Beinir skattar

Ákvarðandi bréf nr. 017/2000

19.4.2000

Skattlagning einkennisfatnaðar.

19. apríl 2000 T-Ákv. 00-017 is 2000-04-0333

Í tilefni af fyrirspurn yðar og úrskurðum yfirskattanefndar nr. 778/1997og 51/2000 telur embætti ríkisskattstjóra ástæðu til umfjöllunar um skattlagningu einkennisfatnaðar.

Málavextir eru þeir að þann 9. september 1975 var skrifað bréf á vegum embættis ríkisskattstjóra þar sem staðfest var að einkennisföt, sem slökkviliðsmenn á Keflavíkurflugvelli fengu, yrðu ekki talin skattskyld. Þessi staðfesting gekk út frá tilteknum forsendum, varðandi afnot fatnaðarins, sem gerð hafði verið grein fyrir í bréfi trúnaðarmanns slökkviliðsmanna á Keflavíkurflugvelli, dags. 28. júlí 1975. Í bréfinu var eftirfarandi tekið fram:

1. Einkennisfötin væru ekki notuð við dagleg störf slökkviliðsmanna,heldur eingöngu við sérstök tækifæri, svo sem heimsóknir, hátíðisdaga o.þ.u.l.

2. Einkennisfötin væru eign Slökkviliðs Keflavíkurflugvallar en ekki starfsmanna, enda væri fötum skilað til eiganda.

3. Einkennisbúningarnir væru keyptir erlendis frá og þar sem þeir væru eign erlendra aðila væru þeir ekki tollafgreiddir, enda þá sjaldan þeir væru notaðir væri það innan flugvallarsvæðis.

Í nefndum úrskurðum yfirskattanefndar var tekist á um skattskyldu einkennisfatnaðar slökkviliðsmanna á Keflavíkurflugvelli. Viðkomandi slökkviliðsmenn héldu fram skattfrelsi einkennisfatnaðar síns og vísuðu því til staðfestingar til bréfs ríkisskattstjóra frá 9. september 1975. Í kæruúrskurðum, sem byggðir voru á 3. málsl. 1. mgr. 95. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, hafnaði skattstjóri kröfum kærenda og byggði á því að tilvitnað bréf ríkisskattstjóra ætti ekki lengur við og með vísan til þess og hlunnindamatsreglna ríkisskattstjóra væri því ekki grundvöllur til að fallast á kröfur kærenda. Yfirskattanefnd ómerkti ákvarðanir skattstjóra með úrskurðum sínum. Tók nefndin fram að rétt hefði verið að fara með hina umdeildu ákvörðun skattstjóra, eftir 1. og 3. mgr. 96. gr. laganna, sérstaklega með tilliti til fyrrgreinds bréfs ríkisskattstjóra, sem kærandi hefði borið fyrir sig og óupplýst væri hvaða þýðingu hefði. Þannig teldust málin ekki nægjanlega upplýst til að hægt væri að taka ákvörðun á grundvelli tilvitnaðs ákvæðis 95. gr. laganna.

Samkvæmt 1. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, eru hlunnindi skattlögð sem tekjur. Hlunnindi eru greiðslur sem spara einkaútgjöld launþega og auka því greiðslugetu hans á sama hátt og laun. Skattlagning hlunninda kemur því í veg fyrir að launþegum sé mismunað í skattlagningu eftir eðli launa þeirra. Starfsmönnum, sem fá afhentan vinnufatnað án endurgjalds, ber að gera grein fyrir honum á skattframtali og telja hann sér til tekna samkvæmt skattmati ríkisskattstjóra. Afstaða ríkisskattstjóra sem birtist í umræddu bréfi hans, dags. 9. september 1975, gerir ráð fyrir að í tilteknum afmörkuðum tilvikum eigi meginreglan um skattlagningu vinnufatnaðar sem hlunninda ekki við. Segja má að þessi afstaða hafi hlotið ákveðna staðfestingu með uppkvaðningu úrskurðar ríkisskattanefndar nr. 617/1992, en í þeim úrskurði er byggt á sams konar forsendum og gert var í títtnefndu bréfi ríkisskattstjóra. Niðurstaða úrskurðarins var í stuttu máli á þá leið að svokallaður hátíðabúningur lögreglustjóra, sem bæjarfógeti fékk afhentan, skyldi ekki talinn til skattskyldra hlunninda hjá starfsmanni þar sem búningurinn væri í raun eign lögreglustjóraembættisins og vegna þess að starfsmanninum var ekki heimilt að nota hann nema við sérstök tækifæri.

Þar sem ljóst er að fyrir liggur vafi um þýðingu og gildi nefnds bréfs ríkisskattstjóra varðandi skattfrelsi einkennisfatnaðar slökkviliðsmanna á Keflavíkurflugvelli þykir ástæða til að taka fram að umrætt bréf embættisins hefur ekki verið afturkallað með formlegum hætti og hefur því fullt gildi sem slíkt. Rétt er þó að vekja athygli á því að með bréfinu var einungis verið að svara tilteknu álitaefni þar sem byggt var á ítarlegum upplýsingum lögðum fram af hálfu fyrirspyrjenda. Ekki standa því efni til að túlka það bréf á annan hátt en samkvæmt orðanna hljóðan hvað þann hóp varðar sem bréfið tók til. Sú túlkun á við enn í dag að því leyti sem atvik eru með sama hætti og lýst var í nefndu bréfi, dags. 28. júlí 1975.

Ríkisskattstjóri.

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum