Beinir skattar

Ákvarðandi bréf nr. 020/2000

5.7.2000

Skattaleg meðferð fjárstyrks vegna veikinda.

5. júlí 2000 T-Ákv. 00-020 is 2000-06-0152

Þann 15. júní sl. barst ríkisskattstjóra bréf yðar varðandi skattalega meðferð fjárstyrks. Bréfið er sent í kjölfar símtals sem þér áttuð við starfsmann ríkisskattstjóra fyrr í mánuðinum. Í bréfi yðar segir m.a.:

„[X..], sem nú er 24 ára er fæddur með alvarlega lungna- og hjartagalla. Fyrir nokkrum árum var grætt í hann hjarta og lungu og tókst sú aðgerð vel og heilsa [X..] verið allgóð síðan með mikilli lyfjagjöf og stöðugu lækniseftirliti.

Nú á útmánuðum versnaði [X..] og var lengi óvisst hvað ylli og kom þar að nauðsynlegt taldist að hann færi til [Y (borgar erlendis)] til nákvæmari skoðunar, en þar var ígræðslan framkvæmd. Þar fannst orsökin, sýking í lungum sem nú er verið að reyna að komast fyrir.

Fjölskylda [X..] hefur orðið fyrir margvíslegum kostnaði vegna veikinda hans í ár, miklum ferðalögum og langdvölum frá heimili, einkum vegna [utanlands]ferðarinnar.

[A] ehf. hefur huga á að veita fjölskyldunni nokkurn fjárstyrk, og erindi þessa bréfs að leita leiðsagnar um hvernig færa beri hann í bókhald fyrirtækisins og sömuleiðis um skattalega meðferð hans.“

Hvað skattalega meðferð fjárstyrkja varðar gildir sú meginregla að gjafir, inntar af hendi af hálfu rekstraraðila til einstaklinga, teljast almennt ekki frádráttarbærar frá tekjum af atvinnurekstri, enda er einungis hægt að draga frá slíkum tekjum þau gjöld sem eiga að ganga til að afla teknanna, tryggja þær og halda þeim við, sbr. 1. mgr. 1. tölul. 31. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Gjafir til einstaklinga teljast almennt ekki þjóna nefndum rekstrarhagsmunum atvinnurekenda. Í 2. tölul. sama ákvæðis er hins vegar kveðið á um að einstakar gjafir og framlög til viðurkenndrar líknarstarfsemi geti komið til frádráttar frá tekjum lögaðila. Um þetta er nánar kveðið í 15. og 16. gr. reglugerðar nr. 483/1994, um frádrátt frá tekjum af atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi. Þar kemur fram að skilyrði fyrir frádrætti vegna gjafa eða fjárframlaga til viðurkenndrar líknarstarfsemi sé m.a. að viðkomandi stofnun, sjóður eða félag hafi sett sér skipulagsskrá, lög eða samþykktir yfir starfsemi sína. Þannig verður að ætla að stofnun, sjóður eða félag þurfi staðfestingu dómsmálaráðherra í samræmi við ákvæði 1. gr. laga nr. 19/1988, um sjóði og stofnanir sem starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá, til að hægt sé að fallast á frádráttarbærni gjafa eða framlaga til slíkra aðila frá tekjum af atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi.

Af málavöxtum þeim sem greint er frá í bréfi yðar verður ekki annað ráðið en að um sé að ræða gjöf til handa einstaklingi, en ekki gjöf til viðurkenndrar líknarstarfsemi, enda eru ekki uppfyllt skilyrði laga um myndun sjóðs eða stofnunar með skipulagsskrá staðfestri af dómsmálaráðherra. Með vísan til framangreindra röksemda þykir því ekki hægt að líta á umræddan fjárstyrk sem frádráttarbæran rekstrarkostnað hjá [A] ehf. í skilningi 31. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, sbr. reglugerð 483/1994, um frádrátt frá tekjum af atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi.

Þess má geta að með hliðsjón af ákvæðum E-liðar 2. tölul. B-liðar 16. gr. reglugerðar nr. 245/1963, um tekjuskatt og eignarskatt, teljast samskotafé og styrkir vegna veikinda eða slysa ekki til skattskyldra tekna hjá móttakanda.

Ríkisskattstjóri.

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum