Óbeinir skattar

Ákvarðandi bréf nr. 1054/2004

13.12.2004

Virðisaukaskattur - sala á aðgangi að efni úr dagblaði á vefsíðu á internetinu.

13. desember 2004
G-Ákv. 04-1054

Ríkisskattstjóri hefur móttekið erindi yðar sem dagsett er 22. nóvember 2004. Þar kemur fram að seldur er í áskrift aðgangur að blaðinu á Netinu. Eins er seldur í áskrift aðgangur að greinum úr blaðinu á Netinu. Fram kemur að þetta efni er að öllu leyti það sama og birt er í pappírsútgáfu blaðsins. Síðan segir: "Aftur á móti er greiddur 24,5% virðisaukaskattur af efninu þegar það er selt á stafrænu formi en 14% skattur þegar það er selt á pappírsformi. Þetta þykir mörgum undarlegt og því langar mig að vita hvaða rök eru fyrir því að innheimta eigi mismunandi virðisaukaskatt af sömu vörunni þó svo að hún sé á mismunandi formi?"

Til svars við erindi yðar skal eftirfarandi tekið fram:

 Um skatthlutfall virðisaukaskatts fer eftir 14. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt (vsk-laga). Í 1. mgr. 14. gr. laganna kemur fram sú meginregla að virðisaukaskattur skuli vera 24,5%. Í 2. mgr. 14. gr. er að finna frávik frá þeirri meginreglu, þess efnis að þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. skuli virðisaukaskattur af sölu á þeirri vöru og þjónustu sem talin er upp í 2. mgr. vera 14%. Ákvæði 2. mgr. 14. gr. vsk-laga er svohljóðandi:

"Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. skal virðisaukaskattur af sölu á eftirtalinni vöru og þjónustu vera 14%:

  1. [---]
  2. Útleiga hótel- og gistiherbergja og önnur gistiþjónusta.
  3. [---]
  4. Afnotagjald útvarpsstöðva.
  5. Sala tímarita, dagblaða og landsmála- og héraðsfréttablaða.
  6. Sala bóka, jafnt frumsaminna sem þýddra, sem og hljóðupptökur af lestri slíkra bóka.
  7. Sala á heitu vatni, rafmagni og olíu til hitunar húsa og laugarvatns.
  8. Sala á matvörum og öðrum vörum til manneldis samkvæmt nánari afmörkun í viðauka við lög þessi. Sala veitingahúsa, mötuneyta og annarra hliðstæðra aðila á tilreiddum mat og þjónustu er þó skattskyld skv. 1. mgr. þessarar greinar. Fjármálaráðherra getur með reglugerð sett nánari ákvæði um virðisaukaskattsskylda sölu á vörum til manneldis.
  9. Aðgangur að vegamannvirkjum."

Við túlkun á því hvað fellur undir þau frávik sem felast í 2. mgr. 14. gr. vsk-laga hefur verið litið til þess að ákvæðið er undantekning frá meginreglunni um 24,5% virðisaukaskatt. Í skattframkvæmd hefur því verið talið að túlka beri ákvæðið þröngri lögskýringu og ekki rýmri en orðalag þess gefur beinlínis til kynna (sjá t.d. Handbók um virðisaukaskatt útg. 1998, bls. 119). Á þeim grundvelli hefur verið litið svo á að ákvæði 5. tölul. 2. mgr. 14. gr. vsk-laga taki einungis til sölu á tímaritum og blöðum samkvæmt hefðbundnum skilningi á orðunum; tímaritum og blöðum. Helgast sú túlkun einnig af því að samkvæmt orðalagi ákvæðisins tekur það einungis til sölu á tilteknum vörum en ekki sölu á þjónustu. Sú þjónusta að selja aðgang að blaðinu, eða hlutum þess, á vefsíðu á internetinu með tilheyrandi eiginleikum s.s. leitarvél verður að mati ríkisskattstjóra hvorki felld undir ákvæði 5. tölul. 2. mgr. 14. gr. vsk-laga né önnur ákvæði 2. mgr. 14. gr. laganna og ber því 24,5% virðisaukaskatt.

Ríkisskattstjóri

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum