Beinir skattar

Ákvarðandi bréf nr. 025/1999

17.12.1999

Úttekt úr sjúkrasjóði.

17. desember 1999 T-Ákv. 99-025 is 1999-12-0187

Með bréfi, dagsettu 1. desember sl., leitið þér álits ríkisskattstjóra á skattlagningu úttektar úr vissum sjúkrasjóði. Ljósrit úr framtalsgögnum gjaldanda í umdæmi yðar fylgdu með.

Í þessu tilviki er því fyrst til að svara að ríkisskattstjóri telur ekki rétt að tjá sig um málefni einstakra skattþegna ef mál þeirra eru til athugunar og úrlausnar hjá skattstjóra. Verður því ekki fjallað um skattskil umræddra einstaklinga í svari þessu.

Almennt séð ber að líta á alla úttekt úr sjúkrasjóðum stéttarfélaga sem launatekjur eða styrk. Ber því að skattleggja slíka úttekt í almennu skatthlutfalli. Sjóðirnir eru myndaðir með framlagi félagsmanna án tillits til þess hvort eða að hve miklu leyti þeir koma til með að njóta greiðslna úr sjóðnum.

Mótframlag kemur síðan almennt frá launagreiðendum og er það hvorki sérgreint á einstakan sjóðsfélaga né tekjufært hjá honum.

Inneignir eru ekki í upphafi sérgreindar á hvern einstakan sjóðsfélaga og eiga, t.d. skuldheimtumenn sjóðsfélaga, þrotabú þeirra eða erfingjar, ekki tilkall til hlutdeildar í sjóðnum að neinu leyti.

Vextir og önnur ávöxtun á fé í sjóðnum fellur til sjóðsins óskipt en ekki á einstaka sjóðsfélaga.

Ofangreind samsetning sjóðsins, sem og venjulegar reglur hans um úthlutun í veikinda-, slysa- og áfallatilvikum, leiðir til þess að líta ber á að öll úttekt og úthlutun á einstaka sjóðsfélaga skal skilgreind sem skattskyldar tekjur hans.

Taki sjóðsstjórn ákvörðun um að skipta upp sjóðnum á sjóðsfélaga eftir einhverjum fyrirfram ákveðnum skiptigrunni er á engan hátt hægt að líta á nokkurn þátt uppskiptifjárhæðarinnar sem vexti. Mismunur sem vera kann á annars vegar upphaflegu framlagi launamanns og eftir atvikum launagreiðandans og hins vegar útborgun sjóðsfélagans getur á engan hátt í skilningi skattalaga verið ávöxtun eða vextir hans sem einstaklings.

Það er síðan annað mál að ef einhver tími líður frá því að einstaklingsbundin fjárhæð er sérgreind þangað til sjóðsfélaginn fær hana greidda að þá eru vextir sem til falla á þeim tíma tekjufærðir sem fjármagnstekjur enda þótt þeir komi til útborgunar samtímis aðal greiðslunni.

Að öllu virtu er það niðurstaða ríkisskattstjóra að úttekt úr sjúkrasjóðum hvort sem slík úttekt fer beint í hendur sjóðsfélaga eða á hans nafn með sérgreindum hætti sem framlag, t.d. til séreignarlífeyrissjóðs, teljist skattskyldar tekjur á grundvelli 2. tölul. 7. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt.

Ríkisskattstjóri tjáir sig hins vegar ekki um málefni einstakra skattþegna í þessu samhengi.

Ríkisskattstjóri.

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum