Beinir skattar

Ákvarðandi bréf nr. 003/2003

10.2.2003

Líkamsræktarstyrkir til lögreglumanna

10. febrúar 2003
T-Ákv. 03-003
2002-12-0103

Vísað er til bréfs yðar, dags. 4. desember sl., varðandi ofangreint efni. Í bréfinu er það rakið að það sé hluti af starfsskyldum lögreglumanna að stunda líkamsþjálfun til þess að vera hæfir til að gegna starfi sínu. Kemur fram að gerð sé krafa um að lögreglumenn standist kröfu um líkamlegt atgervi að teknu tilliti til aldurs og starfa á hverjum tíma og sé gott líkamlegt ástand eitt af almennum skilyrðum fyrir inngöngu í lögreglu lögum samkvæmt. Fram kemur að lengi framan af hafi lögreglan haft íþróttahús og íþróttaaðstöðu á Seltjarnarnesi sem hún átti og rak og að þar hafi farið fram íþróttaþjálfun undir stjórn þjálfara. Þessi aðstaða hafi síðan verið lögð niður á áttunda áratugnum. Frá þeim tíma hafi aðstaða verið leigð í íþróttahúsum og fengnir íþróttakennarar til þess að sjá um þann hluta þjálfunar sem fram fari innanhús og verið hluti lögregluþjálfunar. Kemur fram að þetta fyrirkomulag hafi reynst ágætlega en vegna þeirra breytinga sem hafi orðið á skipulagi lögreglu svo sem vegna þess að vöktum hafi fjölgað hafi reynslan orðið sú að hóparnir hafi orðið fleiri en áður en að sama skapi færri í hverjum hópi. Þetta hafi leitt til þess að leigutímum í íþróttahúsum hafi fjölgað með tilheyrandi kostnaði. Fram kemur að fyrir nokkrum árum hafi verið farin sú leið að kaupa aðgang fyrir lögreglumenn hjá líkamsræktarstöðvum þannig að þeir geti nú sótt tíma þegar þeim hentar og geti með því móti fengið þá íþróttaþjálfun og leiðbeiningu sem gerir þeim kleift að halda sér í líkamsþjálfun svo sem áskilið er. Með reglulegum þrekprófum sé fylgst með líkams- og þrekþjálfun en við ýmis störf lögreglumanna séu kröfur um mjög gott líkamlegt ástand og skilyrði fyrir því að gegna megi ákveðnum störfum. Í bréfi yðar kemur fram að þetta fyrirkomulag geti að áliti ríkislögreglustjórans ekki talist til hlunninda starfsmanna í skilningi skattalaga. Ekki er þessi ályktun studd við neinar lagatilvísanir.

Tilefni skrifa ríkislögreglustjórans er efni ákvarðandi bréfs ríkisskattstjóra, dags. 20. mars 2000, en bréf þetta er birt á heimasíðu embættisins http://www.rsk.is. Í bréfi þessu kemur fram að þegar vinnuveitandi tekur að sér að greiða fyrir tíma í líkamsrækt eða aðrar sambærilegar greiðslur fyrir starfsmenn sína teljist það vera skattskyldar tekjur með vísan til 1. tölul. A-liðs 7. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Lögin um tekjuskatt og eignarskatt nr. 75 frá 1981 byggja á afar víðtæku tekjuhugtaki og er meginákvæðið að finna í nefndri 7. gr. laganna. Í 28. gr. sömu laga er síðan kveðið á um það hvað teljist ekki til tekna samkvæmt lögunum. Almennt er gengið út frá því að í nefndum 1. tölul. A-liðs 7. gr. að skattskylda tekna ráðist ekki af því hvort laun eru greidd í reiðufé eða fríðu. Þannig hefur verið litið á það í skattframkvæmd að þegar launagreiðandi tekur að sér að greiða tiltekin útgjöld launamanna sinna þá sé þar um að ræða laun viðkomandi starfsmanna sem þeim ber að telja til tekna. Ákveðin frávik frá þessari reglu má finna í 6. gr. reglugerðar nr. 483/1994, um frádrátt frá tekjum af atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi, þar sem kveðið er á um að fyrirtækjum sé heimilt að draga frá tekjum sínum kostnað vegna almennrar heilsubótaraðstöðu án þess að slíkur kostnaður yrði talinn starfsmönnum til tekna. Ekki verður séð að þetta ákvæði eigi við í tilviki ríkislögreglustjórans, þar sem af bréfi hans verður ráðið að slíkri aðstöðu sé ekki fyrir að fara í húsakynnum þess embættis.

Í bréfi yðar virðist byggt á þeirri forsendu að þar sem lögreglan gerir ríkar kröfur um líkamlegt atgervi hafi sú staðreynd úrslitaþýðingu við mat á því hvort greiðsla á kostnaði við líkamsrækt starfsmanna teljist til skattskyldra tekna. Af því tilefni skal áréttað að ástundun líkamsræktar telst almennt til persónulegra útgjalda þeirra sem hana stunda. Ekki þarf að fjölyrða um að algengt er að almenningur leggi stund á líkamsrækt, hvort sem vinnuveitendur krefjist góðs líkamlegs atgervis eður ei. Raunar má almennt ganga út frá því vinnuveitendur vilji hafa starfsfólk sitt í góðu líkamlegu standi, enda má leiða að því líkur að sá sem er vel á sig kominn líkamlega sé almennt betur í stakk búinn að takast á við sérhver verkefni fremur en sá sem lítt hefur lagt rækt við heilsu sína og líkama. Mjög algengt er nú orðið að vinnuveitendur greiði líkamsræktarkostnað fyrir starfsmenn sína. Slíkur kostnaður telst til skattskyldra tekna samkvæmt 1. tölul. A-liðs 7. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Er hér um að ræða venjulegan persónubundinn kostnað manna og breytist sú staðreynd ekki við það að líkamsræktin sé æskileg og eftir atvikum nauðsynleg fyrir starf viðkomandi starfsmanns. Það er þó ekki loku fyrir það skotið að kostnaður af þessum toga geti í ákveðnum tilvikum talist falla utan ramma persónubundinna útgjalda starfsmanna. Það myndi vera í þeim tilvikum þegar um er að ræða kostnað sem er vegna æfinga sem fara fram úr venjulegri líkamsrækt og hægt er að tengja með rökstuddum hætti við eðli hlutaðeigandi starfs. Ríkisskattstjóri telur því að ef ríkislögreglustjórinn greiddi kostnað umfram venjulega líkamsrækt (eins og t.d. umfram kostnað við árskort í líkamsræktarstöð vegna sérstakrar þjálfunar) þá myndi slíkur umfram kostnaður geta fallið utan skattskyldra tekna viðkomandi starfsmanna. Skilyrði fyrir slíku væri að sýnt væri fram á með gildum rökum að viðbótarþjálfunin væri svo beint tengd hlutaðeigandi starfi að ekki væri unnt að líta á það sem persónubundin útgjöld starfsmanns heldur fremur þátt í starfsemi viðkomandi launagreiðanda. Ekki liggur fyrir hvernig þessu hagar til hjá ríkislögreglustjóranum eða hjá lögregluembættum almennt og þykir því ekki ástæða að fjalla frekar um þetta á þessu stigi.

Með vísan til þess sem að framan er rakið þykir rétt að ítreka að þegar launagreiðandi tekur að sér að kaupa aðgang að líkamsrækt fyrir starfsmenn sína þá telst sá kostnaður til tekna sem laun hjá viðkomandi starfsmönnum. Það gildir þó ekki þegar um er að ræða kostnað sem er umfram það sem telja má venjulegan kostnað við almenna líkamsrækt (eins og árskort í líkamsræktarstöð), enda sé í þeim tilvikum sýnt fram á að viðbótarkostnaður teljist ekki til persónubundins kostnaðar launamanns í samræmi við það sem að ofan greinir.

Ríkisskattstjóri.

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum