Óbeinir skattar

Ákvarðandi bréf nr. 1088/2014

23.4.2014

Virðisaukaskattur - markþjálfun

7. apríl 2014
G-ákv 1088/14

Að gefnu tilefni vill ríkisskattstjóri vekja athygli á eftirfarandi áliti sínu um virðisaukaskattsskyldu vegna svonefndrar markþjálfunar en embættinu hafa borist fyrirspurnir um þetta álitaefni. Við úrlausn þessa álitaefnis hefur ríkisskattstjóri m.a. fengið til fundar við sig sjálfstætt starfandi markþjálfa, m.a. forsvarsmenn A á Íslandi.

Skattskyldusvið virðisaukaskatts er skilgreint í 2. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt. Sviðið er markað mjög rúmt. Tekur það til allra vara og verðmæta og til allrar vinnu og þjónustu, hverju nafni sem nefnist, sem ekki er sérstaklega undanþegin samkvæmt 3. mgr. greinarinnar. Sú málsgrein hefur að geyma tæmandi talningu þeirrar vinnu og þjónustu sem undanþegin er virðisaukaskatti, eins og skýrt kemur fram í athugasemdum við frumvarp það er varð að lögum nr. 50/1988. Undanþáguákvæðin fela í sér undantekningar frá meginreglu um skattskyldu og ber sem slíkar að skýra þröngt og aldrei rýmri skýringu en orðalag ákvæðanna beinlínis gefur tilefni til.

Því hefur verið haldið fram að þjónusta markþjálfa geti fallið undir ákvæði 3. tölul. 3. mgr. 2. gr. laganna. Samkvæmt ákvæðinu er rekstur skóla og menntastofnana, svo og öku-, flug- og danskennsla, undanþeginn virðisaukaskatti. Í greinargerð með frumvarpi til laganna kemur m.a. eftirfarandi fram um þetta: "Til reksturs skóla og menntastofnana ... telst öll venjuleg skóla- og háskólakennsla, fagleg menntun, endurmenntun og önnur kennslu- og menntastarfsemi. ... Við mat á því hvort nám telst skattfrjálst er eðlilegt að höfð sé hliðsjón af því hvort boðið er upp á það í hinu almenna skólakerfi eða ekki. Hafi námsgreinin t.d. unnið sér fastan sess í hinu almenna skólakerfi ber samkvæmt framansögðu að líta svo á að skóla- eða námskeiðsgjöld séu skattfrjáls. Ekki nægir þó í þessu sambandi að boðið sé upp á námsgreinina eða námsbrautina í einstökum skólum heldur verður námið að hafa unnið sér fastan og almennan sess í skólakerfinu."

Við túlkun þess hvað telst til undanþeginnar kennslu- og menntastarfsemi í skilningi ákvæðisins er fyrst og fremst litið til þess hvort námsgrein hafi unnið sér fastan og almennan sess í skólakerfinu. Við mat á því er m.a. litið til þess hvort viðkomandi viðfangsefni eða námskeið sé að finna í námsskrám skóla. Þá hefur einnig verið miðað við að nám sem felur í sér faglega menntun eða endurmenntun sé undanþegið virðisaukaskatti, en með faglegri menntun eða endurmenntun er átt við kennslustarfsemi sem miðar að því að viðhalda eða auka þekkingu nemenda eingöngu vegna atvinnu þeirra, jafnvel þótt námsgreinin hafi ekki unnið sér fastan og almennan sess í skólakerfinu. Í öðrum tilvikum er starfsemi sem ekki hefur unnið sér fastan og almennan sess í skólakerfinu skattskyld, s.s. námskeið sem í eðli sínu eru tómstundafræðsla.

Á vefsvæði A á Íslandi, www.A.is, er markþjálfun skilgreind með eftirfarandi hætti: „Markþjálfun er leið til að laða fram það besta í fólki. Henni er hægt að beita á ýmsa vegu bæði tengt vinnu og einkalífi. Executive coaching hefur verið nefnd stjórnendaþjálfun eða stjórnendamarkþjálfun á íslensku og miðar sérstaklega að því að bæta árangur stjórnenda. Í life coaching eða lífþjálfun er fremur unnið með viðfangsefni tengd einkalífinu.“ Á sama stað kemur fram að „Markþjálfun gefur fólki tækifæri á að skoða sjálft sig, störf sín og hegðun í fullum trúnaði með annarri manneskju sem til þess hefur hlotið sérstaka þjálfun. Það er þroskandi, lærdómsríkt og skemmtilegt. Markþjálfun getur hjálpað einstaklingi að ná betri árangri í lífi og starfi og getur bætt almennt samskipti hvort sem er í vinnu eða einkalífi og aðstoðað einstaklinga við að ná markmiðum og aukið lífshamingju.“ Þá kemur einnig fram að „Markþjálfun er fyrir þá sem vilja horfast í augu við sjálfa sig, hvort sem það er til að bæta það sem þarf að bæta, velta upp nýjum möguleikum, fá stuðning í erfiðum ákvörðunum eða einfaldlega að gefa sjálfum sér klapp á bakið fyrir það sem vel er gert. Með markþjálfun fá einstaklingar stuðning frá fólki sem hefur þjálfað sig í að hjálpa öðrum að finna sínar eigin lausnir. Markþjálfinn hefur ekki önnur markmið en þau að hjálpa viðskiptavini sínum og vinnur í fullum trúnaði.“

Á vefsvæði Opna háskólans í Háskólanum í Reykjavík, www.opnihaskolinn.is, er einnig umfjöllun um markþjálfun en skólinn býður upp á nám fyrir þá sem hyggjast starfa við markþjálfun. Þar kemur m.a. fram að markþjálfun sé „ekki einhliða hvatningarræða, ekki sjálfsstyrkingarnámskeið og ekki einhliða kennslustund í stjórnunarfræðum eða tímastjórnun.“ Þá er gerður greinarmunur á markþjálfun annars vegar og þjálfun og kennslu hins vegar.

Af hálfu forsvarsmanna A á Íslandi hefur komið fram að „life coaching“ og „executive coaching“ sé í raun og veru alveg sambærilegt, lítill sem enginn greinarmunur sé þar á. Þá sé sá greinarmunur á markþjálfun annars vegar og kennslu hins vegar að í hinu fyrrnefnda fælist meiri sjálfslærdómur og sjálfsstyrking.

Í hefðbundnum skilningi er með hugtakinu kennsla átt við samskipti milli nemanda og kennara þar sem kennari veitir fræðslu, leiðbeiningu og tilsögn. Er þessi skilgreining m.a. lögð til grundvallar við afmörkun á ákvæði 3. tölul. 3. mgr. 2. gr. laganna. Í framangreindu efni um markþjálfun er lögð áhersla á að markþjálfinn hafi lágmarks íhlutun í samskiptum hans og marksækjanda og er raunar sérstaklega tekið fram að gera verði greinarmun á markþjálfun annars vegar og kennslu hins vegar. Það er álit ríkisskattstjóra að markþjálfun uppfylli ekki þau skilyrði sem tilgreind eru hér að framan sem koma til skoðunar við mat á því hvort tiltekið viðfangsefni teljist til undanþeginnar kennslu- og menntastarfsemi í skilningi ákvæðisins. Með hliðsjón af framangreindu sem og þess að um undanþáguákvæði er að ræða, sem túlka ber þröngt, er það mat ríkisskattstjóra að þjónusta markþjálfa falli ekki undir ákvæði 3. tölul. 3. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988. Ekki verður séð að önnur undanþáguákvæði 3. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988 komi til greina við mat á undanþágu virðisaukaskatts vegna markþjálfunar. Það er því mat ríkisskattstjóra að markþjálfun telst vera virðisaukaskattsskyld þjónusta samkvæmt lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt.

Virðingarfyllst
f. h. ríkisskattstjóra

Ríkisskattstjóri

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum