Óbeinir skattar

Ákvarðandi bréf nr. 1062/2006

5.1.2006

Virðisaukaskattur - heilbrigðisþjónusta - osteopathic medicine

5. janúar 2006
G-Ákv. 06-1062

Ríkisskattstjóri vísar til fyrirspurnar yðar, dags. 28. október 2005, sem móttekin var hjá skattstofu Reykjavíkur 2. nóvember 2005 en framsend ríkisskattstjóra með bréfi, dags. 8. nóvember 2005. Í bréfinu er vísað til þess að osteópatía sé nú löggilt starfsheiti samkvæmt reglugerð nr. 229/2005, um menntun, réttindi og skyldur osteópata, sem undirrituð var af heilbrigðisráðherra 15. febrúar 2005 og er því farið fram á viðurkenningu á því að þjónusta osteópata sé undanþegin virðisaukaskatti á þeim grundvelli að um heilbrigðisþjónustu sé að ræða.

Til svars við fyrirspurn yðar skal eftirfarandi tekið fram:

Skv. 1. tölul. 3. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, er þjónusta sjúkrahúsa, fæðingarstofnana, heilsuhæla og annarra hliðstæðra stofnana, svo og lækningar, tannlækningar og önnur eiginleg heilbrigðisþjónusta, undanþegin virðisaukaskatti. Í skattframkvæmd hefur við skýringu á ákvæði 1. tölul. 3. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988 þótt rétt við skilgreiningu hugtakanna lækningar, tannlækningar og önnur eiginleg heilbrigðisþjónusta, að leita til sérlaga um þau svið. Að því virtu hefur eiginleg heilbrigðisþjónusta verið skýrð svo að uppfyllt þurfi að vera tvö skilyrði; 1) að þjónustan sé veitt á grundvelli starfsréttinda manns samkvæmt lögum nr. 24/1985, um starfsheiti og starfsréttindi heilbrigðisstétta. 2) að þjónustan felist í meðferð á líkama sjúklings til lækninga, hjúkrunar eða sambærilegrar meðferðar. Jafnframt hefur í skattframkvæmd verið litið svo á að starfsemi sálfræðinga sem hafa leyfi til að kalla sig sérfræðinga skv. reglugerð nr. 158/1990, um sérfræðileyfi sálfræðinga, og starfa á heilbrigðissviði sé undanþegin skv. umræddum 1. tölul. 3. mgr. 2. gr. (sbr. og 2. tölul. sömu málsgreinar starfi þeir á sviði félagslegrar þjónustu). Í vafatilvikum hefur ríkisskattstjóri leitað álits heilbrigðisyfirvalda á því hvort viðkomandi starfsemi falli undir viðurkennda heilbrigðisþjónustu að mati heilbrigðisyfirvalda.

Eins og bent er á í fyrirspurn yðar hefur heilbrigðisráðherra nú sett reglugerð nr. 229/2005, um menntun, réttindi og skyldur osteópata. Er reglugerðin sett samkvæmt lögum nr. 24/1985, um starfsheiti og starfsréttindi heilbrigðisstétta. Kemur fram í þeirri reglugerð að til þess að bera starfsheitið osteópati og starfa sem slíkur þurfi leyfi heilbrigðisráðherra. Starfsvettvangur osteópata sé á heilbrigðisstofnunum og eigin stofum.  Starfssvið osteópata sé meðhöndlun á stoðkerfi líkamans og megi osteópati ekki taka sjúkling til meðferðar án samráðs við lækni. Jafnframt kemur fram að landlæknir hafi eftirlit með skyldum osteópata og að ákvæði læknalaga nr. 53/1988 gildi um þá.

Að  framangreindu virtu er ljóst að þjónusta osteópata sem innt er af hendi á grundvelli starfsleyfis frá heilbrigðisráðherra og í samræmi við ákvæði reglugerðar nr. 229/2005 telst vera heilbrigðisþjónusta sem undanþegin er virðisaukaskatti samkvæmt 1. tölul. 3. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt.

Ríkisskattstjóri

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum