Beinir skattar

Ákvarðandi bréf nr. 002/2003

16.1.2003

Sjúkdóma- og líftryggingar hjá rekstraraðilum.

16. janúar 2003
T-Ákv. 03-002
2002-11-0515

Þann 26. nóvember sl., senduð þér með tölvupósti fyrirspurn um ofangreint efni. Í fyrirspurninni segir svo:

Rekstraraðili, sem jafnframt er starfsmaður við reksturinn (einyrki, verktaki, ehf. eða hf.), hyggst taka sér sjúkdóma- og / eða líftryggingu hjá Líftryggingafélaginu X. Fyrirtækið er vátryggingartaki en starfsmaðurinn hinn vátryggði (í tilfelli einyrkja, verktaka (ein kennitala) er vátryggingartaki og hinn vátryggði á tryggingunum sami lögaðili (sic)).

  1. Telst mánaðarlegt iðgjald trygginganna til rekstrarkostnaðar?, þ.e. er heimilt að gjaldfæra iðgjöldin?
  2. Telst mánaðarlegt iðgjald til hlunninda hjá hinum vátryggða?
  3. Telst greiðsla bóta til skilyrtra réttinda og þar með undanþegin eignarskatti?
  4. Hvernig eru bætur meðhöndlaðar í skattalegu tilliti miðað við málavexti hér að ofan?

Rétt er í upphafi að taka fram að þegar um er að ræða einstakling í atvinnurekstri verður að gera greinarmun á skattalegu uppgjöri rekstrarins og einstaklingsins, en inn á persónuframtal hans færist niðurstaða rekstrarins auk þess sem þar færist reiknað endurgjald mannsins. Rekstrarkostnaður og rekstrartekjur koma fram á rekstrarreikningi og ef um hagnað er að ræða þá færist sú fjárhæð á persónuframtalið og sama gildir um niðurstöðutölu efnahagsreiknings.

Áður en fjallað er um einstaka liði í fyrirspurn yðar skal það tekið fram að líftrygging telst ávallt vera persónulegur kostnaður viðkomandi einstaklings (hins vátryggða) og telst því sem slík ekki rekstrarkostnaður í skilningi skattalaga. Iðgjöld vegna slíkrar tryggingar er því ekki heimilt að gjaldfæra í skattskilum rekstraraðila óháð rekstrarformi hans nema þá sem laun. Ef slík trygging er þannig hluti af launakjörum starfsmanns þá fer um kaup á slíkri tryggingu eins og önnur laun, þ.e. iðgjöldin mynda þá stofn til tryggingagjalds 1. mgr. 6. gr. laga nr. 113/1990, um tryggingagjald, og reiknast af þeim staðgreiðsla opinberra gjalda eins og af öðrum launum, sbr. 1. tölul. 5. gr. laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda. Launagreiðslur af þessum toga ber síðan að gefa upp á launamiða sbr. 92. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og er slík launauppgjöf raunar forsenda heimildar til gjaldfærslu í skattskilum sbr. 31. gr. sömu laga. Ef um er að ræða einstakling í atvinnurekstri þá gilda um skattuppgjör hans nokkuð aðrar reglur þar sem laun hans eru svonefnd reiknuð laun af atvinnurekstri. Einstaklingum í atvinnurekstri er því ekki heimilt að færa til gjalda í skattskilum sínum kostnað vegna kaupa á líftryggingu heldur bæri að halda slíkum útgjöldum utan skattskilanna, enda verða þau ekki talin kostnaður til að afla teknanna, tryggja þær eða halda þeim við í skilningi 31. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt.

Sömu sjónarmið og reifuð voru hér að framan um líftryggingar eiga ekki að öllu leyti við um slysa- og sjúkdómatryggingu í skattalegu tilliti. Ef slík trygging felur í sér greiðslu dagpeninga, þ.e. greiðslu tiltekinnar fjárhæðar á dag vegna sjúkdóms eða slyss, væri heimilt að færa iðgjöld vegna slíkrar tryggingar til gjalda í skattskilum án þess að það kæmi skattskilum starfsmanns við, enda sé atvinnurekandi að tryggja sig gegn forföllum starfsmanns. Ef tryggingin felur aftur á móti í sér rétt á greiðslu örorkubóta til starfsmanns vegna slyss eða sjúkdóms þá telst kostnaður við slík tryggingarkaup ekki rekstrarkostnaður í skattalegu tilliti, heldur yrði litið á það sem persónuleg útgjöld þess er nýtur og myndi þannig farið með sama hætti og reifað er hér að framan um líftryggingar, enda væri starfsmaður þá hinn vátryggði og þar með rétthafi bótanna. Þegar um einstakling í atvinnurekstri er að ræða væri heimilt að færa til gjalda iðgjöld vegna slysa- og sjúkdómatryggingar er tryggja hinum vátryggða (rekstrinum) dagpeninga í forföllum. Iðgjöld vegna kaupa á vátryggingu þar sem tryggt er gegn örorku eða andláti geta hins vegar ekki talist rekstrarkostnaður hjá slíkum aðila og fer um slíkt með sama hætti og reifað var um líftryggingar hér að framan.

Það skal sérstaklega tekið fram að framangreind umfjöllun gengur út frá því að hinn vátryggði sé ekki starfsmaðurinn eins og ýjað er að í fyrirspurn yðar. Hinn vátryggði verður í öllum tilvikum að vera vátryggingartakinn, þ.e. rekstraraðilinn, nema þegar um það er að ræða að greiðsla iðgjaldanna sé launagreiðsla, sbr. framangreint. Það þýðir að komi til útgreiðslu úr tryggingunni eru bæturnar/greiðslurnar færðar til tekna í rekstrinum og greiðast þannig ekki beint til starfsmanns. Rökin fyrir frádráttarbærni iðgjaldanna eru einmitt þau að reksturinn er að tryggja sig fyrir fjarveru starfsmanns (eða eftir atvikum einyrkjans) og fær þannig greiðslur til að standa straum af launakostnaði vegna fjarvista í samræmi við ákvæði kjarasamninga eða eftir atvikum til að verða sér út um annað starfslið eða með öðrum hætti takmarka það tjón sem hlýst af fjarveru starfsmannsins. Fái starfsmaðurinn síðan greiðslur frá rekstraraðilanum í veikinda -eða slysaforföllum sínum þá er litið á það sem laun í skattalegu tilliti.

Að því er varðar eignarskatt þá virðist gæta ákveðins misskilnings í fyrirspurninni. Greiðsla bóta sem slík myndar ekki skyldu til greiðslu eignarskatts. Eignarskattur er ákveðinn miðað við eignastöðu um áramót og skiptir í sjálfu sér engu máli hvort eignirnar eru til komnar vegna útgreiðslu vátryggingabóta eða einhvers annars. Hugsanlegur bótaréttur vegna óorðinna tjónsatvika myndar að sjálfsögðu ekki eignarskattsstofn. Sama gildir þegar bótaréttur er sannanlega umdeildur.

Ríkisskattstjóri.

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum