Beinir skattar

Ákvarðandi bréf nr. 024/2000

13.10.2000

Gildistaka laga nr. 86/2000 - Frádráttur iðgjalda í lífeyrissjóði.

13. október 2000 T-Ákv. 00-024 is 2000-09-0319

Í maí sl. samþykkti Alþingi lög nr. 86/2000, um breyting á lögum nr.75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum. Samkvæmt 5. gr. laga nr. 86/2000 hækkaði það hlutfall sem draga má frá tekjum manna vegna iðgjalda sem varið er til aukningar lífeyrissréttinda eða lífeyrissparnaðar skv. II. kafla laganna um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða. Hækkaði þetta hlutfall úr 2% í 4% af iðgjaldsstofni. Ríkisskattstjóra hafa borist allmargar fyrirspurnir um gildistöku þessarar lagabreytingar, þ.e. hvernig túlka beri gildistökuákvæði laga nr. 86/2000.

Ákvæði laga nr. 86/2000 um gildistöku er að finna í 13. gr. þeirra laga, en þar segir að “[l]ög þessi öðlast þegar gildi og koma til framkvæmda við álagningu á árinu 2001 vegna tekna og eigna á árinu 2000

. Lögin öðluðust gildi við birtingu þeirra í Stjórnartíðindum þann 2. júní 2000. Í orðsendingu ríkisskattstjóra til launagreiðanda vegna staðgreiðslu opinberra gjalda (orðsending nr. 5/2000) kom fram að breyting þessi kæmi til framkvæmda frá 1. júní 2000. Byggði sú orðsending á því að talið var að ef leiðrétta hefði átt staðgreiðslu vegna fyrri tímabila ársins hefði slíkt þurft að koma skýrt fram í gildistökuákvæði laganna, en enga tilvísun til staðgreiðslu opinberra gjalda er að finna í því. Eftir sem áður var á þessu stigi ekki tekin afstaða með formlegum hætti til þess hvort ákvæðið skyldi túlkað svo að það hefði afturvirkar réttarverkanir við álagningu á tekjuskattsstofn tekjuársins 2000. Með öðrum orðum er álitaefnið það hvort launamönnum sé heimilt að greiða í lífeyrissjóð til aukningar á lífeyrisréttindum eða lífeyrissparnaði sem nemur 4% af iðgjaldsstofni ársins og fá frádrátt sem því nemur eða hvort breytingin nær einungis til þeirra iðgjalda sem greidd eru frá og með gildistöku laganna, þ.e. 2. júní 2000.

Ekki er að finna í lögskýringargögnum neinar leiðbeiningar um túlkun gildistökuákvæðisins. Í ljósi þess og þar sem það samræmist fremur orðalagi gildistökuákvæðisins telur ríkisskattstjóri að líta beri svo á að breytingin hafi afturvirkar réttarverkanir og þannig beri að miða við heimildir til frádráttar við iðgjöld alls ársins 2000 og heildariðgjaldastofn þess árs.

Tekið skal fram að samkvæmt 5. og 6. tölul. 1. mgr. A-liðar 30. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum, er það skilyrði frádráttar vegna greiddra lífeyrisiðgjalda að þau séu greidd reglulega og um sparnaðinn sé samið fyrirfram. Með hliðsjón af framangreindri túlkun á lögum nr. 86/2000 telur ríkisskattstjóri að þessi meginregla gildi ekki með sama hætti vegna yfirstandandi árs. Þannig lítur ríkisskattstjóri svo á að vegna tekjuársins 2000 sé mönnum heimilt að færa til frádráttar 4% af iðgjaldsstofni alls tekjuársins, svo fremi sem iðgjaldið hafi verið greitt til lífeyrissjóðs eða aðila sem um ræðir í 3. mgr. 8. gr. laga um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða. Framangreind niðurstaða hefur óhjákvæmilega í för með sér að einstaklingar verða að semja sérstaklega um greiðslu iðgjalda vegna iðgjaldsstofns fyrri hluta ársins 2000 og inna þau af hendi á árinu til þess að geta fullnýtt þann frádrátt sem lög leyfa samkvæmt framansögðu vegna iðgjalda sem varið er til aukningar lífeyrisréttinda eða lífeyrissparnaðar á árinu 2000. Þessi undantekning frá meginreglunni um reglulegan og fyrirfram umsamin framlög gildir einungis um framlög á árinu 2000 miðað við iðgjaldastofn þess árs. Það skal sérstaklega tekið fram að ríkisskattstjóri telur með hliðsjón af sérstæðum málsatvikum sem að framan eru rakin að launamenn sem ekki hafa þegar samið um viðbótarsparnað skuli með sama hætti eiga kost á að gera slíkan samning á þessu ári með afturvirkum réttarverkunum fyrir allt tekjuárið 2000.

Ríkisskattstjóri.

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum