Beinir skattar

Ákvarðandi bréf nr. 021/2000

18.8.2000

Skattstofn við ákvörðun skatts á fjármagnstekjur

18. ágúst 2000 T-Ákv. 00-021 is 2000-08-0044

Vísað er til bréfs yðar, dags. 10. ágúst sl., þar sem fram kemur að við rafræna skráningu verðbréfa eigi aðilar ekki lengur eitt bréf heldur

metra

af bréfum, þ.e. þeir eignist einingar og geti verið að eignast þær á ýmsum tímum. Er í bréfi yðar spurst fyrir um hvort reikna megi skattstofn fjármagnstekjuskatts miðað við vegið meðaltal af kaupum skuldabréfa sbr. 17. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt.

Til svars við fyrirspurn yðar skal tekið fram að ákvæði 17. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum, er sérákvæði sem ekki verður lagt til grundvallar við sölu á öðru en eignarhlutum í félögum. Þannig verður það ekki lagt til grundvallar við ákvörðun fjármagnstekna af öðrum verðbréfum en vegna eignarheimilda í félögum og ber við ákvörðun skattstofns að fara eftir 8. gr. sömu laga.

Það fyrirkomulag að aðilar eignist ekki bréf heldur einingar breytir í sjálfu sér engu um skattákvörðun. Umræddar einingar eignast aðili væntanlega á tilteknum tíma og hefur innt af hendi fyrir þær ákveðið verð. Þetta verð er stofnverð (kaupverð) bréfanna. Mismunur á sölu- eða innlausnarverði bréfsins (eininganna) og þessa stofnverðs myndar stofn til fjármagnstekjuskatts á grundvelli 8. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum.

Rétt þykir að vekja sérstaka athygli á því að rafræn skráning verðbréfa breytir ekki þeirri skyldu sem skilaskyldur aðili hefur samkvæmt 5. mgr. 5. gr. laga nr. 94/1996, um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur, sbr. 2. gr. laga nr. 133/1996, til að skrá nafn seljanda, kennitölu hans, dagsetningu sölu og söluverð. Ef krafan er þannig skráð með rafrænum hætti ber samkvæmt tilvitnuðu lagaákvæði að skrá með sama hætti, þ.e. rafrænum hætti, þær upplýsingar sem téð lagaákvæði áskilur að séu skráðar á bréfið. Telur ríkisskattstjóri að engin lagaheimild sé til að falla frá skráningarskyldu á þeirri forsendu að bréf (krafa) sé vistuð með rafrænum hætti.

Ríkisskattstjóri.

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum