Beinir skattar

Ákvarðandi bréf nr. 003/1999

19.1.1999

Styrkir til erlendra námsmanna hér á landi frá íslenska menntamálaráðuneytinu.

19. janúar 1999 T-Ákv. 99-003 is

Með bréfi, dagsettu 17. desember sl., óskið þér eftir niðurstöðu ríkisskattstjóra um skattalega meðferð á styrkjum.

Niðurstaða ríkisskattstjóra er sú að hér sé ekki um laun að ræða en skattskyldar greiðslur og að rétt sé að nýta persónuafslátt á móti reiknuðum skatti af fjárhæðinni þannig að skattur leggist ekki á.

Í bréfinu segir svo:

Menntamálaráðuneytið veitir árlega rúmlega tuttugu erlendum námsmönnum frá jafnmörgum löndum styrk til náms í íslenskum fræðum við Háskóla Íslands. Eftir að tekin var upp staðgreiðsla opinberra gjalda hafa styrkir þessir verið greiddir sem laun í gegnum launaafgreiðslu fjármálaráðuneytisins (nú Ríkisbókhalds). Styrkþegar hafa nýtt skattkort sitt við greiðslu mánaðarlegrar styrkfjárhæðar, sem nú nemur 55 þús. kr. Hefur styrkveitingum á hverjum tíma verið þannig háttað að persónuafsláttur hefur numið hærri fjárhæð en reiknaður tekjuskattur af styrknum.

Síðan er vikið að skyldu til greiðslu á lífeyrissjóðsiðgjaldi vegna umræddra styrkja en svo virðist sem vegna greiðslutilhögunar hafi iðgjald verið reiknað af fjárhæðunum.

Í niðurlagi bréfsins segir svo:

Er hér með óskað eftir umsögn embættis ríkisskattstjóra hvernig haga skuli þessum greiðslum þannig að styrkþegar þurfi ekki að greiða tekjuskatt og útsvar styrkfjárhæðinni.

Til svar við ofangreindu skal þetta tekið fram:

Allir erlendu styrkþegarnir eiga að fá skattkort og fullan persónuafslátt hvers mánaðar. Styrkir þeir sem veittir eru námsmönnum sér til framfærslu og til greiðslu dvalarkostnaðar eru skattskyldar greiðslur. Byggir skattskyldan á ákvæðum 2. mgr. 1. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Ekki er um laun að ræða.

Um staðgreiðsluskyldu fer eftir reglum laga um staðgreiðslu opinberra gjalda nr. 45/1987, sjá 3. tölul. 5. gr. laganna. Með hliðsjón af eðli þeirra greiðslna sem hér um ræðir verður ekki séð að rétt sé að telja að ákvæði reglugerðar nr. 591/1987, um undanþágu ýmissa greiðslna frá staðgreiðslu, eigi hér við.

Samkvæmt bréfi yðar er styrkfjárhæð undir skattleysismörkum hvers mánaðar og ef skattkorti er skipt í hlutfalli við 55.000 kr. mánaðargreiðslu á viðkomandi námsmaður 9% af mánaðarlegum persónuafslætti til að nýta gegn öðrum tekjum sínum ef svo ber undir.

Verði einhver vandamál við framkvæmd skatttökunnar verða frekari upplýsingar fúslega veittar.

Ríkisskattstjóri.

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum