Beinir skattar

Ákvarðandi bréf nr. 001/2001

11.1.2001

Sala hlutabréfa á árinu 2000. Hagnaður skattleggst allur í 10% skattþrepi.

11. janúar 2001 T-Ákv. 01-001 2000-10-0406

Að fram farinni athugun þykir ríkisskattstjóra rétt að þess verði gætt við framkvæmd ákvæðis til bráðabirgða I með lögum nr 149/2000 að hagnaður sem myndast utan rekstrar hjá einstaklingum af sölu á hlutabréfum falli allur til skattlagningar í 10% skattþrepi, sbr. 3. málsgrein 67. greinar laga nr. 75/1981.

Um slíkan hagnað eigi því ekki við áður gildandi hámörk hins lægra skattþreps.

Ákvæðið er á þessa leið:

Um skattlagningu söluhagnaðar manna sem fengið hafa frestun skattlagningar söluhagnaðar skv. 7. mgr. 17. gr. laganna vegna sölu hlutabréfa og hluta á árunum 1998 og 1999 og nýta ekki heimildir til fjárfestinga í öðrum hlutabréfum innan frests skv. 7. mgr. 17. gr. laganna eins og hún hljóðaði fyrir gildistöku laga þessara skal fara skv. 3. mgr. 67. gr. laganna.

Unnt er að fara fram á frestun á tekjufærslu söluhagnaðar vegna sölu hlutabréfa einstaklinga á árinu 2000 um ein áramót frá söludegi að svo miklu leyti sem fjárhæð söluhagnaðarins er umfram 3.230.672 kr. hjá einstaklingum og 6.461.344 kr. hjá hjónum. Séu önnur hlutabréf keypt í stað hinna seldu innan þess tíma færist söluhagnaðurinn til lækkunar á kaupverði hinna nýju bréfa. Nemi kaupverð hinna keyptu hlutabréfa lægri fjárhæð en söluhagnaðurinn telst mismunurinn til skattskyldra tekna á kaupári hinna keyptu bréfa. Ef hlutabréf eru ekki keypt innan tilskilins tíma telst hagnaðurinn með skattskyldum tekjum á því ári þegar hann myndast og skattleggst hann þá skv. 3. mgr. 67. gr. laganna. Ákvæði þessarar málsgreinar taka ekki til söluhagnaðar sem myndaðist í atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi.

Ekki er í lögunum sjálfum tekið með beinum hætti á því í hvoru skatthlutfallinu skattleggja beri þær tekjur sem einstaklingar hafa á árinu 2000 og eru umfram fjármagnstekjuskattsmarkið.

Umrætt ákvæði til bráðabirgða I verður þó ekki skilið eða skýrt á annan veg en þann að í raun komist almennt tekjuskattsþrep samkvæmt 2. málsgrein 67. gr. tskl. ekki til álita þegar ákvarða skal skatthlutfall af hagnaði sem hefur myndast við sölu bréfa á árinu 2000.

Á það er einkum að líta í þessu sambandi að ljóst er að öllum sem selt hafa hlutabréf fram að gildistöku laga nr 149/2000 er heimilt að fara fram á frestun á skattlagningu söluhagnaðar að því marki sem hann fer fram úr umræddum hámörkum. Gildir frestunarheimildin um ein áramót að því er varðar hagnað ársins 2000. Ber skattstjóra að fallast á beiðni skattþegns um slíka frestun.

Uppfylli skattþegn ekki það skilyrði að endurfjárfesta sem hagnaðinum nemur innan frests þ.e.a.s. á árinu 2001 ber að tekjufæra hagnaðinn með tekjum ársins 2000 og skattleggja í skattþrepi tilvitnaðrar 3.mgr, 67. gr tskl. í 10% hlutfalli.

Skattþegnar geta því í raun stýrt og stjórnað tekjuskattsálagningu á þennan söluhagnað með einfaldri áritun á framtalsgögn um að farið sé fram á frestun skattlagningar.

Ef skilja ætti á milli í þessu efni hjá þeim sem frestbeiðni setja fram og hinna sem láta slíkt hjá líða er ljóst að ósættanlegt og óeðlilegt ósamræmi yrði á milli skattalegrar stöðu sambærilegra aðila sem eins er ástatt um að því er skattstofna varðar.

Til að koma í veg fyrir slíkt misræmi í skattframkvæmdinni og til að jafnræðisreglu sé gætt er því rétt að sama skatthlutfall verði látið taka til allra tekna af hlutabréfasölu utan rekstrar á árinu 2000 hvort sem tekjurnar verða skattlagðar strax við álagningu nú í sumar eða við endurupptöku hennar að liðnu frestsárinu.

Þessari reglu verða gerð skil við upplýsingar og leiðbeiningar um framtalsgerð á næstunni.

Ríkisskattstjóri.

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum