Beinir skattar

Ákvarðandi bréf nr. 019/2000

5.6.2000

Bónusgreiðslur. Lotun tekna og gjalda í skattskilum.

5. júní 2000 T-Ákv. 00-019 is 2000-05-0091

Vísað er til bréfs yðar, dags. 28. apríl sl., þar sem óskað er eftir áliti ríkisskattstjóra um gjaldfærslu á bónusgreiðslum til starfsmanna fyrirtækja.

Í bréfi yðar kemur fram að nokkrir viðskiptavinir yðar hafi samið um árangurstengdar bónusgreiðslur við starfsmenn sína. Greiðslur þessar munu oftast grundvallast á heildarrekstrarárangri fyrirtækjanna á viðkomandi rekstrarári. Eðli máls samkvæmt eru greiðslur þessar því reiknaðar út í tengslum við ársuppgjör og yfirleitt gerðar upp við starfsmennina þegar ársuppgjörið og rekstrarárangurinn liggur fyrir, oftast á tímabilinu frá mars til maí á næsta rekstrarári eftir viðmiðunarárið. Fyrirspurn yðar lýtur að því hvort fyrirtækin megi gjaldfæra bónusgreiðslurnar á því ári

sem í raun var unnið til þeirra, þ.e. á viðmiðunarrekstrarárinu

. Gjaldfærslan myndi þá haldast í hendur við það rekstrarár sem greiðslurnar eru reiknaðar út frá. Í bréfi yðar bendið þér á að í reikningsskilum fyrirtækjanna séu greiðslur þessar færðar félögunum til gjalda á viðmiðunarrekstrarárinu og æskilegt sé að skattalega gjaldfærslan haldið í hendur við reikningsskilin. Þá bendið þér og á að gjaldfærsla ýmissa sambærilegra greiðslna, t.d. orlofs hafi verið með þeim hætti að gjaldfærslan sé á því ári sem raunverulega hafi verið unnið til greiðslnanna, þótt greiðslurnar séu ekki inntar af hendi fyrr en síðar.

Samkvæmt 1. tölul. 31. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt,er rekstrarkostnaður skilgreindur sem þau gjöld sem eiga á árinu að ganga til að afla teknanna, tryggja þær og halda þeim við. Bónusgreiðslur þær sem hér um ræðir koma eðli máls samkvæmt aldrei til greiðslu á tekjuárinu, enda liggur fjárhæð greiðslu ekki fyrir fyrr en eftir að uppgjör ársins liggur fyrir. Greiðslutími ræður þó ekki úrslitum um það hvernig lotun gjalda í skilningi téðs ákvæðis er háttað. Ríkisskattstjóri telur að ef bónusgreiðsla byggir á samningi launamanns og vinnuveitanda sem gerður hefur verið á viðmiðunartekjuárinu eða fyrr, verði að fallast á að um sé að ræða gjöld sem telja megi til gjalda á viðmiðunartekjuárinu á grundvelli tilvitnaðs lagaákvæðis, þar sem kostnaður vegna bónusgreiðslnanna eru í beinu samhengi við rekstur þess árs og að í reynd hafi verið stofnað til gjaldanna á því ári. Þetta er þó háð þeirri grunnforsendu að bindandi samningur liggi fyrir á viðmiðunartekjuárinu, sem feli m.a. í sér einhlít tengsl milli fjárhæðar greiðslu og niðurstöðu uppgjörs fyrir viðmiðunartekjuárið. Aðrar forsendur bónusgreiðslna þurfa að liggja fyrir á viðmiðunartekjuárinu.

Ef aftur á móti skuldbindandi ákvörðun um bónusgreiðslur eða fjárhæð hennar er fyrst tekin eftir að uppgjör fyrirtækisins liggur fyrir, telur ríkisskattstjóri að slíkar greiðslur skuli færa til gjalda á því ári, þ.e. greiðsluárinu. Í því tilviki verður ekki fallist á stofnað hafi verið til gjaldanna fyrr en ákvörðun hefur verið tekin, jafnvel þótt forsendur greiðslu séu sóttar til fyrra árs. Þannig að ef bónusgreiðslur eru t.a.m. háðar samþykki aðalfundar sem fram fer að tekjuári loknu teljast það ekki vera gjöld er stofnast hafa á tekjuárinu, heldur á því ári er endanleg ákvörðun um greiðslurnar lá fyrir.

Hvað varðar tekjufærslu hjá starfsmanni telur ríkisskattstjóri að þegar greiðsla hefur ekki verið innt af hendi í lok tekjuárs og endanleg ákvörðun fjárhæðar greiðslu liggur ekki fyrir þá skuli þær tekjur teljast til tekna hjá launamanni á greiðsluári með vísan til 2. mgr. 60. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Á sama tíma myndar greiðsla af þessu tagi stofn til tryggingagjalds, þ.e. þegar launagreiðslan á sér stað, sbr. 1. mgr. 1. gr. laga nr. 113/1990, um tryggingagjald, sbr. einkum 7. gr. sömu laga.

Ríkisskattstjóri.

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum