Óbeinir skattar

Ákvarðandi bréf nr. 1089/2014

23.4.2014

Virðisaukaskattur - sala aðgangs að landssvæðum

15. apríl 2014
G-ákv 1089/14

Vísað er til erindis félagsins sem barst ríkisskattstjóra þann 21. nóvember 2013 með bréfi dagsettu hinn 18. nóvember sama ár. Í erindinu er spurst fyrir um það hvort innheimta svokallaðs náttúruverndargjalds, þ.e. ,,... náttúruverndargjalds fyrir aðgang að náttúruperlum á Íslandi.“, eins og það er orðað í bréfinu, teljist til skattskyldrar eða undanþeginnar starfsemi samkvæmt lögum um virðisaukaskatt. Fram kemur að gjaldinu verði ráðstafað til uppbyggingar á aðgengi að viðkomandi náttúruperlum, svo sem malbikuðum bílastæðum, göngustígum o.fl.

Til svars erindinu skal tekið fram að skattskyldusvið virðisaukaskatts er skilgreint mjög víðtækt í 2. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt. Skattskyldusviðið tekur til allra vara og verðmæta, nýrra og notaðra og til allrar vinnu og þjónustu, hverju nafni sem nefnist, sem ekki er í lögunum sérstaklega lýst undanþegin. Í 3. mgr. 2. gr. laganna er talin upp sú þjónusta sem er undanþegin virðisaukaskatti skv. lögunum. Í samræmi við það viðtekna lögskýringarsjónarmið að undantekningar frá meginreglu skuli skýra þröngt hefur í skattframkvæmd verið talið rétt að skýra undanþáguákvæðin ekki rýmri skýringu en orðalag þeirra gefur beinlínis tilefni til. Ekkert þeirra undanþáguákvæða sem upp eru talin í 3. mgr. 2. gr. nefndra laga nr. 50/1988 tekur samkvæmt orðanna hljóðan til aðgangs að landssvæðum og lítur ríkisskattstjóri því svo á að starfsemin falli undir skattskyldusvið þeirra. Ráðstöfun tekna af umræddu gjaldi hefur enga þýðingu við mat á virðisaukaskattsskyldu. Þá skal þess getið að leggja ber 25,5% virðisaukaskatt á gjaldið í samræmi við meginreglu 1. mgr. 14. gr. laga nr. 50/1988.

Skylda til að innheimta virðisaukaskatt og skila honum í ríkissjóð hvílir á hverjum þeim sem í atvinnuskyni eða með sjálfstæðri starfsemi sinni selur eða afhendir vörur eða verðmæti ellegar innir af hendi skattskylda vinnu eða þjónustu sbr. 1. tölul. 1. mgr. 3. gr. nefndra laga nr. 50/1988. Hver sá sem skattskyldur er skal ótilkvaddur tilkynna atvinnurekstur sinn til skráningar hjá ríkisskattstjóra, sbr. 5. gr. sömu laga. Ákvörðunarvald varðandi skráningu er í höndum ríkisskattstjóra. Samkvæmt 5. mgr. 5. gr. laganna skal eigi skrá aðila ef samanlagðar tekjur hans af sölu skattskyldrar vöru og þjónustu eru að jafnaði lægri en kostnaður við aðföng sem keypt eru með virðisaukaskatti til starfseminnar.

Beðist er velvirðingar á því hve lengi hefur dregist að svara erindi félagsins.

Virðingarfyllst
f. h. ríkisskattstjóra

Ríkisskattstjóri

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum