Beinir skattar

Ákvarðandi bréf nr. 004/2001

20.8.2001

Samsköttun sambúðarfólks skv. 3. mgr. 63. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt.

20. ágúst 2001 T-Ákv. 01-004 2001-08-0119

Upp hafa komið ýmis tilvik þar sem vafi hefur verið talinn á hver væri réttarstaða sambúðarfólks með tillit til þess hvort heimilt sé að samskatta.

Í 3. mgr. 63. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, segir:

Karl og kona, sem búa saman í óvígðri sambúð og eiga sameiginlegt lögheimili, eiga rétt á að telja fram og vera skattlögð sem hjón, sem samvistum eru, ef þau hafa átt barn saman eða konan er þunguð eða sambúðin hefur varað samfleytt í a.m.k. eitt ár, enda óski þau þess bæði skriflega við skattyfirvöld.

Ýmsir úrskurðir hafa fallið um ágreining vegna þessa ákvæðis og koma upp ný tilvik með reglulegu millibili.

Skal í bréfi þessu gerð nánari grein fyrir skilyrðum samsköttunar. Áður skal þess þó sérstaklega getið að fólk af sama kyni sem er í sambúð getur ekki óskað samsköttunar enda uppfyllir það ekki frumskilyrði samsköttunar, að vera maður og kona.

  1. Að maður og kona búi saman í óvígðri sambúð og eigi sameiginlegt lögheimili. Fyrsta skilyrði samsköttunar er tvíþætt. Atriðin eru nátengd hvort öðru og skulu bæði atriðin vera uppfyllt.

    1. Að maður og kona búi í óvígðri sambúð

      Annars vegar er það skilyrði að maður og kona búi saman í óvígðri sambúð. Nægilegt er að maður og kona sýni fram á sambúð sín á milli. Skráning í óvígða sambúð er þó litið á sem óræka sönnun þess. Séu maður og kona ekki skráð í óvígða sambúð má færa sönnur á sambúð manns og konu með vottorði óvilhallara aðila.

      Um vitni til sönnunar á sambúð skal hér vísað til úrskurðar ríkisskattanefndar nr. 733/1987 þar sem fallist var á samsköttun kæranda sem þó höfðu ekki verið skráð á sama heimilisfang tilskilinn lágmarkstíma til samsköttunar. Þau sýndu fram á sambúð með vitnisburðum sex aðila. Kærendur höfðu verið skráð sem búsett í sitthvoru sveitarfélaginu. Hefur afstaða ríkisskattanefndar verið staðfest í fjölmörgum úrskurðum yfirskattanefndar síðan og má t.d. nefna úrskurð yfirskattanefndar nr. 148/2000 þar sem lá fyrir vottorð frá foreldrum kærenda lágu fyrir. Málinu var vísað frá yfirskattanefnd þar sem kæran barst eftir að kærufresti var lokið.

    2. Að maður og kona eigi sameiginlegt lögheimili

      Hins vegar er það skilyrði að maður og kona eigi sameiginlegt lögheimili er þau sækja um samsköttun. Skal það kannað í þjóðskrá hverju sinni séu upplýsingarnar ekki fyrirfram áprentaðar á framtal.

  2. Að þau hafi átt barn saman eða konan þunguð eða sambúðin hafi varað samfleytt í a.m.k. eitt ár

    Eitt af þremur eftirfarandi atriðum þarf að vera uppfyllt til að skilyrði samsköttunar sé uppfyllt.

    1. Að þau hafi átt barn saman

      Maður og kona sem eiga barn saman eiga rétt á að vera samsköttuð. Má skoða þjóðskránna í þessu sambandi.

    2. Að konan sé þunguð

      Ef maður og kona eiga von á barni eiga þau rétt á að vera samsköttuð. Er gerð sú krafa að sambúðaraðilar leggi fram gögn um það að þau eigi von á barni nema þau geti sýnt fram á það á annan hátt.

    3. Að sambúðin hafi varað samfleytt í a.m.k. eitt ár

      Hafi maður og kona verið í sambúð í meira en eitt ár uppfylla þau skilyrði til samsköttunar. Þegar skoðað er hvort maður og kona hafi verð í sambúð í meira en eitt ár skal kannað hve lengi þau hafa verið með sameiginlegt lögheimili. Skráning sameiginlegs lögheimili manns og konu leiðir líkum að því að stofnað hafi verið til sambúðar frá því tímamarki. Einkum getur þetta skipt máli við ákvörðun barnabóta og vaxtabóta skv. 69. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Hafi sambúðaraðilar hins vegar ekki átt sameiginlegt lögheimili í meira en eitt ár þurfa þeir að sýna fram á sambúð með öðrum hætti. Sýni sambúðaraðilar fram á að sambúð hafi varað samfellt í eitt ár eða lengur er heimilt að skattleggja sambúðaraðilana sem hjón sem eru samvistum, sbr t.d. úrskurð yfirskattanefndar nr. 148/2000. Vísast að öðru leyti til þess sem áður er fram komið um sönnun þess að maður og kona séu í sambúð.

  3. Að þau óski þess bæði skriflega við skattyfirvöld Síðasta skilyrði samsköttunar er að maður og kona í óvígðri sambúð óski eftir samsköttun sameiginlega. Það skal gert með því að merkja við umsókn um samsköttun á fyrstu síðu framtals og skrá þar kennitölu sambúðarmanns/konu. Þetta þarf að gera á framtölum beggja svo umsóknin sé tekin gild. Aðrar aðferðir geta þó verið jafngildar.

    Sé samsköttunar óskað eftir að framtali hefur verið skilað þurfa sambúðaraðilar að skila inn skriflegri yfirlýsingu til skattyfirvalda þar sem fram kemur að þau óski samsköttunar og þarf yfirlýsingin að vera undirrituð af báðum aðilum. Hægt er þannig að óska samsköttunar eftir að álagningu opinberra gjalda er lokið og jafnvel eftir að kærufrestur sé liðinn. Sama á við ef aðili óskar eftir að njóta sérsköttunar enda þótt áður hafi verið um samsköttun að ræða. Gæta þarf ítrustu formreglna við afgreiðslu slíks erindis.

Hafi skattyfirvöld samþykkt samsköttun fólks fær það fjölskyldumerkinguna 6 á næsta skattframtali. Þá fær það sameiginlegt framtal við næstu framtalsgerð og þarf því ekki að sækja um samsköttun að nýju.

Þykir rétt að geta þess að sambúðarfólk sem slítur sambúð á árinu fá ekki sent sameiginlegt framtal. Þau geta þó valið um að telja fram í sitt hvoru lagi allt árið, eða að telja fram sameiginlega fram að skilnaðardegi en í sitt hvoru lagi frá þeim tíma til ársloka. Ljóst er af úrskurðarframkvæmd yfirskattanefndar að skrifleg afstaða beggja til að skila sameiginlega skattframtali þarf að liggja fyrir með óyggjandi hætti. Má hér sem dæmi nefna úrskurð yfirskattanefndar nr. 311/2000 þar sem samþykki konunnar lá ekki fyrir. Ekki var nægilegt að konan skilað skattframtali ein og undirritaði það ein heldur var nauðsynlegt að óska eftir skriflegri afstöðu konunnar bréflega.

Hafi sambúðarfólk samnýtt persónuafslátt þannig að annað hefur nýtt persónuafslátt hins á staðgreiðsluárinu, skal telja þannig nýttan persónuafslátt þeim fyrrnefnda til góða, en skerða persónuafslátt hins síðarnefnda sem því nemur. Gera skal sérstaka gein fyrir þessari nýtingu í athugasemdum á skattframtali.

Þegar maður og kona óska samsköttunar hjá skattyfirvöldum er því nauðsynlegt að þau geri það bæði skriflega. Þau verða að eiga sameiginlegt lögheimili og sýna fram á að þau hafi verði í sambúð saman í meira en eitt ár eða eigi barn saman eða konan sé þunguð. Formleg skráning í sambúð hjá þjóðskrá er ekki skilyrði né að sambúðaraðilar hafi haft skráð lögheimili saman í meira en eitt ár, þótt slík tilgreining í opinberum gögnum hafi ótvírætt sönnunargildi.

Ríkisskattstjóri.

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum