Beinir skattar

Ákvarðandi bréf nr. 013/2000

28.3.2000

Vaxtabætur. Ákvörðun vaxtabóta skv. 8. og 9. málsl. 4. mgr. 69. gr. B.

28. mars 2000 T-Ákv. 00-013 is 2000-03-1166

Með b-lið1. gr. laga nr. 97/1998, voru gerðar breytingar á vaxtabótaákvæði laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Breytingin fólst í því að við 4. mgr. 69. gr. B var bætt tveimur málsliðum (8. og 9. málsl.) svohljóðandi:

Við ákvörðun vaxtabóta á því ári þegar maður aflar séríbúðarhúsnæðis, en hefur ekki fengið vaxtabætur árið áður, skal þrátt fyrir ákvæði 1. málsl. þessarar málsgreinar reikna vaxtabætur frá og með þeim ársfjórðungi sem fyrsta fasteignaveðlán vegna kaupanna er tekið. Skal hámark vaxtagjalda, tekjuskattsstofn og hámark vaxtabóta þá ákveðið hlutfallslega miðað við það.

Með hliðsjón af fyrirspurnum um túlkun þessa ákvæðis telur ríkisskattstjóri rétt að gefa álit sitt á því með hvaða hætti beri að mati embættisins að túlka ákvæði þetta. Eru það einkum tvö atriði sem talin eru hafa þurft nánari skýringa við. Annars vegar að afmarka þann hóp sem á að fá hlutfallslega útreiknaðar bætur og hins vegar að með hvaða hætti hlutfallsútreikningur vaxtabóta samkvæmt ákvæðinu á að fara fram.

1. Hverjir fá í hlutfallslega útreiknaðar vaxtabætur ?
Samkvæmt lagaákvæðinu eru tvö skilyrði sem þurfa að vera til staðar til að til þess að til greina komi hlutfallslegur útreikningur bóta samkvæmt 8. og 9. málsl. 4. mgr. 69. gr. B laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt.

Fyrra skilyrðið er það að maður þarf að hafa aflað séríbúðarhúsnæðis á tekjuárinu. Telja verður eðlilegt að skýra þetta ákvæði með þeim hætti að hér sé átt við mann sem átti ekki íbúðarhúsnæði á tekjuárinu fyrr en við umrædd kaup. Hlutfallslegum útreikningi vaxtabóta verði því ekki beitt þegar um það er að ræða að íbúðarhúsnæði hefur verið keypt á tekjuárinu í kjölfar á sölu annars íbúðarhúsnæðis á sama ári.

Síðari skilyrðið er að hann hafi ekki fengið vaxtabætur árið áður. Ríkisskattstjóri telur að túlka beri þetta ákvæði eftir orðanna hljóðan og að ef maður hefur fengið vaxtabætur á árinu áður þá komi hlutfallslegur útreikningur vaxtabóta ekki til skoðunar. Maður sem þannig hefur haft vaxtagjöld sem fullnægja skilyrðum 69. gr. B á árinu áður en hefur af einhverjum ástæðum ekki haft vaxtabætur getur því ekki átt rétt á hlutfallslegum útreikningi bóta samkvæmt ákvæðinu.

2. Um hlutfallslegan útreikning vaxtabóta.
Ríkisskattstjóri telur að við hlutfallslegan útreikning vaxtabóta skuli uppreikna vaxtagjöld viðkomandi til heils árs. Þannig fundin vaxtagjöld skulu lögð til grundvallar við ákvörðun bóta og þannig reiknaðar bætur lækkaðar til samræmis við fjölda ársfjórðunga í hverju tilviki.

Ríkisskattstjóri.

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum