Ákvarðandi bréf nr. 023/2000
Túlkun 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 - Kæruleiðir.
27. september 2000 T-Ákv. 00-023 is 2000-09-0578
Með vísan til fjölda úrskurða yfirskattanefndar sem fallið hafa undanfarið þykir rétt að ítreka það sem fram kom í skattstjórabréfi nr. 28/98, dags. 7. apríl 1998, varðandi túlkun á 24. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993.
Um er að ræða tilvik sem ber að með þeim hætti að í kærufresti til yfirskattanefndar hefur kærandi snúið sér til skattstjóra með ný gögn. Skattstjóri framsendir gögnin til yfirskattanefndar. Afstaða yfirskattanefndar varðandi þessi tilvik er skýr og hefur birst í mörgum úrskurðum hennar, sbr. t.d. úrskurði nr. 1025/1997, 38/1998, 141/1999, 307/1999 og 214/2000. Nefndin telur að í nýjum gögnum (greinargerð/rökstuðningi) kæranda felist endurupptökubeiðni á grundvelli 1. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga og vísar málinu til skattstjóra til meðferðar sem beiðni um endurupptöku.
Hafa ber í huga að þetta á eingöngu við þegar beiðni um endurupptöku berst skattstjóra áður en kært er til yfirskattanefndar. Komi fram beiðni um endurupptöku eftir að mál hefur verið kært til yfirskattanefndar verður það ekki endurupptekið.
Skattstjóri verður því að taka afstöðu til beiðnar um endurupptöku sem til hans er beint og byggja ákvörðun sína á þeim gögnum/upplýsingum sem frá gjaldanda koma. Rétt er að hafa í huga þau skilyrði sem 24. gr. stjórnsýslulaga geymir varðandi endurupptöku. Um ný gögn eða nýjar upplýsingar þarf að vera að ræða varðandi atvik sem byggt var á og höfðu þýðingu við ákvörðun málsins, þá geta breytt atvik valdið því að rétt sé að endurupptaka mál. Gjaldandi hefur ársfrest frá því ákvörðun var tekin til að óska endurupptöku (hægt er að víkja frá þessu tímamarki ef veigamiklar ástæður mæla með því).
Komi fram beiðni um endurupptöku eftir að úrskurður skattstjóra gengur rofnar kærufrestur til yfirskattanefndar, sbr. úrskurði yfirskattanefndar nr. 141/199 og 307/1999. Kærufrestur tekur að líða að nýju frá þeim tíma að synjun skattstjóra um endurupptöku er tilkynnt skattaðila, ef sú verður niðurstaðan, sbr. 4. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.
Af úrskurðum yfirskattanefndar nr. 425/1998 og 447/1999 má draga þá ályktun að synjun skattstjóra á endurupptöku sæti ekki kæru til yfirskattanefndar. Í lögum er ekki sérstaklega kveðið á um hver kæruleiðin sé í þessum tilvikum (til ríkisskattstjóra eða til fjármálaráðuneytisins). Þegar litið er til þeirra heimilda sem ríkisskattstjóri hefur til endurupptöku mála og þess stjórnsýslulega hlutverks sem ríkisskattstjóri gegnir skv. 101. gr. laga nr. 75/1981 verður að telja að synjun skattstjóra á endurupptöku sæti kæru til ríkisskattstjóra. Þessi túlkun fær stuðning í úrskurði yfirskattanefndar nr. 977/1998 þar sem yfirskattanefnd framsendi ríkisskattstjóra mál sem skattstjóri hafði synjað um endurupptöku á. Þá má einnig benda á nýlegan úrskurð yfirskattanefndar nr. 370/2000 þar sem fram kemur að ríkisskattstjóri hafi víðtækar heimildir til að taka upp mál, jafnvel mál þar sem formlegur úrskurður skattstjóra hefur gengið.
Ríkisskattstjóri.