Beinir skattar

Ákvarðandi bréf nr. 004/2003

10.4.2003

Safnreikningar

10. apríl 2003
T-Ákv. 03-004
2003-03-0068

Ríkisskattstjóri hefur þann 7. mars 2003 móttekið erindi yðar, dags. 4. mars s.á. Í erindinu er óskað eftir staðfestingu ríkisskattstjóra á því að tiltekið vinnulag yðar við opnun viðskiptareiknings (vörslureiknings) erlends aðila hér á landi í formi safnreiknings (e. nominee account), sé fullnægjandi að teknu tilliti til laga og þeirra vinnureglna sem ríkisskattstjóri fylgir þegar undanþágur frá greiðslu fjármagnstekjuskatts á vaxtatekjur eru veittar.

Fyrirspurnin lýtur að því þegar verðbréfafyrirtæki halda utan um eignir viðskiptamanna sinna á sérstökum reikningi (safnreikningi) og taka við greiðslum fyrir hönd viðskiptamanna sinna frá einstökum útgefendum verðbréfa. Samkvæmt 2. málsl. 5. mgr. 19. gr. laga nr. 13/1996, um verðbréfaviðskipti, ber verðbréfafyrirtæki að halda skrá yfir eignarhlut hvers viðskiptamanns fyrir sig.

Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. laga nr. 94/1996, um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur, eru allir þeir sem fá vaxtatekjur og arðstekjur skyldir til að sæta afdrætti staðgreiðslu af þeim tekjum. Þeir einir eru undanþegnir skyldu samkvæmt 1. mgr. 2. gr. sem upp eru taldir í 3. mgr. 2. gr. laganna. Ennfremur eru vaxtatekjur þeirra sem eigi eru með heimilisfesti hér á landi skv. 1. eða 2. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, ekki skattskyldar hér á landi, sbr. gagnályktun frá 3. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Um staðgreiðsluskyldu arðs til erlendra lögaðila gilda lög nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, eins og nánar er gerð grein fyrir hér á eftir.

Samkvæmt 3. gr. laga nr. 94/1996 hvílir skylda til að draga staðgreiðslu af vöxtum og skila í ríkissjóð á innlendum innlánsstofnunum, verðbréfafyrirtækjum, verðbréfamiðlurum, eignarleigufyrirtækjum og öðrum fjármálastofnunum, lögmönnum, löggiltum endurskoðendum og öðrum fjárvörsluaðilum, tryggingafélögum, svo og sérhverjum öðrum aðilum sem hafa atvinnu af fjárvörslu, milligöngu eða innheimtu í verðbréfaviðskiptum eða annast innheimtu fyrir aðra. Skylda til að draga staðgreiðslu af arði og skila í ríkissjóð hvílir á lögaðilum, sbr. 1. tölul. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt.

Eins og segir eru allir þeir sem fá vaxtatekjur og arðstekjur skyldir til að sæta afdrætti staðgreiðslu af þeim tekjum, sbr. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 94/1996, nema þeir séu sérstaklega undanþegnir slíkum afdrætti í 3. mgr. 2. gr. sömu laga. Skilaskyldan hvílir því almennt á þeim sem annast greiðslu til rétthafa kröfunnar.

Í þeim tilvikum þegar verðbréfafyrirtæki halda utan um eignir viðskiptamanna sinna á safnreikningi, sbr. 7. tölul. 2. gr. laga nr. 13/1996, um verðbréfaviðskipti, og taka við greiðslum fyrir hönd viðskiptamanna sinna frá einstökum útgefendum verðbréfa, er það ekki verðbréfafyrirtækið sem fær vaxtatekjur og arðstekjur í skilningi 1. mgr. 2. gr. laga nr. 94/1996, heldur eru það þeir viðskiptamenn verðbréfafyrirtækisins sem eiga eignir á safnreikningnum. Eðli safnreikninga er með þeim hætti að upplýsingar um raunverulega rétthafa tekna liggja almennt ekki fyrir og því verulegum vandkvæðum bundið fyrir greiðendur fjármagnstekna að gera sér grein fyrir skattalegri stöðu einstakra rétthafa á bak við safnreikninga. Greiðanda má því almennt ekki vera kunnugt um hvort meðal viðskiptamanna verðbréfafyrirtækisins, sem eignir eiga á safnreikningnum, séu aðilar sem sæta skulu afdrætti fjármagnstekjuskatts (eða eftir atvikum staðgreiðslu opinberra gjalda) eða hvort um er að ræða aðila sem undanþegnir eru skyldu til að greiða fjármagnstekjuskatt skv. 3. mgr. 2. gr. laga nr. 94/1996 eða kunna af öðrum sökum að njóta skattalegrar sérstöðu. Í ljósi þessa og með vísan til hinnar almennu skyldu til greiðslu 10% staðgreiðsluskatts á fjármagnstekjur samkvæmt lögum nr. 94/1996 telur ríkisskattstjóri að skilaskyldir aðilar sem greiða fjármagnstekjur til safnreiknings, sbr. 7. tölul. 2. gr. og 19. gr. laga nr. 13/1996, um verðbréfaviðskipti, skuli halda eftir 10% staðgreiðsluskatti í ríkissjóð sbr. lög nr. 94/1996, um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur.

Samkvæmt 3. og 7. gr., sbr. 2. gr. laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, er vörsluaðili safnreiknings staðgreiðsluskyldur samkvæmt ákvæðum þeirra laga. Ef rétthafi arðstekna á safnreikningi er erlendur lögaðili, ber vörsluaðila safnreikningsins því að sjá um að afdreginn skattur af arði sem færður er viðkomandi til tekna á safnreikningi hans sé réttur, þ.e. 15%, sbr. 6. tölul. 5. gr. og A-lið 2. gr. laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, sbr. 2. tölul. 71. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Að því gefnu að haldið hafi verið eftir 10% skatti samkvæmt lögum nr. 94/1996, um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur, af þeim tekjum, á viðkomandi rétt á endurgreiðslu þess skatts. Vörsluaðili safnreiknings skal ennfremur halda eftir staðgreiðslu tekjuskatts af söluhagnaði af hlutabréfum ef vörsluaðilinn selur hlutabréf í eigu reikningseiganda með hagnaði í þeim tilvikum þegar rétthafinn er erlendur lögaðili, sbr. 6. tölul. 5. gr., sbr. A-lið 2. gr. laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, sbr. 2. tölul. 71. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt.

Í þeim tilvikum þegar aðili er undanþeginn greiðslu fjármagnstekjuskatts skv. 3. mgr. 2. gr. laga nr. 94/1996, en þarf að sæta afdrætti fjármagnstekjuskatts samkvæmt framansögðu, getur hann sótt um endurgreiðslu þess fjármagnstekjuskatts. Sama gildir um þá erlendu aðila sem greitt hafa staðgreiðslu opinberra gjalda af arði en eiga rétt á ívilnun vegna ákvæða í tvísköttunarsamningi. Slíkir aðilar geti fengið vottorð um skattaleg réttindi sín hjá ríkisskattstjóra sé þess óskað til þess að skattur verði ekki reiknaður í staðgreiðslu. Án slíks vottorðs er fjárvörsluaðila skylt að sjá til þess að haldið sé eftir 15% staðgreiðsluskatti af arði eins og rakið hefur verið hér að framan. Hafi vextir sem sætt hafa afdrætti fjármagnstekjuskatt verið greiddir inn á safnreikninga, geta eigendur þeirra, sem bera takmarkaða skattskyldu hér á landi sótt um endurgreiðslu afdregins fjármagnstekjuskatts á þar til gerðu eyðublaði sem ríkisskattstjóri hefur útbúið, sbr. eyðublaði RSK 5.35.

Ríkisskattstjóri.

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum