Beinir skattar

Ákvarðandi bréf nr. 003/2001

26.6.2001

Notkun söluhagnaðar til kaupa á húsnæði til eigin nota.

26. júní 2001 T-Ákv. 01-003 2001-03-0309

Ríkisskattstjóri hefur hinn 6. mars sl. móttekið fyrirspurn yðar varðandi notkun söluhagnaðar til kaupa á húsnæði til eigin nota.

Í fyrirspurnarbréfi yðar kemur eftirfarandi fram varðandi málsatvik:

Síðan í maí síðastliðnum hef ég verið að reyna að selja bújörð mína, …, ásamt vélum, áhöfn og framleiðslurétti sem er 537 ærgildi í sauðfé. Jörðina hef ég átt og rekið búskap á henni samfellt frá 1960.

Til þess að geta flutt af jörðinni með litlum fyrirvara, festi ég kaup á íbúðarhúsi á Blönduósi með kaupsamningi dags. 6.11.2000. Verulegar skuldir hvíla á húsinu

Um meðferð söluhagnaðar sem myndast við sölu bújarðar og framleiðsluréttar segir m.a. að nýta megi söluhagnaðinn til kaupa á húsnæði til eigin nota, þannig að sá hluti söluhagnaðarins verði ekki skattskyldur.

Því er spurt:

Gildir sú regla ekki einnig í þessu tilfelli, ef jörðin selst á næstu mánuðum, þótt íbúðarhúsnæðið á Blönduósi hafi verið keypt áður en sala jarðarinnar fer fram?

Um söluhagnað eigna sem ekki er heimilt að fyrna er m.a. fjallað í 14.gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Í 4. málsgr. 14. gr. er fjallað um sölu á bújörð eða ófyrnanlegum náttúruauðæfum á bújörðum. Þar kemur fram að ef aflað er sams konar eignar, eða íbúðarhúsnæðis til eigin nota, í stað hinnar seldu bújarðar, innan tveggja áramóta frá söludegi, þá færist söluhagnaðurinn framreiknaður samkvæmt ákvæðum 26. gr. laga nr. 75/1981 til lækkunar á stofnverði hinnar nýju eignar. Nemi stofnverð hinnar nýju eignar lægri fjárhæð en söluhagnaðinum telst mismunurinn til skattskyldra tekna. Þessi meðferð söluhagnaðar er því aðeins heimil að seljandi hafi haft búrekstur á hinni seldu eign að aðalstarfi í a.m.k. fimm ár á síðastliðnum átta árum næst á undan söludegi og stundi búrekstur á sama hátt á hinni keyptu bújörð, eða noti hið keypta húsnæði fyrir eigin íbúð í a.m.k. tvö ár eftir kaupdegi. Ef þessum skilyrðum er ekki fullnægt telst söluhagnaðurinn, framreiknaður skv. 2. mgr. 13. gr. laga nr. 75/1981, með skattskyldum tekjum þess árs þegar skilyrðið er rofið, að viðbættu 10% álagi. Frestun tekjufærslu kemur því aðeins til greina ef yfirfæranleg rekstrartöp hafa verið jöfnuð, sbr. 5. málsl. 4. málsgr. 14. gr. laga nr. 75/1981.

Að áliti ríkisskattstjóra er heimilt að lækka stofnverð eignar sem keypt er áður en eign er seld ef kaupin eru í samhangandi atburðarás við söluna. Með samhangandi atburðarás er hér átt við það þegar leiða má sterkar líkur að því umrædd kaup og sala séu ein óslitin atburðarás og ætlun skattþegans hafi verið að nýta söluhagnað af hinni seldu bújörð til að eignast sambærilega eign eða íbúðarhúsnæði. Sterkar líkur á söluvilja er m.a. þegar skattþegn skráir eign sannanlega til sölu hjá fasteignasala og hún er auglýst til sölu.

Ríkisskattstjóri.

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum