Beinir skattar

Ákvarðandi bréf nr. 013/2002

3.12.2002

Úrelding gróðurhúsa

3. desember 2002 T-Ákv. 02-013 2002-11-0496

Í bréfi sem dagsett er 22. nóvember sl. og móttekið hjá ríkisskattstjóra 27. nóvember sl. er spurt um heimild til gjaldfærslu á eftirstöðvum bókfærðs verðs gróðurhúss. Málsatvik eru þau að á árunum 2002-2006 greiðir ríkissjóður bætur fyrir úreldingu gróðurhúsa sem ylræktað grænmeti var framleitt í á árunum 2000 og 2001. Gróðurhús sem hafa verið úrelt má ekki nota til framleiðslu og sölu garðyrkjuafurða til 31. desember 2011. Eigendur gróðurhúsa skulu jafnframt undirrita yfirlýsingu um að gengið verði þannig frá úreltum gróðurhúsum að ekki skapist hætta af þeim né að þau séu lýti á umhverfinu. Greiðslurnar eru skattskyldar rekstrartekjur á því ári sem samningur er undirritaður og réttur til þeirra stofnast. Spurt er hvort heimilt verði að gjaldfæra bókfært verð húsanna á þessu ári þó ekki verði búið að rífa þau í árslok. Skammt sé til áramóta og því vinnist ekki tími til að rífa þau en kostnaður við niðurrif þeirra verður viðráðanlegri ef eigandi vinni sem mest af verkinu sjálfur. Í bréfinu segir m.a.:

Fyrirspurn mín til embættisins er hvort fyrna megi húsin að fullu ef eitthvert eftirtalinna atriða kemur til framkvæmda fyrir áramót.

  1. Þinglýstur samningur sem kveður á um bann við allri framleiðslu í húsunum næstu tíu ár og krafa um að húsin verði ekki til lýta á umhverfi né til skaða í umhverfi sínu. Þetta ákvæði kallar í okkar tilfelli á að húsin verði rifin á næsta misseri eða næstu misserum.
  2. Gler verði tekið úr veggjum að hluta.
  3. Rafmagnstöflur aftengdar.

Þegar vorar yrði síðan haldið áfram við að rífa húsin og fjarlægja þau. Það er grundvallaratriði fyrir ábúendur á [Y..] að hægt verði að hætta rekstri þannig að greiddar verði áhvílandi skuldir. Verði okkur ekki heimilað að úrelda húsin að fullu og þurfum þess vegna að greiða skatt af úreldingarbótum erum við illa sett. Rekstrargrundvöllur er ekki til staðar og ekkert fyrirsjáanlegt annað en að reksturinn fari í þrot ef ekki er hætt á þessum tímapunkti.

Heimilt er að gjaldfæra eign að fullu sem ónýta þegar fyrir liggur að hún verði ekki notuð framar í atvinnurekstri og að hún er óseljanleg. Samkvæmt 1. mgr. 27. gr. laga nr. 6 frá 2001 skal skráð matsverð fasteignar vera gangverð umreiknað til staðgreiðslu, sem ætla má að eignin hefði í kaupum og sölum í nóvembermánuði næst á undan matsgerð, miðað við heimila og mögulega nýtingu fasteignarinnar á hverjum tíma. Ekki er fallist á að fasteign sem enn er í fasteignamati sé gjaldfærð að fullu. Það er mat ríkisskattstjóra að ef fyrir liggur þinglýstur samningur sem kveður á um bann við framleiðslu garðyrkjuafurða í gróðurhúsum til 31. desember 2011 og niðurrif þeirra er hafið fyrir áramót, svo sem með því að taka gler úr gluggum að hluta og aftengja rafmagnstöflur, þá megi fresta tekjufærslu á þeim hluta úreldingabóta til ársins 2003 sem nemur bókfærðu verði húsanna í árslok 2002. Skattframtali 2003 skal fylgja undirrituð yfirlýsing um að lokið verði við að rífa húsin á árinu 2003 og nauðsynlegar ráðstafanir verði gerðar til að þau fari úr fasteignamati.

Ríkisskattstjóri.

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum