Beinir skattar

Ákvarðandi bréf nr. 007/2002

4.9.2002

Hlutabréfafrádráttur - Eignarhaldstími

4. september 2002
T-Ákv. 02-007
2002-09-0086

Borið hefur á fyrirspurnum um túlkun á ákvæðum 1. tölul. B-liðar 1. mgr. 30. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum. Með hliðsjón af því og skírskotun til 101. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, vill ríkisskattstjóri taka eftirfarandi fram:

Forsenda frádráttar vegna fjárfestingar í hlutabréfum samkvæmt B-lið 1. mgr. 30. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, er að maður eigi hlutabréfin yfir fimm áramót og geri árlega grein fyrir eignarhaldi þeirra. Séu hlutabréfin seld innan þess tíma færist nýttur frádráttur til tekna á söluári viðkomandi hlutabréfa. Slíkri tekjufærslu skal þó ekki beitt ef maður kaupir á sama ári og eigi síðar en 30 dögum eftir söluna önnur hlutabréf í hlutafélagi sem uppfyllir skilyrði B-liðar 1. mgr. 30. gr. og ríkisskattstjóri hefur staðfest eða hlutabréf í félagi sem skráð er í kauphöll á Evrópska efnahagssvæðinu, fyrir a.m.k. sömu fjárhæð og söluverð hinna seldu hlutabréfa var og félagið uppfylli skilyrði töluliðarins.

Þegar svo háttar sem hér er lýst, þ.e. að keypt eru ný hlutabréf í stað hinna seldu innan 30 daga, telur ríkisskattstjóri að fyrri eignarhaldstími haldi áfram að líða, en ekki stofnist krafa um nýjan eignarhaldstíma. Sem dæmi að ef keypt voru hlutabréf á árinu 1999 og þau seld á árinu 2001. Í stað hinna seldu bréfa voru síðan keypt önnur bréf innan 30 daga frá sölu, þá eru hin nýju bréf bundin kvöð um eignarhald fram á árið 2004. Ef um er að ræða hlutabréf sem keypt voru í tíð laga nr. 137/1996, sem kváðu á um þriggja ára eignarhaldstíma (en ekki fimm áramót eins og gildandi lög), þá gildir sá eignarhaldstími með sama hætti um bréf sem keypt voru innan 30 daga.

Ríkisskattstjóri.

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum