Beinir skattar

Ákvarðandi bréf nr. 007/2003

3.6.2003

Ný útgáfa laga um tekjuskatt og eignarskatt

3. júní 2003 T-Ákv. 03-007 2003-05-0227

Athygli er vakin á því að þann 15. maí sl. birtust í Stjórnartíðindum endurútgefin lög um tekjuskatt og eignarskatt, nr. 90/2003. Lögin eru að stofni til frá 1978 og voru síðast endurútgefin 1981. Greinaröð hefur tekið breytingum auk þess sem bráðabirgðaákvæði hafa verið felld brott.

Í lögum nr. 64/1943, um birtingu laga og stjórnvaldaerinda, eru ákvæði um gildistöku laga. Í 7. gr. kemur fram að óheimilt sé að beita lögum og stjórnvaldaerindum fyrr en birting samkvæmt ákvæðum laganna hefur farið fram (í Stjórnartíðindum). Þá kemur jafnframt fram hafi lög eigi að geyma sérstakt gildistökuákvæði taki lögin gildi fyrsta dag þess mánaðar er liðnir eru að minnsta kosti þrír almanaksmánuðir frá birtingardegi (útgáfudegi Stjórnartíðinda). Þar sem lög nr. 90/2003, um tekjuskatt og eignarskatt, teljast ekki vera ný lög frá Alþingi heldur eingöngu endurútgáfu á eldri lögum sem þegar hafa öðlast gildi ber almennt að vísa til laganna frá og með birtingu þeirra þann 15. maí 2003. Hefur þetta álit ríkisskattstjóra verið staðfest sérstaklega með bréfi fjármálaráðuneytisins til ríkisskattstjóra, dags. 28. maí 2003.

Kemur þá til álita hvernig vísa skuli til laganna í þeim málum sem er ólokið hjá skattyfirvöldum. Sem dæmi má taka að gjaldanda hafi verið boðaðar gjaldabreytingar og vísað í boðunarbréfi til tilheyrandi ákvæða laga nr. 75/1981, þegar úrskurður er hins vegar kveðinn hafa lög nr. 90/2003 tekið gildi. Eins og að framan greinir ber almennt að byggja ákvarðanir og tilvísanir á lögum nr. 90/2003 frá og með 15. maí 2003. Ef áður hefur í máli verið vísað til ákvæða laga nr. 75/1981 þykir rétt að vísa til þeirra tilvísana og gera jafnframt grein fyrir sömu ákvæðum hinna nýju laga. Niðurstöður og ályktanir verði síðan byggðar á hinum nýju lögum.

Rétt þykir þá eftir atvikum að taka fram í úrskurði að efnislega séu ákvæði laga nr. 90/2003 og laga nr. 75/1981 þau sömu þó svo tilvísanir til ákvæða hafi breyst þar sem töluröð ákvæða hinna nýju laga sé að sumu leyti breytt. Þykir í samræmi við góða stjórnsýsluhætti rétt að vekja athygli á því hvernig töluröð hefur breyst ef á fyrri stigum hefur verið vísað til hinna eldri laga. Meðfylgjandi er tafla um töluröð þar sem fram kemur hvernig töluröð lagagreina hefur breyst. Sú tafla getur fylgt útsendum bréfum til upplýsingar fyrir gjaldendur. Á það ekki hvað síst við í þeim tilvikum þegar skattstjórar hafa þegar samið bréf á grundvelli eldri laga sem ekki hafa þegar verið póstlögð.

Ríkisskattstjóri vill að lokum vekja athygli á tveimur villum í hinum nýju lögum. Annars vegar hefur greinanúmer 21. gr. fallið niður í Stjórnartíðindum, en í sérprentun fjármálaráðuneytisins er greinin birt með réttum hætti. Hins vegar er tilvísun til 78. gr. í 2. málsl. 1. mgr. 81. gr. laga nr. 90/2003 röng og á þar að vera tilvísun til 77. gr. laganna. Eru villur þessa næsta augljósar og ber að horfa framhjá þeim við skattframkvæmd.


Ríkisskattstjóri

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum