Ákvarðandi bréf nr. 022/2000
Tryggingagjald af greiðslum úr fæðingarorlofssjóði.
19. september 2000 T-Ákv. 00-022 is 2000-09-0346
Í bréfi yðar dagsettu 14. sept. sl. um tryggingagjald af greiðslum í fæðingarorlofi óski þér eftir að ríkisskattstjóri láti í ljós afstöðu til þess hvort tiltekið fyrirkomulag á greiðslum þessum hafi áhrif á skyldu til að greiða tryggingagjald af þeim.
Tilefni fyrirspurnarinnar eru ákvæði í 13. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof þar sem kveðið er á um greiðslur í fæðingarorlofi sem koma til framkvæmda hinn 1. janúar 2001. Í 1. ml. 1. mgr. 4. gr. sömu laga segir að nýr Fæðingarorlofssjóður skuli annast greiðslur til foreldra í fæðingarorlofi skv. 13. gr. en Fæðingarorlofssjóður skal skv. 2. mgr. 4. gr. laganna vera í vörslu Tryggingastofnunar ríkisins sem sér um daglega afgreiðslu sjóðsins. Í 2. ml. 1. mgr. 4. gr. laganna segir að heimilt sé að semja um að vinnuveitandi annist þessar greiðslur, enda fái hann endurgreiðslu úr Fæðingarorlofssjóði.
Fyrirspurn yðar lýtur að því hvort mismunur sé á skyldu til að greiða tryggingagjald af greiðslum þessum eftir því hvort þær séu inntar af hendi af sjóðnum fyrir milligöngu Tryggingarstofnunar ríkisins eða fyrir milligöngu vinnuveitanda þess sem greiðsluna hlýtur.
Samkvæmt 6. gr. laga nr. 113/1990 er stofn til tryggingagjalds allar tegundir launa eða þóknana fyrir starf, hverju nafni sem nefnast, sem skattskyld eru skv. 1. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 75/1981. Skattskylt samkvæmt hinu tilvitnaða ákvæði tekjuskattslaganna eru hvers konar endurgjald fyrir vinnu, starf eða þjónustu, án tillits til viðmiðunar, sem inn er af hendi fyrir annan aðila.
Með hliðsjón af 1. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 75/1981 og með tilliti til ákvæða laga nr. 95/2000, m.a. hvernig réttur til greiðslna úr sjóðnum myndast og órofnu ráðningarsambandi á orlofstímanum, telur ríkisskattstjóri ótvírætt að greiðslur úr sjóðnum séu stofn til tryggingagjalds skv. 6. gr. laga nr. 113/1990 um tryggingagjald. Skiptir þá einu hvort greiðslan er innt af hendi fyrir milligöngu Tryggingastofnunar ríkisins eða vinnuveitanda greiðsluþegans.
Í bréfi yðar er m.a. vísað til undanþágu frá gjaldstofni tryggingagjalds skv. 2. tölulið 9. gr. laga um tryggingagjald þar sem undanþegnar eru
bætur greiddar af Tryggingastofnun ríkisins, þar með talið fæðingarorlof
.
Samkvæmt lögum nr. 95/2000, sbr. 3. og 4. greinar þeirra laga er Fæðingarorlofssjóður sérstakur lögaðili með sjálfstæðan fjárhag í umsjá félagsmálaráðherra, með sjálfstæðan tekjustofn sem er tiltekinn lögbundinn hluti af tryggingagjaldi, og sjálfstæða úthlutunarnefnd, sem skipuð er af félagsmálaráðherra. Samkvæmt tilvitnaðri 4. gr. laga nr. 95/2000 er það Fæðingarorlofssjóður sem annast greiðslur til þeirra sem réttinda njóta samkvæmt lögunum. Hlutverk Tryggingarstofnunar ríkisins er að hafa vörslur sjóðsins, sjá um reikningshald hans og daglega afgreiðslu í umboði félagsmálaráðherra. Lagaákvæði þessi verða ekki skilin á annan veg en þann að hinn raunverulegi greiðandi sé Fæðingarorlofssjóður og kröfum um fæðingarorlofsgreiðslur verði að honum beint en ekki Tryggingastofnun ríkisins sem er vörsluaðili sjóðsins í umboði félagsmálaráðherra samkvæmt framansögðu. Skilgreining á tryggingagjaldsskyldum greiðslum er afar víðtæk samkvæmt lögum nr. 113/1990, um tryggingagjald, með síðari breytingum, og verða undanþágur frá tryggingagjaldsskyldu ekki skýrðar rúmri skýringu.
Með hliðsjón af framangreindu lítur ríkisskattstjóri svo á að greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði séu tryggingagjaldsskyldar, hvort sem þær eru greiddar af sjóðnum beint, með milligöngu Tryggingastofnunar ríkisins eða af þriðja manni samkvæmt sérstökum samningi.
Ríkisskattstjóri.