Beinir skattar

Ákvarðandi bréf nr. 001/2002

10.1.2002

Vextir og dráttarvextir af launum.

10. janúar 2002 T-Ákv. 02-001 2001-10-0534

Ríkisskattstjóra þykir rétt að fram komi hvernig skattalegri meðferð á vöxtum og dráttarvöxtum sem reiknast af launakröfu skuli hagað. Er hér átt við tilvik þar sem gjaldendur fá greidd laun nokkru eftir hinn eiginlega gjalddaga svo sem vegna deilna um laun í uppsagnarfresti eða fjárskorts launagreiðanda.

Laun eru skattskyldar tekjur samkvæmt 1. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr.75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Launagreiðendum er skylt að innheimta tekjuskatt og útsvar við útborgun þeirra, sbr. 2. gr. laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, og á gjaldendum hvílir skylda til að telja fram launatekjur á skattframtali næsta árs eftir að launatekjur komu til útborgunar, sbr. 1. mgr. 60. gr. og 1. mgr. 91. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt.

Séu vextir eða verðbætur greiddar til viðbótar launafjárhæð og greiðslur þessar inntar af hendi eftir að venjulegu launatímabili lýkur skal greiðslan sundurliðuð. Innheimtur skal tekjuskattur ásamt útsvari af höfuðstól launanna, sbr. 2. gr. laga nr. 45/1987, um tekjuskatt og eignarskatt. Hins vegar er vöxtum, sem reiknaðir eru af launafjárhæð, ætlað að bæta launþega það upp að hann fær ekki höfuðstól launanna fyrr en nokkur tími er liðinn frá því að launatímabilinu lauk. Vextirnir, sem leggjast á laun til launþega frá gjalddaga, eru því tekjur af launakröfu launþegans og sem slíkar mynda þær skattskyldar tekjur í hendi launþegans í samræmi við 2. mgr. 8. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, og teljast til fjármagnstekna samkvæmt 6. tölul. 1. mgr. 4. gr. og 1. mgr. 5. gr. laga nr. 94/1996, um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur.

Hvað varðar dráttarvexti af launum þá mynda þeir einnig stofn til fjármagnstekjuskatts, enda er þeim ætlað að bæta tjónþola það tjón sem almennt má ætla að greiðsludráttur baki honum án þess að hann þurfi að sanna það tjón sérstaklega. Þannig ber að innheimta fjármagnstekjuskatt við greiðslu dráttarvaxta, sbr. 6. tölul. 1. mgr. 4. gr. og 4. tölul. 1. mgr. 5. gr. laga nr. 94/1996, um staðgreiðslu skatts af fjármagnstekjum.

Eins og fram hefur komið í bréfi þessu eru skattskyldar launatekjur staðgreiðsluskyldar sbr. 1. og 7. tölul. 5. gr. laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda. Í 7. tölul. 5. gr. laga nr. 45/1987 segir að greiðslur skv. 1. - 6. tölul. þessarar greinar, sem inntar eru af hendi að gengnum úrskurði stjórnvalda, dómi, dómsátt eða öðru samkomulagi eftir að raunverulega launatímabili lýkur, teljist til launa. Ákvæði þetta virðist gefa tilefni til að ætla, að eftirágreidd laun séu í heild staðgreiðsluskyld samkvæmt umræddu ákvæði laga um staðgreiðslu opinberra gjalda og að innheimta skuli staðgreiðslu opinberra gjalda af allri fjárhæð greiðslunnar sem kemur til útborgunar að uppgjöri loknu. Að mati ríkisskattstjóra er þessi skilningur ekki réttur, enda kemur fram í athugasemdum við frumvarp til laga nr. 159/1998 um breytingu á staðgreiðslulögunum, að ákvæði 7. tölul. 5. gr. laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, sé ætlað að tryggja að staðgreiðslu skuli draga af dæmdum launakröfum. Ef ákvæðið er skýrt með hliðsjón af tilgangi sínum verður ekki séð að það standi í vegi fyrir því að vextir af launum, sem ákveðnar eru með úrskurði stjórnvalda, dómi, dómssátt eða öðru samkomulagi, teljist til fjármagnstekna samkvæmt lögum nr. 94/1996, um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur, og sæti afdrætti staðgreiðslu samkvæmt þeim lögum.

Ríkisskattstjóri.

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum