ársreikningur í starfrækslugjaldmiðli sem saminn er í samræmi við ákvæði laga um ársreikninga. Enn fremur hefur lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með síðari breytingum, og lögum nr. 113/1990, um tryggingagjald, með síðari breytingum, verið breytt með lögum nr. 34/2002, er varðar skil á virðisaukaskattsskýrslu og launaframtali þessara aðila.

Heimild til færslu bókhalds í erlendum gjaldmiðli.

Félög sem óska eftir því að færa bókhald og semja ársreikninga í erlendum gjaldmiðli skulu leita eftir samþykki ársreikningaskrá. Heimildin miðast alltaf við upphaf þess reikningsárs sem næst fer á eftir því ári sem umsókn berst nema um sé að ræða stofnár félagins, þá má sækja um heimildina innan tveggja mánaða frá stofndegi.

Samkvæmt lögum um bókhald er meginreglan að bókhaldsbækur þ.m.t. ársreikningur skuli vera til staðar hér á landi og skal texti þeirra vera á íslensku. Þau félög sem fá heimild til að færa bókhald og semja ársreikninga í erlendum gjaldmiðli mega í stað texta á íslensku hafa texta í bókhaldsbókum sínum og ársreikningi á dönsku eða ensku. Þá mega þessi félög varðveita bókhaldsgögn, þ.m.t. bókhald, erlendis í allt að sex mánuði en þeim er þó skylt að veita skattyfirvöldum aðgang að þeim innan hæfilegs tíma sé þess óskað. Bókhaldsgögn á rafrænu formi skulu þó ætíð vera aðgengileg yfirvöldum.

Félag sem fær heimild til að færa bókhald og semja ársreikning í erlendum gjaldmiðli skal gera það hið skemmsta í fimm ár samfleytt. Uppfylli félag ekki skilyrði laganna um að færa bókhald og semja ársreikninga í erlendum gjaldmiðli skal ársreikningaskrá afturkalla heimildina og tekur afturköllunin gildi við upphaf næsta reikningsárs á eftir.

Umreikningur fjárhæða upphafsefnahagsreiknings .

Skv. 90. gr. laga um ársreikninga hafa félög val um það í upphafi hvort þau umreikni fjárhæðir fastafjármuna og eignarhluta í félögum í efnahagsreikningi fyrra árs samkvæmt lokagengi starfrækslugjaldmiðils þess árs eða umreikni fjárhæðirnar með því gengi sem gilti við kaup eignanna, þ.e. með sögulegu gengi þeirra. Peningalegar eignir og skuldir skal hins vegar umreikna á lokagengi reikningsársins. Þá er enn fremur heimilt að umreikna innborgað hlutafé og stofnfé, þ.m.t. innborgað yfirverð, á því gengi sem gilti þegar innborgun hlutafjár og yfirverðs fór fram. Lögbundinn varasjóður hlutafélaga skal þó alltaf nema sama hlutfalli af nafnverði hlutafjár í erlendum gjaldmiðli og hann er í reikningsskilum í íslenskum krónum fyrir umreikninginn.

Skattskil.

Skv. 91. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt og eignarskatt, skal skattframtali lögaðila sem heimild hafa til að semja ársreikning í erlendum gjaldmiðli fylgja undirritaður ársreikningur í viðkomandi gjaldmiðli saminn í samræmi við ákvæði laga um ársreikninga. Þessi félög skulu fylla út og leggja fram hjá skattyfirvöldum skattframtal rekstraraðila RSK 1.04 þar sem fram koma sundurliðaðar fjárhæðir ársreiknings umreiknaðar í íslenskar krónur varðandi eignir, skuldir og eignarskattsstofn svo og tekjur, gjöld og tekjuskattsstofn.

Þessum félögum er þó frjálst að færa bókhaldið áfram í íslenskum krónum samhliða bókhaldi í erlendum gjaldmiðli og gera upp til skatts í samræmi við bókhaldið í íslenskum krónum. Það er þó áskilið að þeirri aðferð verði viðhaldið í a.m.k. fimm ár.

Ákvörðun skattstofna með umreikningi fjárhæða í íslenskar krónur.

Um útfyllingu einstakra liða skattframtalsins gilda ákvæði í 2. og 3. mgr. 91. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt og eignarskatt.

Um tekjur og gjöld.

Skv. a. lið 2. mgr. 91. gr. er meginreglan að tekjur og gjöld rekstrarreiknings skulu umreiknuð í íslenskar krónur á meðalgengi reikningsársins. Nota skal við umreikninginn meðaltal miðgengis (milli kaup- og sölugengis) reikningsársins og færa þannig umreiknaðar fjárhæðir í tilgreinda reiti framtals.

Skattalegar leiðréttingar á rekstrarliðum ársreiknings þannig umreiknuðum eru því næst gerðar á skattframtalinu til samræmis við ákvæði skattalaga vegna mismunar á reikningsskilum og skattskilum eða á fjárhæðum sem kann að vera haldið utan ársreiknings. Umreikna skal slíkar fjárhæðir með meðaltali miðgengis nema annað leiði af lögunum svo sem um skattlagningu á söluhagnaði eignarhluta í félögum og frestuðum söluhagnaði.

Fyrning og söluhagnaður eigna.

Í 3. mgr. 91. gr. er kveðið svo á að við umreikning í starfrækslugjaldmiðil skuli umreikna fyrningargrunn eigna og fengnar fyrningar, svo og stofnverð ófyrnanlegra eigna og eigna sem ekki eru í fyrnanlegu ástandi í lok reikningsárs á undan breytingunni með lokagengi þess reikningsárs. Með þessu ákvæði er verið að viðhalda hlutfalli skattalegs fyrningarverðs og fenginna fyrninga við yfirfærslu í starfrækslugjaldmiðilinn og er óháð þeirri aðferð sem félagið kann að hafa notað við umreikning þessara eigna í upphafsefnahagsreikningi. Þannig umreiknaðar stofnfjárhæðir í starfrækslugjaldmiðli verða því sá grunnur að útreikningi fyrninga og söluhagnaðar eða sölutaps í skattskilum næstu ára á eftir. Söluhagnaður eða sölutap í starfrækslugjaldmiðlinum er umreiknaður í íslenskar krónur samkvæmt meðaltali miðgengis reikningsársins (söluárs) og færður þannig á skattframtalið. Ef skattlagningu hans er frestað þá færist fjárhæð hans óbreytt í krónum talið á skattframtal viðkomandi skattlagningarárs, sbr. 14. gr. laga 90/2003

Söluhagnaður eignarhluta í félögum.

Um söluhagnað af eignarhlutum í félögum fer eftir ákvæðum 18. gr. laga um tekjuskatt og eignarskatt þegar um hlutabréf er að ræða en 19. gr. sömu laga þegar um eignarhluta í samlögum eða sameignarfélögum er að ræða. Stofnverð þessara eignahluta er ákvarðað á grundvelli upphaflegs kaupverðs (stofnverðs) þeirra í íslenskum krónum eða umreiknings kaupverðs á daggengi þegar kaupin fóru fram ef þau voru gerð í erlendum gjaldmiðli. Hér er því um frávik að ræða frá ákvæðum a-liðar 2. mgr. 91. gr. um umreikning söluhagnaðar eða sölutaps á meðalgengi.

Meginreglan er að hagnaður af sölu hlutabréfa ákvarðast sem söluverð sem umreiknað er á daggengi söludags í íslenskar krónur að frádregnu upphaflegu kaupverði bréfanna í íslenskum krónum eða umreikningi kaupverðs í íslenskar krónur á daggengi við kaup þeirra.

Um tvenns konar undantekningar er að ræða frá þessari meginreglu:

  • Hafi selt hlutabréf verið í eigu félags í árslok 2001 ákvarðast hagnaður af sölu þeirra sem mismunur á söluverð þeirra, sbr. framansagt um söluverð, og upphaflegu kaupverði bréfanna í íslenskum krónum, sbr. framansagt um kaupverð, þegar það hefur verið hækkað samkvæmt verðbreytingarstuðli fyrir hvert ár til ársloka 2001.
  • Hafi seld hlutabréf verið í eigu félags í árslok 1996 ákvarðast hagnaður af sölu þeirra sem mismunur á söluverði þeirra, sbr. framansagt um söluverð, og jöfnunarverðmæti í stað kaupverðs, ef það er hærra, þegar það hefur verið hækkað samkvæmt verðbreytingarstuðli fyrir hvert ár til ársloka 2001.

Meginreglan varðandi hagnað af sölu eignarhluta í samlögum og sameignarfélögum er að hann er ákvarðaður sem mismunur söluverðs sem umreiknað er á daggengi söludags í íslenskar krónur og kaupverðs, en kaupverð í hendi seljanda ákveðst sem hlutur hans í eigin fé félagsins í byrjun þess árs sem salan fer fram á eða sem raunverulegt kaupverð að frádreginni úttekt, sé það hærra, hvort tveggja umreiknað á daggengi við kaup og úttekt.

Um tvenns konar undantekningar er að ræða frá þessari meginreglu:

  • Hafi félag eignast hlutinn fyrir árslok 2001 má við ákvörðun stofnverðs miða við hlut seljanda í eigin fé félagsins í byrjun árs 2001 eða
  • miða stofnverð við raunverulegt kaupverð að frádreginni eigin úttekt, sé það hærra, þegar kaupverð og eigin úttekt hefur verið hækkað samkvæmt verðbreytingarstuðli fyrir hvert ár til ársloka 2001.

Til eigin fjár í þessu sambandi telst skattskyld hrein eign félagsins að meðtöldu stofnfé.

Frestun skattlagningar söluhagnaðar og yfirfæranlegt tap.

Þegar söluhagnaður hefur verið ákvarðaður og færður á skattframtal samkvæmt framangreindum reglum og heimild er til að fresta skattlagningu hans, þá færist fjárhæð hans til tekna á skattlagningarári óbreytt í íslenskum krónum. Á sama hátt skal rekstartap eins og það er ákvarðað í íslenskum krónum við útfyllingu skattframtals fyrir hvert ár um sig færast til frádráttar á skattframtali næstu ára í samræmi við 8. tölul. 31. gr. að óbreyttri krónufjárhæð.

Um söluhagnað og rekstrartap sem myndaðist reikningsárið 2001 og fyrr fer eftir bráðabirgða ákvæði C og D liðar b-liðar í 41. gr. laga nr. 133/2001.

  • Eftirstöðvar rekstrartapa (í íslenskum krónum) áranna 1994 til og með 2001 eru framreiknaðar samkvæmt verðbreytingarstuðlum fyrir hvert ár til ársloka 2001 og færast á skattframtal óbreyttar að krónufjárhæð til frádráttar rekstrartekjum skv. 8. tölul. 31. gr.
  • Fjárhæð söluhagnaðar í íslenskum krónum sem hefur verið frestað samkvæmt heimild í lögum um tekjuskatt og eignarskatt skal hækka fyrir hvert ár til ársloka 2001 og færast á skattframtal óbreytt að krónufjárhæð á skattlagningarári.

Um eignir og skuldir.

Skv. b-lið 2. mgr. 91. gr. er meginreglan að eignir, skuldir og eigið fé efnahagsreiknings skulu umreiknaðar í íslenskar krónur á gengi í lok viðkomandi reikningsárs og færðar í tilgreinda reiti framtals. Afstemming sem gera verður á eigin fé vegna umreiknings eigna á kaupgengi og skulda og eigin fjár á sölugengi skal koma fram á RSK 1.04 í reit 6410 Aðrar breytingar á eigið fé.

Skattalegar leiðréttingar á efnahagsliðum ársreiknings þannig umreiknuðum eru því næst færðar á skattframtali til samræmis við ákvæði skattalaga vegna mismunar á reikningsskilum og skattskilum eða á fjárhæðum sem kann að vera haldið utan ársreiknings. Umreikna skal slíkar fjárhæðir á lokagengi nema annað leiði af lögunum svo sem eignfærsla á fasteignum og hlutabréfum.

Eignarhluta í íslensku félagi, þ.e. hlutabréf og stofnfé, skal færa á nafnverði þeirra í íslenskum krónum, sbr. 74. gr. laganna, í stað umreiknings skv. b-lið 2. mgr.

Fasteignir skal telja fram á fasteignamati. Ef fasteignir eru staðsettar erlendis gildir sama regla um færslu þeirra til eignar í íslenskum krónum og gildir um fasteignir félaga sem staðsett eru erlendis sem semja ársreikning í íslenskum krónum.

Gengismunur umreiknings og önnur atriði.

Skv. c-lið 2. mgr. 91. gr. skal gengismunur sem kann að myndast við umreikning fjárhæða ársreiknings úr erlendum gjaldmiðli í íslenskar krónur skv. a- og b-liðum 2. mgr. ekki hafa áhrif á tekjur í rekstrarreikningi. Tekjuskattsstofn eða yfirfæranlegt tap ákvarðast því í samræmi við útfyllingu skattframtalsins á tekjum og gjöldum samkvæmt framansögðum reglum. Á sama hátt ákvarðast eignarskattsstofn í samræmi við útfyllingu skattframtalsins á eignum og skuldum samkvæmt framangreindum reglum.

Um skattskil þessara aðila fer að öðru leyti en að framan greinir eftir sömu reglum og gilda um skattskil lögaðila í íslenskum krónum. Þetta varðar bæði ákvörðun um hvenær og hvernig tekjur eru færðar til tekna og gjöld til frádráttar, svo og um eignir og skuldir.

Umreikningsgengi.

Við umreikning fjárhæða í rekstrarreikningi yfir í íslenskar krónur í skattskilum skal nota meðaltal miðgengis milli kaup- og sölugengis. Við umreikning fjárhæða á efnahagsreikningi skal nota lokakaupgengi við umreikning eignaliða en við umreikning skuldaliða og eigin fjár skal nota lokasölugengi. Nota skal gengisskráningu Seðlabanka Íslands bæði á miðgengi og lokagengi sem meginreglu en telji félag eðlilegra, miðað við færslu bókhalds á árinu, að nota skráningu aðalviðskipabanka þess hérlendis er það heimilt.

Í gögnum með framtali skulu koma fram upplýsingar um umreikninginn og hvaða gengi er notað við umreikning einstakra fjárhæða.

Um lækkun hlutafjár eða slit félaga.

Þegar hlutafélag eða einkahlutafélag ákveður að lækka hlutafé sitt með greiðslu til hluthafa skal hluthafinn telja til tekna sem arð alla útborgun að frádregnum þeim hluta af stofnverði hlutabréfa hans í félaginu sem svarar til hlutfallslegrar lækkunar á hlutafénu. Útborgun skal umreiknast í íslenskar krónur á gengi útborgunardags en stofnverðið á gengi innborgunardags eða kaupdags, sbr. lokamálsl. 2. mgr. 18. gr. laga nr. 90/2003, hafi greiðslur farið fram í erlendum gjaldmiðli.

Hafi einstaklingur eignast hlutabréfin fyrir árslok 1996 er honum heimilt að miða stofnverðið við upphaflegt kaupverð hlutabréfanna í íslenskum krónum þegar það hefur verið hækkað samkvæmt verðbreytingarstuðli fyrir hvert ár til ársloka 1996, eða jöfnunarverðmæti hlutabréfanna, sbr. 3. mgr. 18. gr., sé það hærra.

Upplýsingar til skattyfirvalda.

Skv. 92. gr. laga um tekjuskatt og eignarskatt svo og 12. gr. laga um tryggingagjald skulu upplýsingar til skattyfirvalda sem skylt er að gefa skv. 92. gr. skattalaga varðandi greiðslur til þriðja aðila, um launagreiðslur, verktakagreiðslur og arðgreiðslur og aðrar slíkar greiðslur, vera sama fjárhæð og félagið greiddi í íslenskum krónum til viðkomandi.

Hlutafé félaga skal gefa upp til skattyfirvalda og hluthafa í íslenskum krónum eins og það er skráð hjá hlutafélagaskrá. Ef hlutafé er gefið út í erlendum gjaldmiðli samkvæmt heimild í lögum um hlutafélög og einkahlutafélög skal nafnverð þess gefið upp í íslenskum krónum en við ákvörðun hluthafafundar um útgáfu hlutafjár í erlendum gjaldmiðli skal vera greint frá nafnverði hlutafjár bæði í íslenskum krónum og í erlenda gjaldmiðlinum.

Greinargerð um afdregna staðgreiðslu svo og um tryggingargjald skal byggjast á upprunalegum fjárhæðum á greiðslu afdráttar staðgreiðslu og tryggingargjalds í íslenskum krónum. Í einhverjum tilfellum kann að vera að launagreiðslur fari fram í erlendum gjaldmiðli en þá gildir hin almenna regla um færslu erlendra viðskipta í bókhaldi sem ákvarðar fjárhæðina í íslenskum krónum samkvæmt daggengi (viðskiptagengi) greiðsludagsins.

Skv. 24. gr. laga um virðisaukaskatt gildir það sama um virðisaukaskatt. Öll virðisaukaskattskyld viðskipti fara fram innanlands og reikningar milli íslenskar fyrirtækja skulu byggjast á upprunalegum fjárhæðum í íslenskum krónum. Innskattur annars aðilans í viðskiptum verður að vera í samræmi við útskatt hins aðilans og skil virðisaukaskattsins til ríkissjóðs.

Þau félög sem hafa heimild til færslu bókhalds í starfrækslugjaldmiðli sínum verða því að tilgreina í íslenskum krónum allar fjárhæðir sem skylt er að gera skattyfirvöldum grein fyrir sem og þriðja aðila. Þess vegna getur orðið mismunur á umreiknuðum fjárhæðum úr ársreikningi yfir í íslenskar krónur á framtalseyðublaðinu RSK 1.04 annars vegar og hins vegar á framgreindum tímabilsuppgjörum til skattyfirvalda innan reikningsársins. Gera skal grein fyrir þessum mismun í sérstakri greinargerð með skattframtali.

Virðingarfyllst,
f. h. Ríkisskattstjóra

Guðmundur Guðbjarnason

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum