Beinir skattar

Ákvarðandi bréf nr. 011/2002

11.10.2002

Fyrning á keyptum eignarrétti að kvikmyndum

11. október 2002
T-Ákv. 02-011
2002-08-0156

Vísað er til bréfs yðar, dags. 31. júlí sl., varðandi ofangreint efni. Í bréfi yðar kemur fram að erlendur viðskiptavinur yðar hafi um langt skeið haft í hyggju að stofna eignarhaldsfélag um kvikmyndarétt hér á landi. Fram kemur að afskriftareglur hér á landi henti að sumu leyti ekki slíkum rekstri. Samkvæmt 7. tölul. 38. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, skal fyrna verðmæt hugverk, þ.m.t. kvikmyndarétt, um 15-20% á ári. Fyrning er heimil í fyrsta sinn á því ári þegar hugverkanna er aflað eða lagt í kostnað þeirra vegna, sbr. 2. mgr. nefnds töluliðs. Í 3. mgr. sama töluliðs er og kveðið á um það, að heimilt sé að fyrna þær á notkunartíma þeirra ef notkunartími þeirra er skemmri en 5 ár.

Í bréfi yðar vísið þér til þess að tekjur af keyptum kvikmyndarétti sé að jafnaði þess eðlis að þær séu mestar fyrsta árið eða á bilinu 70-90%, en 10-30% teknanna skapist á næstu 3-4 árum. Verði að telja að hér sé um að ræða sérstakar ástæður í skilningi 50. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Í því ákvæði er kveðið á um það að ef sérstakar ástæður séu fyrir hendi megi víkja frá reglum fyrningarhlutföll og veiti ríkisskattstjóri heimild til slíkra frávika. Er þess óskað að ríkisskattstjóri svari því hvort þessi skilningur sé réttur.

Í bréfi yðar er ekki að finna afmörkun á hugtakinu kvikmyndarétti. Almennt verður að ganga út frá því að í því hugtaki felist fyrst og fremst rétturinn til að festa á filmu tiltekið hugverk, þ.e. rétturinn til að gera kvikmynd. Það er í sjálfu sér ekki sjálfgefið að þó keyptur sé réttur til kvikmyndagerðar á hugverki að sá réttur verði endilega nýttur í beinu framhaldi af þeim kaupum. Geta þess vegna liðið mörg ár frá því að keyptur er réttur til kvikmyndunar á hugverki þar til ráðist er í sjálfa kvikmyndagerðina. Ekki mun vera óalgengt að dreifingar- og sýningarréttur sé aðskilinn frá sjálfum kvikmyndaréttinum og verður ekki séð að rökbundin nauðsyn sé á að þessi réttindi haldist í hendur við sjálfan kvikmyndaréttinn.

Heimild sú sem getur í 50. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, er bundin því að fyrir hendi séu sérstæðar ástæður sem réttlætt geta að vikið sé frá þeim reglum um fyrningar og fyrningarhlutföll sem getur í III. kafla laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Þegar fyrir liggur vegna eðlis réttinda að tekjur af þeim réttindunum komi til með að falla að mestu til fyrsta árið, svo vænta má um t.d. sýningar- og dreifingarrétt að kvikmyndum, telur ríkisskattstjóri almennt að forsendur séu til að nýta heimild 50. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Sækja þarf um það sérstaklega til ríkisskattstjóra ef fara á fram á að embættið veiti undanþágu samkvæmt téðu lagaákvæði. Í umsókn hér að lútandi þarf að koma fram lýsing á þeim réttindum sem um ræðir, ásamt tekjuáætlun og rökstuðningi fyrir því að ríkisskattstjóri beiti heimildarákvæði þessu.

Ríkisskattstjóri.

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum