Beinir skattar

Ákvarðandi bréf nr. 012/2002

3.12.2002

Um frádrátt vegna gjafa og styrkja til stjórnmálaflokka

3. desember 2002 T-Ákv. 02-012 2002-11-0051

Ríkisskattstjóri vísar til bréfs yðar, dags. 1. nóvember sl., þar sem spurst er fyrir um hvort styrkir eða gjafir til [X] teljist til frádráttarbærs rekstrarkostnaðar í skilningi skattalaga. Um félagið segir svo í bréfinu:

[X] er félagasamtök sem hyggjast reyna að stuðla að frelsi einstaklingsins með fræðslu og kynningu á málefnum frjálshyggjunnar. Til fjármögnunar þessara verka mun félagið leita til fyrirtækja um fjárhagslegan stuðning.

Í 2. tölul. 31. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, sbr. 3. gr. laga nr. 147/1994, segir svo:

Einstakar gjafir og framlög til kirkjufélaga, viðurkenndrar líknarstarfsemi, menningarmála, stjórnmálaflokka og vísindalegra rannsóknarstarfa, þó ekki yfir 0,5% af tekjum skv. B-lið 7. gr. á því ári sem gjöf er afhent. Fjármálaráðherra ákveður með reglugerð hvaða málaflokkar og stofnanir falla undir þennan tölulið.

Á grundvelli nefnds lagaákvæðis hefur fjármálaráðherra sett ákvæði í reglugerð nr. 483/1994, um frádrátt frá tekjum af atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi. Ákvæði þessi sem eru í 15.-18. gr. reglugerðarinnar eru svohljóðandi:

Frádráttur vegna gjafa til menningarmála o.fl.

15. .gr.

Frá tekjum af atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi má draga einstakar gjafir og framlög til þeirra málaflokka sem greinir í 16. gr., þó ekki [yfir]1) 0,5% af tekjum skv. B-lið 7. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt.

Skilyrði fyrir frádrætti skv. 1. mgr. er það að framteljandi leggi fram móttökukvittun með framtali sínu frá stofnun, sjóði eða félagi sem fellur undir 16. gr. reglugerðar þessarar.

Viðkomandi stofnun, sjóður eða félag skal hafa sett sér skipulagsskrá, lög eða samþykktir yfir starfsemi sína. Undanþegin þessu ákvæði er starfsemi á vegum ríkissjóðs og stofnana hans eða sveitarsjóða og stofnana þeirra, svo og starfsemi sú er tilgreind er í D-lið 16. gr. reglu­gerðar þessarar.

Árstillög félagsmanna og styrktarfélaga teljast ekki til gjafa í þessu sambandi.

16. .gr.

Málaflokkar skv. 15. gr. eru:

  1. Hvers konar menningarmálastarfsemi fyrir almenning, svo sem byggingar skólahúsa og íþróttamannvirkja, rekstur skóla, íþróttastarfsemi, fræðiritaútgáfa, fræðslukvikmyndagerð, bóka-, skjala-, lista og minjasöfnun, bókmennta- og listastarf­semi, verndun fornra mannvirkja og sérstæðra náttúrufyrirbrigða, skóggræðsla, sandgræðsla, verndun fiskimiða o.fl. sem til menningarmála heyrir.

  2. Hvers konar vísindaleg rannsóknarstarfsemi, hvort heldur er á sviði hugvísinda eða raunvísinda.
  3. Hvers konar viðurkennd líknarstarfsemi. Hér til telst m.a. bygging og rekstur sjúkrahúsa, heilsugæslustöðva, elliheimila, vöggustofa, barnaheimila, stofnana fyrir drykkjusjúklinga og lamaða og fatlaða og annarra hliðstæðra stofnana. Hér til teljast enn fremur slysavarnir á landi, sjó og lofti.
  4. Starfsemi Þjóðkirkjunnar og annarra opinberlega viðurkenndra trúfélaga, er söfnuði hafa hér á landi, starfsemi deilda innan slíkra safnaða, svo og hver önnur viðurkennd kirkjuleg starfsemi.
  5. Stjórnmálaflokkar.

17. .gr.

Á móttökukvittunum skv. 15. gr. skal koma fram nafn og heimili gefanda, hver gjöfin er og hvert verðmæti hennar er. Tekið skal fram að um gjöf sé að ræða og fjárhæðin skal tilgreind í bókstöfum og tölustöfum.

18. .gr.

Aðilum sem gefa út móttökukvittanir, sbr. 15. gr., skal skylt að senda skattyfirvöldum ársreikninga ásamt lögum, reglugerð eða skipulagsskrá yfir starfsemi sína sé um það beðið.

Bréfi yðar fylgdi hvorki afrit samþykkta samtakanna né ítarleg umfjöllun um þau að öðru leyti. Hér að framan hafa verið raktar þær reglur sem helst koma til álita í þessu efni. Regla 2. tölul. 31. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, er undanþáguákvæði sem ekki verður skýrt rúmri skýringu. Miðað við fyrirliggjandi lýsingu á starfsemi [X] sýnist þar vera um að ræða stjórnmálasamtök. Það eitt er þó ekki nægilegt heldur þarf að vera um að ræða stjórnmálaflokk samkvæmt áskilnaði lagaákvæðisins.

Við skýringu á hugtakinu stjórnmálaflokkur er ekki að finna mikla leiðbeiningu í lögskýringargögnum, þó þar sýnist helst hafa verið lagt til grundvallar að um sé að ræða samtök, sem starfa með skipulegum hætti, í þeim tilgangi að bjóða fram í eigin nafni til Alþingiskosninga. Í löggjöf má finna hugtakið stjórnmálaflokkur á stangli. Benda má á tvenn lög sérstaklega í því sambandi, þ.e. annars vegar lög nr. 29/1963, um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins og arftaka þeirra laga nr. 1/1997, um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins, og hins vegar lög nr. 62/1978, um bann við fjárhagslegum stuðningi erlendra aðila við íslenska stjórnmálaflokka og blaðaútgáfu sendiráða á Íslandi. Í þessum lögum er ekki að finna afdráttarlausa skilgreiningu á hugtakinu stjórnmálaflokkur. Ef frumvörp að lögunum eru skoðuð og umræður á Alþingi um það kemur í ljós að löggjafinn hefur haft ákveðnar skoðanir á hvert inntak hugtaksins stjórnmálaflokkur er og er það sú sem lýst er hér að framan, þ.e. sérhver þau samtök, sem starfa með skipulegum hætti, í þeim tilgangi að bjóða fram í eigin nafni til Alþingiskosninga. Rök mæla með því að sama gildi um samtök eða flokka sem bjóða fram í eigin nafni til sveitarstjórnarkosninga. Samtök sem starfa að framboði einstaklinga í kosningum, hvort sem um er að ræða prófkjör til Alþingis eða sveitarstjórna eða öðrum kosningum þar sem andlag kosninganna er einstaklingur en ekki flokkurinn getur því ekki talist stjórnmálaflokkur í skilningi laga.

Framangreind frádráttarregla 31. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, verður ekki skýrð rúmri skýringu. Við skýringu á hugtakinu verður að horfa til annarra laga og gæta samræmis við lögskýringar. Það er afar vafasamt að ætla að tilgangur löggjafans þegar ákveðið var að heimila starfsmönnum stjórnmálaflokka aðgang að Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins hafi verið annar en sá að það væri átt við stjórnmálaflokka í hefðbundnum skilningi þess orðs og lýst er hér að framan.

Með vísan til þess sem hér hefur verið að framan rakið telur ríkisskattstjóri að áhugamannafélög um stjórnmál eða tilteknar stjórnmálastefnur falli ekki undir 2. tölul. 31. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Á þessi skilningur sér stoð í lögskýringargögnum að baki lögum nr. 122/1993, þar sem núgildandi ákvæði 2. tölul. 31. gr. laga nr. 75/1981 kom í lög og samanburðarskýringu við önnur lög sem nefna hugtakið stjórnmálaflokkur. Ekki liggja fyrir samþykktir [X] eða nánari upplýsingar um félagsskap þennan, né hvort það félag hyggist bjóða fram fyrir næstu Alþingiskosningar. Miðað við fyrirliggjandi upplýsingar getur ríkisskattstjóri því ekki staðfest að framlög til félagsskapar þessa geti talist frádráttarbær rekstrarkostnaður í skilningi 2. tölul. 31. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, sbr. 4. gr. laga nr. 122/1993 og 15. gr. reglugerðar nr. 483/1994.

Ríkisskattstjóri.

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum