Beinir skattar

Ákvarðandi bréf nr. 016/2000

17.4.2000

Staðgreiðsla af vinnulaunakröfum sem þrotabú greiðir við gjaldþrotaskipti.

17. apríl 2000 T-Ákv. 00-016 is 2000-01-0166

Vakin hefur verið athygli ríkisskattstjóra á túlkun á 1. tölul. 1.mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl., sem sett er fram í Handbók um gjaldþrotaskipti o.fl., sem gefin var út af dóms- og kirkjumálaráðuneytinu á árinu 1992 (bls. 220). Þar er því verið haldið fram að réttur launþega til greiðslu á vangoldinni launakröfu nái einungis til “nettólauna”, þ.e. launa þegar búið er að draga frá alla frádráttarliði, þ.m.t. staðgreiðslu opinberra gjalda. Tekið skal fram að þessi túlkun gerir ekki ráð fyrir að skiptastjóri sé launagreiðandi samkvæmt lögum nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda. Ríkisskattstjóri telur að þessi túlkun fái ekki staðist eins og nánar er gerð grein fyrir hér að neðan.

Samkvæmt 7. gr. laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, telst launagreiðandi vera hver sá sem innir af hendi launagreiðslur, sbr. 5. gr. sömu laga. Hafi launakröfur verið samþykktar sem slíkar við búskipti hefur þrotabú stöðu launagreiðanda í skilningi tilvitnaðra laga um staðgreiðslu opinberra gjalda, þar sem það innir af hendi laun samkvæmt tilvitnaðri 5. gr. laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda. Ríkisskattstjóri telur því að þegar þrotabú greiðir launakröfu, sem lýst hefur verið með lögmæltum hætti og samþykkt sem slík, beri þrotabúinu að halda eftir staðgreiðslu opinberra gjalda, og skila henni í ríkissjóð samkvæmt 15. og 16. gr. laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, sbr. 7. og 5. gr. sömu laga. Ef greiðsla launakröfunnar er innt af hendi til Ábyrgðarsjóðs launa er sá sjóður með sama hætti launagreiðandi í skilningi laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda.

Ríkisskattstjóri telur að ekki fái staðist að launamanni beri einungis að lýsa “nettólaunum”, eins og haldið er fram í Handbók um gjaldþrotaskipti o.fl. og vitnað er til hér að framan. Slík kröfulýsing og úthlutun á grundvelli hennar kynni í þeim tilvikum, sem ekkert fæst greitt upp í kröfu innheimtumanns ríkissjóðs að valda því að launamaður myndi bera skarðan hlut frá borði við skattlagningu. Leiðir þetta af tengslum launakröfu launamanns og staðgreiðslukröfu innheimtumanns annars vegar og lögbundinni skilgreiningu á skattskyldum tekjum. Þannig myndi launamaður telja fram þau laun sem hann hefði fengið greidd og við skattuppgjör við álagningu kæmi til frádráttar álögðum sköttum á framtaldar tekjur sú staðgreiðsla sem skilað hefur verið í ríkissjóð. Ef launamaður hefur einungis fengið “nettólaun” við búskiptin og ekki hefur fengist neitt greitt vegna staðgreiðslu af þeim launum, myndu nettólaunin koma til skattlagningar sem hver önnur laun án þess að til frádráttar kæmi nein staðgreiðsla. Álagning skatta er lögbundin og hvorki tekjuhugtak laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, né ákvæði laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, gera ráð fyrir frávikum varðandi skattalega meðferð svonefndra “nettólauna”. Þannig hefur skattstjóri ekki heimild í lögum til að falla frá álagningu skatta á “nettólaun”, heldur ber honum að leggja á þau skatt eins og aðrar tekjur, sbr. einkum 62. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, sbr. og 1. mgr. 1. tölul. A-liðar 7. gr. sömu laga. Ef einungis hefur verið lýst

nettólaunum

er því hætta á því að launamaður beri skarðan hlut frá borði, hvort heldur það er þrotabúið sem greiðir launin eða greiðsluskyldan fellur á Ábyrgðarsjóð launa. Skaðleysi launa kröfuhafa verður því aðeins tryggt að kröfu hans um heildarlaun hafi verið lýst.

Að því er varðar kröfu innheimtumanns ríkissjóðs vegna vangreiddrar staðgreiðslu opinberra gjalda getur hún byggt á tvenns konar grunni. Annars vegar getur verið um að ræða staðgreiðslu sem byggir á innsendum skilagreinum en hins vegar staðgreiðslu byggða á áætlun skattstjóra á staðgreiðslu eins og í þeim tilvikum þegar lögboðnum skilagreinum hefur ekki verið skilað til skattstjóra. Ef um er að ræða staðgreiðslu sem byggir á skilagreinum er ljóst að krafa innheimtumanns ríkissjóðs á því aðeins rétt á sér að laun hafi verið greidd. Þess þekkjast dæmi að skilagreinum hafi verið skilað vegna launa sem ekki hafa verið greidd. Í slíkum tilvikum ber launagreiðanda að hlutast til um að staðgreiðsluskilagreinar séu leiðréttar, þar sem ekki getur verið um að ræða staðgreiðslu af launum sem ekki hafa verið greidd. Má í þessu sambandi vísa í dæmaskyni til úrskurðar yfirskattanefndar nr. 108/1998, sem fylgir hjálagt. Skattstjórar og innheimtumenn ríkissjóðs vita út af fyrir sig ekki hvort laun hafa verið innt af hendi og geta því ekki á þessu stigi gert annað en lagt til grundvallar þau gögn sem þeir hafa undir höndum. Skiptastjórum ber í þeim tilvikum þegar sýnt er að laun hafa ekki verið greidd, eins og þegar launakröfu er lýst við gjaldþrotaskipti, og fyrir liggur að innheimtumaður ríkissjóðs gerir jafnframt kröfu um greiðslu vangoldinnar staðgreiðslu opinberra gjalda að kæra staðgreiðsluna til skattstjóra og þannig hlutast til um að skattstjóri leiðrétti til lækkunar staðgreiðsluna. Sama gildir í þeim tilvikum þegar skattstjóri hefur vegna vanhalda á skýrslugjöf áætlað launagreiðanda staðgreiðslu. Þá hvílir með sama hætti sú skylda á skiptastjóra að hlutast til um að skattstjóri leiðrétti staðgreiðsluna vegna þrotabúsins. Vísast í því sambandi til þess sem áður er rakið um skyldur þrotabús sem launagreiðanda.

Með vísan til þessa sem að framan er rakið telur ríkisskattstjóri að þeim sem launakröfur eiga á hendur launagreiðanda, sem tekinn hefur verið til gjaldþrotaskipta, beri að lýsa kröfum sínum sem slíkum, þ.e. heildarlaunum. Skiptastjórum ber, eins og öðrum launagreiðendum, að halda staðgreiðslu opinberra gjalda eftir, við greiðslu launakrafnanna.

Kröfur innheimtumanns ríkissjóðs um vangoldna staðgreiðslu opinberra gjalda vegna launa fyrir gjaldþrotaskipti eru því aðeins réttar að efni til að laun hafi í reynd verið greidd áður en búið var tekið til gjaldþrotaskipta. Hafi staðgreiðsla opinberra gjalda verið áætluð á grundvelli 21. gr. laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, ber skiptastjóra að hlutast til um að sú áætlun verði leiðrétt með því að senda inn lögboðin gögn. Kröfur um staðgreiðslu opinberra gjalda sem þannig eru rangar að efni til verða því aðeins leiðréttar að kæru sé beint til skattstjóra sem þá úrskurðar um lækkun staðgreiðslunnar, enda fylgi fullnægjandi gögn til stuðnings kærunni.

Tekið skal fram að samkvæmt upplýsingum frá Ábyrgðarsjóði launa mun það heyra til undantekninga að launakröfum hafi verið lýst sem “nettólaunum”. Einhver brögð munu þó hafa verið að þessari framkvæmd, sem hafa leitt til þess að launamenn hafa þegar upp er staðið borið skarðan hlut frá borði, enda heldur Ábyrgðarsjóður launa lögum samkvæmt staðgreiðslu eftir af greiðslum sem inntar eru af hendi úr sjóðnum óháð því hvort kröfum var lýst sem heildarlaunum eða “nettólaunum”.

Með vísan til þess sem hér hefur verið rakið vill ríkisskattstjóri vekja athygli þeirra sem hafa með kröfulýsingar og skiptastjórn að gera, að til þess að tryggja sem best skaðleysi launakröfuhafa við gjaldþrotaskipti og skattákvörðun í kjölfarið, verður að lýsa kröfum vegna heildarlauna en ekki vegna svonefndra “nettólauna”. Jafnframt þykir rétt að árétta þá skyldu skiptastjóra, sem forráðamanna þrotabúa, að þeir bera skyldur launagreiðanda í skilningi laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, bæði vegna greiðslu launa vegna starfa í þágu þrotabús og jafnframt við uppgjör á launakröfum við skipti þrotabúsins vegna krafna sem eru greiddar við sjálf gjaldþrotaskiptin.

Ríkisskattstjóri.

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum