Beinir skattar

Ákvarðandi bréf nr. 005/2001

15.10.2001

Launagreiðslur erlendra aðila til þeirra sem skattskyldir eru

15. október 2001 T-Ákv. 01-005 2001-09-0342

Í tilefni fjölmargra fyrirspurna til ríkisskattstjóra um staðgreiðslu-og tryggingagjaldsskyldu erlendra aðila sem greiða laun til aðila sem eru heimilisfastir á Íslandi þykir rétt að taka eftirfarandi fram;

Staðgreiðsla opinberra gjalda:

Í 3. gr. laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, segir að ákvæði laganna taki til allra þeirra aðila, innlendra og erlendra, sem greiða laun eða annast milligöngu á greiðslum sem gjaldskyldar eru samkvæmt ákvæðum laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, laga nr. 4/1995, um tekjustofna sveitarfélaga og laga nr. 113/1990, um tryggingagjald. Samkvæmt hinu víðtæka orðlagi 3. gr. laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, mætti draga þá ályktun að erlendir aðilar sem greiða mönnum hér á landi laun, séu þar með skyldugir til að halda eftir staðgreiðslu og skila til ríkissjóðs. Ríkisskattstjóri telur að þrátt fyrir hið víðtæka orðalag nefnds ákvæðis staðgreiðslulaga verði að túlka það að því er snýr að erlendum aðilum með hliðsjón af lögsöguákvæðum I. kafla laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, sem og réttarvenjum alþjóðlegs skattaréttar um afmörkun skattalögsögu.

Með vísan til þessa telur ríkisskattstjóri að þegar um er að ræða launagreiðanda sem er erlendur aðili, sem ekki hefur starfsstöð á Íslandi og telst ekki skattskyldur hér á landi samkvæmt I. kafla laga nr. 75/1981, sé ekki til að fyrir hendi staðgreiðsluskylda hjá hinum erlenda launagreiðanda í skilningi laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda. Sú framkvæmdavenja hefur mótast að þeir aðilar sem þiggja laun frá þessum erlendu aðilum, geta fengið skráningu á launagreiðendaskrá sem launagreiðendur sjálfs síns og greitt staðgreiðslu af launum sínum og þannig komið í veg fyrir 2,5% álag á vangreidda staðgreiðslu í álagningu. Velji þeir eigi þann kost geta þeir eftir sem áður nýtt sér heimild 38. gr. laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, og greitt fyrir 31. janúar á eftir staðgreiðsluári þá fjárhæð sem ætla má að nægi til lúkningar væntanlegri álagningu.

Í staðgreiðslulögunum er ekki bein undanþága fyrir erlend sendiráð sem starfa á Íslandi. Af Vínarsamningnum um stjórnmálasamband, sem lögfestur var með lögum nr. 16/1971, og 4. tölul. 4. gr. laga nr. 75/1981, má hins vegar leiða undanþágu fyrir erlend sendiráð. Þau úrræði sem bent var á hér að framan eru því tæk íslenskum starfsmönnum erlendra sendiráða hér á landi.

Tryggingagjald:

Skattyfirvöld hafa skilgreint tryggingagjaldið sem skatt sem leggst á launagreiðendur. Í því felst að kröfur stjórnarskrár um skattlagningarheimildir eiga við um gjaldskyldu tryggingagjalds. Með öðrum orðum menn eiga ekki val um það hvort þeir eru skattskyldir aðilar, heldur ræðst skattskyldan af ákvæðum laga nr. 113/1990, um tryggingagjald. Þannig að jafnvel þótt tiltekin réttindi séu tengd greiðslu tryggingagjalds er það gjald ekki lagt á neinn annan en þann sem fellur undir gjaldskyldu viðkomandi skattlagningarheimildar.

Í 1. mgr. 1. gr. laga nr. 113/1990, um tryggingagjald, er lögð skylda á launagreiðendur að inna af hendi tryggingagjald af greiddum launum. Í 2. mgr. 4. gr. kemur fram að gjaldskyldan taki til allra launagreiðenda sem greiða laun eða þóknanir fyrir starf. Beina undanþágu fyrir erlend sendiráð er að finna í 3. tölul. 1. mgr. 5. gr. fyrrgreindra laga. Erlend sendiráð sem greiða íslenskum aðilum laun eru því eigi tryggingagjaldsskyld af launum íslenskra starfsmanna sinna. Ekki er að finna beina undanþágu fyrir erlenda aðila sem hvorki hafa starfsstöð né útibú á Íslandi og eru ekki skattskyldir á Íslandi samkvæmt lögum um tekjuskatt og eignarskatt.

Þegar horft er til þess að um skatt er að ræða á launagreiðendur verður að telja heimildir íslenskra skattyfirvalda til álagningar tryggingagjalds á aðila sem ekki falla undir skattalögsögu Íslands samkvæmt 1.-3. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, hæpnar. Með hliðsjón af þeim sjónarmiðum er rakin voru hér að fram um staðgreiðsluskyldu samkvæmt lögum nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, telur ríkisskattstjóri því rétt að ekki sé lagt tryggingagjald á laun þeirra launamanna sem skattskyldir eru hér á landi og njóta tekna frá erlendum aðilum sem ekki bera skattskyldu hér á landi samkvæmt I. kafla laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt.

Í 4. tölul. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 17/1997, um atvinnuleysistryggingar, er það sett sem skilyrði fyrir greiðslu bóta að bótaþegi hafi stundað tryggingagjaldsskylda vinnu. Ákvæði gildandi laga um atvinnuleysistryggingar annars vegar og laga um tryggingagjald hins vegar eru því ósamrýmanleg að þessu leyti. Í bréfi til skattstjóra frá 25. október 2000 kemur fram að ríkisbókhald geti tekið við greiðslum er jafngilda tryggingagjaldi fyrir þá sem falla undir 9. gr. b laga nr. 117/1993, um almannatryggingar. Sama fyrirkomulag gildir fyrir þá sem þiggja laun frá aðilum sem ekki eru tryggingagjaldsskyldir en vilja öðlast tryggingavernd samkvæmt lögum nr. 17/1997, um atvinnuleysistryggingar.

Ríkisskattstjóri.

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum