Beinir skattar

Ákvarðandi bréf nr. 008/2001

4.12.2001

Meðferð hagnaðar og taps af framvirkum samningum í skattskilum lögaðila.

4. desember 2001
T-Ákv. 01-008
2001-11-0419

Með bréfi dagsettu 19. nóvember 2001 barst ríkisskattstjóra eftirfarandi fyrirspurn yðar:

Erindi bréfs þessa varðar meðferð hagnaðar og taps af framvirkum samningum í skattskilum lögaðila. Spurningin er hvenær færa má eða skal hagnað eða tap af framvirkum samningi til tekna eða gjalda. Nú kann staða framvirks samnings að vera slík við gerð ársreiknings að tap yrði af uppgjöri hans ef hann væri gerður upp miðað við dagsetningu reikningsskilanna. Tekið skal fram að samkvæmt samningi fer uppgjör hans ekki fram þá, heldur síðar, og hagnaður eða tap kann að nema allt annarri fjárhæð. Engu að síður má segja að staðan sé að þessu leyti nákvæmlega sú sama og við gjaldfærslu gengistaps. Því er spurt hvenær rétt sé að gjaldfæra tap af framvirkum samningum í skattskilum lögaðila.

Framvirkur samningur er afleiðusamningur. Eins og fram kemur í 2. gr. laga nr. 13/1996 um verðbréfaviðskipti, með áorðnum breytingum, er afleiðusamningur samningur þar sem uppgjörsákvæði byggist á breytingu einhvers þáttar, svo sem vaxta, gengis gjaldmiðla, verðbréfaverðs, verðbréfavísitölu eða hrávöruverðs. Andvirði slíks samnings er háð breytingu þessara viðmiðunarþátta á tilteknu tímabili. Framvirkur samningur er hins vegar skilgreindur sem afleiðusamningur, sem kveður á um skyldu samningsaðila til að kaupa eða selja tiltekna eign fyrir ákveðið verð á fyrir fram ákveðnum tíma.

Verðmæti hins framvirka samnings er reiknað út á sölu- eða innlausnardegi. Á slíkum tímapunkti eru viðskiptin gerð upp og á þeirri stundu er hægt að gera grein fyrir hagnaði eða tapi af viðskiptunum í skattskilum viðkomandi samningsaðila. Með vísan til 2. mgr. 60. gr. laga nr. 75/1981 um tekjuskatt og eignarskatt verður að líta svo á að tekjur af framvirkum samningum séu óvissar fram að þeim tíma og því ekki unnt að gera grein fyrir hagnaði eða tapi af samningnum fyrr en niðurstaða viðskiptanna liggur fyrir.

Ríkisskattstjóri.

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum