Ákvarðandi bréf nr. 005/1999
Skattskylda dánarbóta samkvæmt lögum nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.
22. febrúar 1999 T-Ákv. 99-005 is
Með lögum nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, með síðari breytingum, voru lögfest nýmæli varðandi viðbótartryggingavernd launþega og þeirra er stunda atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi. Í lögunum er m.a. boðið upp á það nýmæli að hluti af viðbótarlífeyrissparnaði standi straum af iðgjöldum vegna líftryggingu sjóðfélaga.
Með lögum nr. 141/1997 sem breyttu 5. og 6. tölul. A-liðar 30. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, var launþegum og þeim er stunda atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi og kaupa sér viðbótartryggingavernd samkvæmt lögum nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda, veitt það skattalega hagræði að draga frá tekjuskattsstofni iðgjöld vegna hennar og fresta þannig skattlagningu. Heimilaður er frádráttur vegna allt að 2% viðbótarlífeyrissparnaðar af launum, þóknunum o.þ.h. eða reiknuðu endurgjaldi sjóðfélaga.
Í 28. gr. laga nr. 75/1981, um tekju- og eignarskatt, eru ákvæði er kveða á um undanþágur ýmissa greiðslna og réttinda frá tekjuskatti. Í l. tölul. 28. gr. kemur fram að eignarauki vegna arftöku, fyrirframgreiðslu arfs og dánargjafa teljist ekki til tekna, enda hafi erfðafjárskattur af þeim verið greiddur. Með lögum nr. 154/1998 var svohljóðandi ákvæði bætt við 1. tölul.
Þetta á þó ekki við um þann hluta lífeyrissparnaðar sem fellur til erfingja samkvæmt lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.
Með þessari lagabreytingu var undanþáguákvæði 1. tölu. 28. gr. þrengt vegna þess skattalega hagræði er 5. og 6. tölul. A-liðar 30. gr. laga nr. 75/1981, um tekju- og eignarskatt, sbr. lög nr. 141/1997, veita um frádrátt af tekjuskattsstofni af greiðslu þeirra iðgjalda er renna til kaupa á viðbótartryggingavernd hjá lífeyrissjóðum og öðrum bærum aðilum skv. 3. mgr. 8. gr. laganna.
Af lögum nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, leiðir að heimilt er að verja hluta af viðbótarlífeyrissparnaði til kaupa á líf- og/eða heilsutryggingu. Heimild þessi er hluti af lögum nr. 129/1997 og greiðslan fer eftir ákvæðum þeirra laga. Ákvæði 4. greinar breytingarlaga nr. 154/1998 taka því bæði til lífeyrissparnaðar og líftryggingar sem fellur til erfingja samkvæmt lögum nr. 129/1997. Hagræði 5. og 6. tölul. A-liðar 30. gr. laga nr. 75/1981, um tekju- og eignarskatt, hefur verið nýtt og erfingjar sjóðfélagans greiða því tekjuskatt af allri þeirri fjárhæð er rennur til þeirra vegna viðbótartryggingarverndar hins látna.
Ríkisskattstjóri.