Beinir skattar

Ákvarðandi bréf nr. 006/2003

6.5.2003

Beiting 5. mgr. 117. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt.

6. maí 2003
T-Ákv. 03-006
2003-04-0429

Ríkisskattstjóri hefur þann 28. apríl 2003 móttekið bréf yðar dags. 25. apríl 2003.

Í bréfinu kemur fram að íslenskt fyrirtæki hyggist gera samning við fyrirtæki frá B. Íslenska fyrirtækið muni fá greidda þóknun af afnotum tiltekinna hugverkaréttinda. Þá kemur jafnframt fram að 15% skatti verði haldið eftir í B af þeirri þóknun sem greidd er til Íslands. Loks er farið fram á að ríkisskattstjóri staðfesti hvernig 5. mgr. 117. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, verði beitt við álagningu tekjuskatts á Íslandi og upplýst verði hvaða gögn þurfi að fylgja umsókn um lækkun.

5. mgr. 117. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, hljóðar svo:

Nú er eigi fyrir hendi samningur við annað ríki um að komast hjá tvísköttun á tekjur og eignir skv. 1 mgr. og skattaðili, sem skattskyldur er hér á landi skv. 1. og 2. gr., greiðir til opinberra aðila í öðru ríki skatta af tekjum sínum og eignum sem skattskyldar eru hér á landi og er þá skattstjóra heimilt, samkvæmt umsókn skattaðila, að lækka tekjuskatt og eignarskatt hans hér á landi með hliðsjón af þessum skattgreiðslum hans.

Samkvæmt ákvæðinu getur skattstjóri tekið til greina umsókn skattaðila til lækkunar á íslenskum tekjuskatti eða eignarskatti af tekjum eða eignum sem þegar hafa sætt skattlagningu erlendis. Lækkunin getur þó aldrei orðið hærri en svarar þeim sköttum sem lagðir voru á hér á landi vegna teknanna eða eignanna. Hafi skattar erlendis numið lægri fjárhæð en sem svarar greiddum álögðum sköttum hér á landi vegna teknanna eða eignanna takmarkast lækkunin við þá fjárhæð. Með umsókn um lækkun samkvæmt 5. mgr. 117. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, verða að fylgja staðfest gögn um greiddan og álagðan skatt. Gera verður þá kröfu að gögnin séu staðfest af þar til bærum erlendum skattyfirvöldum.

Þrátt fyrir framangreint getur ríkisskattstjóri ekki staðfest að skattstjóri myndi taka til greina umsókn um lækkun í því tilviki sem um ræðir í bréfi yðar. Vísast í því sambandi til þeirra tvísköttunarsamninga sem Ísland hefur gert og tekið hafa gildi hér á landi. Í þeim samningum er meginreglan sú að þóknanir skattleggjast í heimilisfestarríki móttakanda og upprunalandsríki fellur frá skattlagningarrétti sínum. Óeðlilegt sé að móttakendur greiðslna frá ríkjum sem ekki hafa gert tvísköttunarsamning við Ísland njóti hér á landi betri réttar en þeir aðilar sem njóta greiðslna frá samningsríkjum.

Af gefnu tilefni er það tekið fram að bréf yðar er ekki sett fram sem beiðni um bindandi álit, sbr. lög nr. 91/1998, enda lagaskilyrðum um slíkt álit ekki fullnægt. Svar ríkisskattstjóra telst því ekki bindandi álit í skilningi tilvitnaðra laga.

Ríkisskattstjóri.

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum