Óbeinir skattar

Ákvarðandi bréf nr. 1067/2006

21.12.2006

Virðisaukaskattur - nálastungulækningar - heilbrigðisþjónusta - heilsutengd þjónusta - lög nr. 34/2005, um græðara

21. desember 2006
G-Ákv. 1067-06

Vísað er til bréfs yðar dagsett 15. september 2006, þar sem óskað er umsagnar ríkisskattstjóra um stöðu nálastungulækninga gagnvart virðisaukaskattsskyldu.

Í bréfi yðar kemur fram að horft sé til þess að aðili sem legði stund á framangreindar lækningar gæti lagt fram til umsagnar heilbrigðisyfirvalda staðfest háskólapróf þýtt af löggiltum dómtúlk, í fræðum er fjölluðu um nálastungulækningar og meðferðir tengdar þeim.

Til svars við fyrirspurn yðar skal eftirfarandi tekið fram:

Skattskyldusvið virðisaukaskatts er skilgreint mjög víðtækt í 2. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt. Að því er þjónustu varðar tekur skattskyldan til allrar vinnu og þjónustu hverju nafni sem nefnist, sem ekki er sérstaklega tilgreind undanþegin í 3. mgr. 2. gr. laganna. Samkvæmt 1. tölul. 3. mgr. 2. gr. laganna, er þjónusta sjúkrahúsa, fæðingarstofnana, heilsuhæla og annarra hliðstæðra stofnana, svo og lækningar, tannlækningar og önnur eiginleg heilbrigðisþjónusta, undanþegin virðisaukaskatti. Við afmörkun á því hvað felst í önnur eiginleg heilbrigðisþjónusta í framangreindu sambandi er í skattframkvæmd miðað við að starfsemi þurfi að uppfylla tvö skilyrði. Annars vegar að um sé að ræða þjónustu sem fellur undir lög nr. 24/1985, um starfsheiti og starfsréttindi heilbrigðisstétta, eða sérlög um heilbrigðismál og hins vegar að þjónustan felist í meðferð á líkama sjúklings til lækningar, hjúkrunar eða sambærilegrar meðferðar. Jafnframt hefur í skattframkvæmd verið litið svo á að starfsemi sálfræðinga sem hafa leyfi til að kalla sig sérfræðinga skv. reglugerð nr. 158/1990, um sérfræðileyfi sálfræðinga, og starfa á heilbrigðissviði sé undanþegin skv. umræddum 1. tölul. 3. mgr. 2. gr. (sbr. og 2. tölul. sömu málsgreinar starfi þeir á sviði félagslegrar þjónustu). Í vafatilvikum hefur ríkisskattstjóri leitað álits heilbrigðisyfirvalda á því hvort viðkomandi starfsemi falli undir viðurkennda heilbrigðisþjónustu að mati heilbrigðisyfirvalda.

Með lögum nr. 34/2005, um græðara, var ákveðinn rammi markaður um starfsemi græðara, þ.e. þeirra sem leggja stund á heilsutengda þjónustu utan hins almenna heilbrigðiskerfis. Með lögunum er þeim veitt ákveðin viðurkenning af hálfu hins opinbera ef þeir skrá sig í skráningarkerfi fyrir græðara, en slík skráning fagfélaga og einstaklinga er háð ákveðnum skilyrðum sem nánar eru tilgreind í lögunum. Í umsögn ríkisskattstjóra um frumvarp það er varð að lögum nr. 34/2005, er sérstaklega tekið fram að starfsemi græðara sé virðisaukaskattsskyld á sama hátt og starfsemi annarra sem stunda heilbrigðistengda þjónustu, en hafa ekki löggildingu sem heilbrigðisstétt.

Með bréfi dagsettu 9. október 2006 var leitað álits landlæknis á því hvort þeir sem lokið hafa námi í nálastungulækningum falli undir lög nr. 24/1985, um starfsheiti og starfsréttindi heilbrigðisstétta, eða sérlög um heilbrigðismál. Í bréfi landlæknis, dagsettu 7. desember 2006, segir að X hafi sótt um löggildingu sem heilbrigðisstétt. Landlæknisembættið hafi af því tilefni sent heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu umsögn þess efnis að ekki væri mælt með löggildingu, en tekið fram að þeir sem hafi austurlensk meðferðarform sem aðalstarfsvettvang sæmdu sér vel í hópi græðara, sbr. framangreind lög um græðara nr. 34/2005. Ennfremur kemur fram í bréfinu að nálastungusérfræðingar hafi nú sótt um viðurkenningu sem græðarar samkvæmt þeim lögum.

Af framansögðu er ljóst að forsenda þess að nálastungulækningar verði taldar undanþegnar skattskyldu virðisaukaskatts skv. lögum nr. 50/1988, er sú að fallist verði á umsókn X um löggildingu sem heilbrigðisstétt samkvæmt lögum nr. 24/1985, eða að starfsemi teljist falla undir sérlög um heilbrigðismál. Ekki nægir að nálastungusérfræðingar fái skráningu sem græðarar samkvæmt lögum nr. 34/2005, þannig að undanþáguákvæði 1. tölul. 3. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988, taki til þeirra, sbr. það sem hér að framan er rakið.

Virðingarfyllst,
f. h. Ríkisskattstjóra
Ríkisskattstjóri

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum