Beinir skattar

Ákvarðandi bréf nr. 009/2002

5.9.2002

Vaxtabætur - Afföll af lánum teknum vegna verulegra endurbóta

5. september 2002
T-Ákv. 02-009
2002-09-0111

Í tilefni af fyrirspurnum varðandi það hvort afföll af lánum sem tekin eru til verulegra endurbóta myndi stofn til útreiknings vaxtabóta telur ríkisskattstjóri rétt með vísan til 101. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, að koma á framfæri þeim svörum sem embættið hefur sett fram hér að lútandi.

Samkvæmt 2. málsl. 5. mgr. 69. gr. B laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum, getur stofnast réttur til vaxtabóta vegna lána frá Byggingarsjóði ríkisins (nú Íbúðalánasjóði) sem tekin hafa verið vegna verulegra endurbóta á íbúðarhúsnæði til eigin nota. Hvað teljast vera verulegar endurbætur er skilgreint í 3. gr. reglugerðar nr. 7/1998, um greiðslu vaxtabóta. Við ákvörðun vaxtabóta eru það vaxtagjöld af þeim lánum sem fullnægja skilyrðum laganna sem geta orðið andlag vaxtabóta. Vaxtagjöld eru skilgreind í 2. mgr. 69. gr. B laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, og er sú skilgreining ítarlegar útfærð í 7. gr. reglugerðar nr. 7/1998, um greiðslu vaxtabóta, og eru afföll þar talin geta mynda vaxtagjöld eins og nánar er kveðið á um í ákvæðinu. Ákvæðið vísar til 6. gr. reglugerðarinnar sem fjallar um lán til öflunar íbúðarhúsnæðis, en ekki er vísað sérstaklega til nefndar 3. gr. reglugerðarinnar sem fjallar sem fyrr greinir um lán vegna endurbóta.

Ríkisskattstjóri telur að vaxtagjaldaskilgreining 2. mgr. 69. gr. B laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum, eins og hún er útfærð í 7. gr. reglugerðar nr. 7/1998, um greiðslu vaxtabóta, gildi með nákvæmlega sama hætti um lán þau sem tekin eru hjá Íbúðalánasjóði og fullnægja að öðru leyti þeim skilyrðum sem sett eru fram í 3. gr. reglugerðar nr. 7/1998, um greiðslu vaxtabóta. Byggir sú niðurstaða fyrst og fremst á því að engin efnisrök, hvorki í lögskýringargögnum eða öðrum gögnum, leiða til þess að önnur vaxtagjaldaskilgreining skuli lögð til grundvallar við ákvörðun þeirra vaxtagjalda er mynda stofn til ákvörðunar vaxtabóta. Afföllin reiknast hlutfallslega miðað við afborganir á lánstímanum.

Ríkisskattstjóri.

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum