Beinir skattar

Ákvarðandi bréf nr. 005/2003

14.5.2003

Vistun barna í heimahúsum.

14. maí 2003 T-Ákv. 03-005 2003-02-0329

Ríkisskattstjóri hefur móttekið bréf yðar dags. 17. feb. 2003. Bréfið varðar skattalega meðferð á greiðslum og frádrætti vegna barna sem sett eru í fóstur af barnaverndarnefndum eða meðferðarstofnunum.

Í skattmatsreglum og í leiðbeiningum ríkisskattstjóra vegna skattframtala einstaklinga 2003, segir svo um fósturbörn:

Greiðslur vegna barna sem sett eru í fóstur af barnaverndarnefnd eða meðferðarstofnun færast sem tekjur. Á móti má færa frádrátt sem svarar til tvöfalds barnalífeyris, en þó aldrei hærri fjárhæð en greiðslunum nemur. Tvöfaldur barnalífeyrir nam á árinu 2002 kr. 361.824 eða kr. 991 á dag. Gera skal grein fyrir greiðslum og frádrætti frá þeim á sér blaði sem fylgja skal framtalinu og niðurstaðan færist síðan í lið 2.3, í ótölusettan reit á framtali.

Í bréfi skattstjóra kom fram að í hans skattumdæmi væru a.m.k. þrjú sveitaheimili sem hafa tekið börn í vistun, og sent inn til skattstjóra rekstraryfirlit vegna þessarar starfssemi. Þá hafa Bændasamtök Íslands og Landssamtök vistforeldra í sveitum einnig leitað til ríkisskattstjóra varðandi þetta málefni og frá þeim hafa borist upplýsingar varðandi kostnað vegna barna sem dvelja á sveitaheimilum.

Ríkisskattstjóri hefur yfirfarið þessi gögn og upplýsingar frá ofangreindum aðilum. Í framhaldi af því hefur ríkisskattstjóri ákveðið að eftirfarandi reglur gildi um vistun barna, m.a. á sveitaheimilum á vegum meðferðarstofnana og barnaverndarnefnda.

Þegar skattaðili tekur börn í vistun á vegum meðferðarstofnana og barnaverndarnefnda gegn greiðslu skulu greiðslur þær sem hann hlýtur fyrir teljast til tekna sem rekstrartekjur. Sannanlegan kostnað samkvæmt reikningum, sem beint tengjast þessum rekstri, má færa sem rekstrargjöld sbr. 1. tl. 31. gr. laga nr.75/1981 um tekjuskatt og eignarskatt. Gera skal sérstakan rekstrarreikning vegna þessarar starfsemi og skal henni ekki blandað saman við aðra starfsemi svo sem landbúnað, sem færist á landbúnaðarskýrslu eða aðra starfsemi sem viðkomandi kann að hafa með höndum. Niðurstaða þessa rekstrar færist síðan á samræmingarblað ásamt niðurstöðum af öðrum rekstri og þaðan í reiti 24 og 62 á skattframtali eftir því sem við á.

Þegar um er að ræða vistun eins eða tveggja barna í senn eða greiðslur fyrir tilfallandi vistun á börnum, þ.e. ekki er um reglubundna starfsemi að ræða er heimilt að draga frá, í stað kostnaðar skv. reikningum, fjárhæð samkvæmt framangreindu skattmati. Vegna hvers barns svarar sú fjárhæð til tvöfalds barnalífeyris á hverjum tíma. Frádráttur þessi má þó aldrei vera hærri fjárhæð en sem nemur greiðslu fyrir vistunina.

Ríkisskattstjóri.

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum