Beinir skattar

Ákvarðandi bréf nr. 003/2002

12.3.2002

Þóknun fyrir veðheimildir og ábyrgðir – eðli tekna.

12. mars 2002 T-Ákv. 02-003 2002-02-0484

Að gefnu tilefni vill ríkisskattstjóri láta uppi álit sitt um skattlagningu tekna manna utan atvinnurekstrar vegna endurgjalds er þeir kunna að fá fyrir veðheimildir eða veittar ábyrgðir. Um hið fyrrnefnda gekk úrskurður yfirskattanefndar nr. 413/2001. Í úrskurðinum segir svo:

Samkvæmt 3. mgr. 67. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt,sbr. 7. gr. laga nr. 97/1996, um breyting á þeim lögum, skal tekjuskattur af fjármagnstekjum einstaklinga utan rekstrar vera 10% af þeim tekjum. Segir í 2. málsl. 3. mgr. 67. gr. að til fjármagnstekna í þessu sambandi teljist tekjur samkvæmt 1. --8. tölul. C-liðar 7. gr., þ.e. vextir, arður, leigutekjur, söluhagnaður og aðrar eignatekjur. Í 2. tölul. þess stafliðar er tekið fram að til skattskyldra tekna teljist arður, landskuld og leiga eftir hvers konar fasteignir og fasteignaréttindi, þar með talin námaréttindi, vatnsréttindi, jarðvarmaréttindi, veiðiréttur og hvers konar önnur fasteignatengd hlunnindi. Ákvæðið þykir bera að skýra samkvæmt orðanna hljóðan þannig að undir það falli endurgjald vegna hvers konar hagnýtingar eða afnota annars af fasteign og réttindum sem tengjast fasteigninni. Í almennum eignarráðum fasteignareiganda felst m.a. réttur til að stofna til óbeinna eignarréttinda yfir fasteigninni, svo sem veðréttinda. Samkvæmt þessu verður að telja að endurgjald fyrir veðleyfi í fasteign falli undir 2. tölul. C-liðar 7. gr. laga nr. 75/1981.

Í 2. tölul. C-liðar 7. gr. laganna er tekið fram að til skattskyldra tekna teljist arður, landskuld og leiga eftir hvers konar fasteignir og fasteignaréttindi, þar með talin námaréttindi, vatnsréttindi, jarðvarmaréttindi, veiðiréttur og hvers konar önnur fasteignatengd hlunnindi. Ákvæðið hefur verið skýrt samkvæmt orðanna hljóðan þannig að undir það falli endurgjald vegna hvers konar hagnýtingar eða afnota annars af fasteign og réttindum sem tengjast fasteigninni, sbr. tilvitnaðan úrskurð yfirskattanefndar nr. 413/2001.

Ákvæði 1.-8. tölul. C-liðar 7. gr. eiga það sammerkt að fjalla um tekjur af eignum og eða fjármagni. Slíkar fjármagnstekjur manna utan atvinnurekstrar eru skattlagðar í 10% skattþrepi samkvæmt 3. mgr. 67. gr. sömu laga og því með lægra skatthlutfalli en gildir um aðrar tekjur sbr. 1. mgr. 67. gr.

Þóknanir fyrir veittar ábyrgðir eru hvergi sérstaklega nefndar á nafn í C-lið 7. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Sú staðreynd leiðir þó ekki sjálfkrafa til þess að tekjur þessar skuli skattlagðar sem tekjur samkvæmt 9. tölul. C-liðar 7. gr. eða samkvæmt A- eða B-lið 7. gr. laganna. Þegar metið er hvar heimfæra skuli tekjur eða endurgjald fyrir veittar ábyrgðir þykir verða að horfa á eðli teknanna, þ.e. frá hverju þær stafa. Hafi maður tekist á hendur sjálfskuldarábyrgð fyrir annan aðila og þegið endurgjald fyrir, er hann þar með í reynd að leggja allar eignir sínar til tryggingar fullnustu skuldarinnar. Sama gildir almennt um annars konar ábyrgð sem veitt er til tryggingar greiðslu skulda. Samkvæmt þessu verður að telja að ábyrgðarþóknun, sem endurgjald fyrir veitta ábyrgð, sem jafnað verður við tekjur fyrir veðheimildir, teljist því til fjármagnstekna með lögjöfnun frá 2. tölul. C-lið 7. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Skattlagning slíkra tekna verður því almennt í 10% skatti sbr. 3. mgr. 67. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum.

Það skal tekið fram að réttarsamband eða tengsl aðila geta leitt til þess að greiðslur sem kallaðar eru þóknanir fyrir veðheimildir eða veittar ábyrgðir verði skattlagðar sem almennar tekjur en ekki sem fjármagnstekjur. Ef um er að ræða skylda eða háða aðila verður að skoða samband þeirra og lögskipti heildstætt og meta á þeim grundvelli eðli teknanna óháð því hvaða nafni þeim er gefið.

Vakin er athygli á því að samhliða birtingu á þessu bréfi fellur úr gildi bréf ríkisskattstjóra frá 12. febrúar 1999 um skattlagningu ábyrgðarþóknunar.

Ríkisskattstjóri.

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum