Beinir skattar

Ákvarðandi bréf nr. 006/2001

19.10.2001

Meðferð söluhagnaðar af framleiðslurétti í landbúnaði.

19. október 2001 T-Ákv. 01-006 2001-10-0208

Ríkisskattstjóra barst þann 5. október 2001 fyrirspurn yðar um meðferð söluhagnaðar af framleiðslurétti í landbúnaði. Í bréfinu var óskað eftir áliti ríkisskattstjóra á því hvort skattaðila sé heimilt að nýta sér ákvæði 4. mgr. 14. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, við meðferð söluhagnaðar á framleiðslurétti í landbúnaði, þegar framleiðsluréttur er seldur án þess að skattaðili selji jörðina eða húseignir á jörðinni. Jafnframt er óskað álits á því hvort skattaðila sé heimilt að færa niður stofnverð af íbúðarhúsi sem þegar hefur verið byggt á jörðinni á móti þeim hluta söluhagnaðar af framleiðslurétti sem skattskyldur er.

Í 31. gr. A laga nr. 75/1981, eins og henni var breytt með 4. gr. laga nr.111/1992 um breytingar í skattamálum, er meðal annars tekið fram að um söluhagnað framleiðsluréttar í landbúnaði fari eftir 14. gr. laga nr. 75/1981, en sú grein fjallar um söluhagnað ófyrnanlegra eigna og fasteignaréttinda. Löggjafinn hefur þannig tekið af skarið um meðferð söluhagnaðar framleiðsluréttar.

Í fyrirspurn yðar er sjónum beint að 4. mgr. 14. gr. laga nr. 75/1981 en samkvæmt því ákvæði getur skattaðili farið fram á frestun skattlagningar söluhagnaðar af landi bújarða og ófyrnanlegra náttúruauðæfa á bújörðum um tvenn áramót frá söludegi, enda afli hann sams konar eignar eða íbúðarhúsnæðis til eigin nota í stað hinnar seldu innan þess tíma og færist þá söluhagnaðurinn framreiknaður samkvæmt ákvæðum 26. gr. til lækkunar stofnverði hinnar nýju eignar. Nemi stofnverð hinnar nýju eignar lægri fjárhæð en söluhagnaðinum telst mismunurinn til skattskyldra tekna. Þessi meðferð söluhagnaðar er því aðeins heimil að seljandi hafi haft búrekstur á hinni seldu eign að aðalstarfi í a.m.k. fimm ár á síðastliðnum átta árum næst á undan söludegi og stundi búrekstur á sama hátt á hinni keyptu bújörð eða noti hið keypta húsnæði fyrir eigin íbúð í a.m.k. tvö ár eftir kaupdag. Ef þessum skilyrðum er ekki fullnægt telst söluhagnaðurinn, framreiknaður skv. 2. mgr. 13. gr. með skattskyldum tekjum þess árs þegar skilyrðið er rofið að viðbættu 10% álagi. Frestun tekjufærslu kemur því aðeins til greina að yfirfæranleg rekstrartöp hafi verið jöfnuð.

Í 4. mgr. 14. gr. er gert ráð fyrir tilteknum skilyrðum varðandi búrekstur, þ.e. ákvæðið tekur til þeirra er hyggjast bregða búi eða breyta starfsemi sinni verulega, t.d. með upptöku nýrrar búgreinar. Samkvæmt orðanna hljóðan tekur ákvæðið einungis afstöðu til söluhagnaðar eigna sem ekki er heimilt að fyrna svo sem bújarða og ófyrnanlegra náttúruauðæfa, en með vísan til 31. gr. A er þó litið svo á að ákvæðið taki einnig til sölu á framleiðslurétti. Skattaðili getur því farið fram á frestun skattlagningar söluhagnaðar af framleiðslurétti um tvenn áramót frá söludegi, enda fullnægi hann að öðru leyti skilyrðum laganna um endurfjárfestingu innan tilskilins tíma.

Ekki er beinlínis tekið á því í lögunum hvort skilyrði 4. mgr. 14.gr. um endurfjárfestingu geti talist uppfyllt ef nýtt húsnæði hefur verið keypt áður en til sölu bújarðar kemur. Ríkisskattanefnd leysti úr álitaefninu í úrskurði sínum nr. 615/1990. Það mál fjallaði um sölu kæranda til sonar síns á eignarhlut í bújörð. Tildrög sölunnar voru þau að kærandi hafði tekið ákvörðun um að selja eignina og hætta búrekstri með öllu. Hann hafði keypt sér íbúð u.þ.b. tveimur árum áður. Fallist var á að færa hagnað af sölu bújarðarinnar til lækkunar á stofnverði þeirrar íbúðar sem kærandi keypti, enda þótti mega líta á sölu bújarðarinnar og kaup íbúðar kæranda sem eina samhangandi atburðarás.

Með vísan til úrskurðaframkvæmdar og þess er að framan greinir um gildissvið 4. mgr. 14. gr. laga nr. 75/1981 er fallist á að ákvæðið taki til sölu á framleiðslurétti þannig að heimilt sé að færa söluhagnað af seldum framleiðslurétti til lækkunar á stofnverði nýs íbúðarhúsnæðis. Skilyrði 4. mgr. 14. gr. geta þannig talist uppfyllt þrátt fyrir að húsnæðið hafi verið reist áður en til sölu framleiðsluréttarins kom. Slíkt er háð þeirri forsendu að sala framleiðsluréttarins og bygging íbúðarhúnæðisins fari fram í einni samhangandi atburðarás, sbr. nefndan úrskurð ríkisskattanefndar og meðfylgjandi úrskurð yfirskattanefndar nr. 556/1996.

Ríkisskattstjóri.

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum