Óbeinir skattar

Ákvarðandi bréf nr. 1065/2006

24.4.2006

Skatthlutfall virðisaukaskatts við sölu sjónvarpsstöðvar á aðgangi að dagskrá og völdu efni á stafrænu formi.

24. apríl 2006 G-Ákv. 1065-06

Vísað er til fyrirspurnar yðar dags. 17. október 2005, þar sem þér óskið eftir svari ríkisskattstjóra við þeirri spurningu hvort innheimta beri 14% eða 24,5% virðisaukaskatt við sölu tiltekinnar þjónustu. Rakið er í fyrirspurninni að X hf. hafi í hyggju að auka við þjónustu sína og reka gagnvirkt sjónvarp sem lýsi sér í því að um sé að ræða tengingu sjónvarps um ADSL. Z láti áskrifanda í té áskriftarbúnað fyrir hönd X hf. en búnaðurinn samanstandi af myndlykli, aðgangskorti, fjarstýringu og tengisnúru. Í ADSL þjónustunni fylgi myndlykill án endurgjalds. Fram kemur að félagið hafi í hyggju að bjóða upp á tvenns konar möguleika í gagnvirku sjónvarpi og er þeim lýst svo:

  1. SVOD (subscription Video-on-demand) en þar greiðir viðskiptavinur fasta mánaðarlega áskrift að blandaðri dagskrá sem hann horfir á þegar hann vill. Um er að ræða kvikmyndir, sjónvarpsþætti, fræðsluefni, barnaefni og annað. Nærtækast er að líkja SVOD við áskriftarsjónvarpsstöð þar sem viðskiptavinurinn velur dagskrána úr tilteknu framboði efnis.
  2. VOD (Video-on-demand) er áskriftarþjónusta að kvikmyndum, fræðsluefni o.fl. þar sem viðskiptavinurinn greiðir fyrir áhorf í hvert skipti. Hann hefur svo kvikmyndina eða annað efni í áskrift að ákveðnu gjaldi í einn sólarhring.

Til svars við fyrirspurninni skal eftirfarandi tekið fram:

Skattskyldusvið virðisaukaskatts er skilgreint í 2. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt. Samkvæmt skilgreiningunni er skattskyldusviðið mjög víðtækt. Tekur það til allra vara og verðmæta, nýrra og notaðra og til allrar vinnu og þjónustu, hverju nafni sem nefnist, sem ekki er sérstaklega tiltekin undanþegin í 3. mgr. greinarinnar. Þar er að finna tæmandi talningu þeirrar þjónustu sem undanþegin er virðisaukaskatti. Hvers konar þjónusta sem ekki er þar beinlínis tiltekin undanþegin telst virðisaukaskattsskyld. Sú þjónusta sem felst í sjónvarpsútsendingum fellur undir skattskyldusvið virðisaukaskatts, enda ekki tiltekin undanþegin í 3. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988.

Samkvæmt 1. mgr. 14. gr. laga nr. 50/1988 er almennt skatthlutfall virðisaukaskatts24,5%. Í 2. mgr. sömu greinar eru með tæmandi hætti taldar upp undantekningar frá meginreglunni. Samkvæmt 4. tölul. 2. mgr. skal virðisaukaskattur af afnotagjaldi útvarpsstöðva vera 14%. Við túlkun á því hvað fellur undir þau frávik sem felast í 2. mgr. 14. gr. hefur verið litið til þess að ákvæðið er undantekning frá meginreglunni um 24,5% virðisaukaskatt. Í skattframkvæmd hefur því verið talið að túlka beri ákvæðið þröngri lögskýringu og ekki rýmri en orðalag þess gefur beinlínis til kynna.

Í 15. gr. útvarpslaga nr. 53/2000 eru tiltekin sem tekjustofnar útvarpsstöðva annarsvegar afnotagjöld og hins vegar áskriftargjöld. Nánari skilgreiningu þeirra er ekki að finna í lögunum, en í h-lið 1. gr. þeirra er læst útsending skilgreind svo:

Læst útsending er hljóðvarps- eða sjónvarpsútsending ætluð almenningi þar sem hljóð- eða myndmerkjum hefur verið breytt í því skyni að veita einungis þeim aðgang að útsendingunni sem greitt hafa fyrir hana (áskrifendum).

Má af því ráða að áskriftargjald í skilningi útvarpslaga merki greiðslur áskrifenda fyrir hina aðgangsstýrðu útsendingu. Ætla má þá að afnotagjald í skilningi útvarpslaga merki greiðslur notenda fyrir útsendingar sem ekki eru aðgangsstýrðar með framangreindum hætti, sbr. notkun hugtaksins afnotagjald í lögum um ríkisútvarp nr. 122/2000. Þrátt fyrir umrædda aðgreiningu áskriftargjalda og afnotagjalda í útvarpslögum, hefur í skattframkvæmd verið litið svo á að afnotagjald útvarpsstöðva í skilningi 4. tölul. 2. mgr. 14. gr. laga nr. 50/1988 taki jafnt til áskriftargjalda sem afnotagjalda í framangreindri merkingu, þ.e. að með afnotagjaldi útvarpsstöðva sé almennt átt við endurgjald fyrir útsendingu dagskrárefnis innan íslenskrar lögsögu sem ætluð er almenningi til beinnar móttöku og dreift er með rafsegulöldum, hvort heldur er í tali, tónum eða myndum, um þráð eða þráðlaust, hvort heldur sem útsendingin er læst eða ólæst, sbr. skilgreiningu á hugtakinu útvarp í a-lið 1. gr. útvarpslaga. Skatthlutfallið ræðst af eðli þjónustunnar óháð kvöðum eða skyldum sem á seljanda hennar kunna að hvíla. Þannig ber afnotagjald útvarps, í framangreindri merkingu, 14% virðisaukaskatt jafnvel þótt sá er gjaldsins krefst hafi ekki leyfi útvarpsréttarnefndar til útvarps, eins og ráða má af úrskurði yfirskattanefndar nr. 352/2003.

Í fyrirspurn yðar er lýst tvenns konar möguleikum í gagnvirku sjónvarpi. Annarsvegar er um að ræða SVOD, þar sem viðskiptavinur greiðir fast mánaðarlegt áskriftargjald að dagskrá sem hann velur sjálfur hvort og þá hvenær hann horfir á. Að mati ríkisskattstjóra er þar um að ræða þjónustu sem 4. tölul. 2. mgr. 14. gr. laga nr. 50/1988 tekur til. Hins vegar er um að ræða VOD sem felur í sér aðgang í einn sólarhring að einstakri kvikmynd eða öðru efni að eigin vali kaupanda. Að mati ríkisskattstjóra er eðli þeirrar þjónustu sem felst í VOD ólíkt því sem felst í afnotum eða áskrift að útvarpi, sjónvarpi eða öðrum fjölmiðlum en líkist fremur útleigu myndefnis, en af slíkri þjónustu ber að innheimta 24,5% virðisaukaskatt. Ekki er í fyrirspurn dregið í efa að sú þjónusta sem felst í VOD er virðisaukaskattsskyld, en fyrirspurnin varðar það hvort innheimta beri 14% eða 24,5% virðisaukaskatt af henni. Með hliðsjón af eðli þjónustunnar og þeirra sjónarmiða sem fram hafa komið um að túlka beri þröngt þær undanþágur, sem tilgreindar eru í 2. mgr. 14. gr.,er það mat ríkisskattstjóra að 4. tölul. 2. mgr. 14. gr. laga nr. 50/1988 taki ekki til VOD þjónustunnar. Ber því að innheimta 24,5% virðisaukaskatt af þess háttar þjónustu.

Beðist er velvirðingar á því hve dregist hefur að svara fyrirspurn yðar.

Ríkisskattstjóri.

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum