Óbeinir skattar

Ákvarðandi bréf nr. 1051/2004

10.5.2004

Virðisaukaskattur - tapaðar viðskiptakröfur - almenn innheimta - upplýsingar úr vanskilaskrá -- sönnunarkrafa.

10. maí 2004
G-Ákv. 04-1051

Ríkisskattstjóri hefur móttekið erindi félagsins, dags. 5. janúar 2004. Í erindinu kemur fram að félagið sérhæfir sig í innheimtu krafna. Innheimta félagsins á viðskiptakröfu, sem ekki hefur verið greidd á eindaga, er með þeim hætti að 20 dögum eftir eindaga sendir félagið skuldaranum áminningarbréf. Starfsmenn félagsins reyna síðan í þrígang að hafa samband við skuldara símleiðis. 20 dögum eftir að áminningarbréfið var sent sendir félagið skuldaranum ítrekunarbréf. Með sama hætti er því bréfi fylgt eftir með því að reyna í þrígang að hafa samband við skuldara símleiðis. 20 dögum eftir að ítrekunarbréfið var sent sendir félagið skuldaranum viðvörunarbréf og reynir með sama hætti og áður að hafa samband við skuldarann. Að lokum er skuldara sent ábyrgðarbréf og er því, sömuleiðis, fylgt eftir með því að reyna í þrígang að hafa samband við skuldara símleiðis.

Í erindinu kemur fram að félagið hefur í hyggju að gefa út svokallað "mat á viðskiptakröfu" til viðskiptavina sinna. Ætlunin er að gefa matið út að loknu ofangreindu innheimtuferli, þegar innheimtan hefur ekki borið árangur, og leggja það til grundvallar við ákvörðun um hvort setja eigi kröfu í "löginnheimtu". Við mat er tekið mið af upplýsingum um greiðanda skráðar í VOG skrá Lánstrausts.

 Erindi félagsins lýtur að því að fá álit á því hvort slíkt mat geti legið til grundvallar afskrift kröfu samkvæmt 2. tölul. 5. mgr. 13. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, þegar að eftirfarandi upplýsingar koma fram í matinu:

  1. Upplýsingar um innheimtu kröfu hjá félaginu, sbr. framangreint, auk upplýsinga úr VOG um að skuldari sé með áritaðan dóm á sér.
  2. Upplýsingar um innheimtu kröfu hjá félaginu, sbr. framangreint, auk upplýsinga úr VOG um að beiðni um uppboð liggur fyrir.
  3. Upplýsingar um innheimtu kröfu hjá félaginu, sbr. framangreint, auk upplýsinga úr VOG um að gert hafi verið árangurslaust fjárnám hjá skuldara.
  4. Upplýsingar um innheimtu kröfu hjá félaginu, sbr. framangreint, auk upplýsinga úr VOG um að skuldari sé gjaldþrota.

Sé svar ríkisskattstjóra á þann veg að heimilt sé að afskrifa kröfur, samkvæmt 2. tölul. 5. mgr. 13. gr. laga nr. 50/1988, á grundvelli þeirra upplýsinga sem tíundaðar eru hér að ofan þá óskar félagið jafnframt eftir svari ríkisskattstjóra við því hvort einföldun á áður lýstu innheimtuferli myndi hafa þau áhrif að afskrift væri óheimil. Innheimtuferlinu yrði þá breytt á þann veg að annars vegar væri hverju bréfi fylgt eftir með því að reyna í tvígang að hafa samband við skuldara símleiðis og hins vegar væri skuldara ekki sent ábyrgðarbréf.

Til svars við erindi félagsins vill ríkisskattstjóri taka eftirfarandi fram:

Samkvæmt 2. tölul. 5. mgr. 13. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, er heimilt að draga frá við uppgjör á skattskyldri veltu fjárhæð sem nemur 80,32% af töpuðum útistandandi viðskiptaskuldum, enda hafi hin tapaða fjárhæð áður verið talin til skattskyldrar veltu. Leiðrétting vegna tapaðra viðskiptakrafna skal færast til frádráttar skattskyldri veltu og til lækkunar á útskatti.

Í athugasemdum við frumvarp það er varð að lögum nr. 50/1988 segir um framangreint ákvæði: "Það skal sérstaklega tekið fram vegna ákvæða 2. tölul. 5. mgr. að reglur laga um tekjuskatt og eignarskatt um það hvenær draga má tapaðar viðskiptaskuldir frá atvinnurekstrartekjum, sbr. 3. tölul. 31. gr. laga nr. 75/1981, skulu gilda varðandi heimild þá sem hér um ræðir."

Ákvæði 2. tölul. 5. mgr. 13. gr. laga nr. 50/1988 hefur þannig efnislega samtöðu með núgildandi ákvæði 3. tölul. 31. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt og eignarskatt. Samkvæmt því er heimilt að draga tap á útistandandi viðskiptakröfum, ábyrgðum og lánveitingum, sem beint tengjast rekstrinum, frá tekjum af atvinnurekstri á því tekjuári sem eignir þessar eru sannanlega tapaðar. Nánar er kveðið á um frádráttarheimildina í 14. gr. reglugerðar nr. 483/1994, um frádrátt frá tekjum af atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi. Samkvæmt ákvæðinu telst tap á kröfu sannanlegt í eftirfarandi tilvikum:

a. Ef krafan er fyrnd eða það sannast á fullnægjandi hátt að eignir séu eigi til fyrir henni eða hún verði eigi greidd, svo sem við gjaldþrot, nauðasamninga, árangurslaust fjárnám o.þ.h.

b. Ef telja má fullvíst að krafan fáist eigi greidd, enda þótt atvik þau sem um ræðir í a-lið séu eigi fyrir hendi. Líkur einar eru þó eigi nægar, heldur verða öll rök að liggja til þess að hún sé að fullu töpuð. Að það hafi sýnt sig við ítrekaðar innheimtutilraunir, þ.m.t. annarra kröfuhafa, að skuldari sé ófær til greiðslu, að hvorki fáist af kröfunni afborganir og vextir né veð fyrir henni og efnahagur skuldara og afkoma sé þannig að greiðslu verði ekki að vænta, enda sé eigi um gagnkröfu að ræða af hans hendi (b-liður 1. mgr.).

Það ber undir kröfuhafa að sanna með gögnum að krafa sé töpuð.

Á grundvelli a-liðar telst krafa töpuð ef hún annars vegar er fyrnd, sbr. lög nr. 14/1905, um fyrning skulda og annarra kröfuréttinda, og hins vegar ef tekin hefur verið afstaða til kröfunnar við gjaldþrotaskipti, gerð nauðasamnings, fjárnám o.þ.h., og ógjaldfærni skuldara staðfest í því sambandi. Ljóst er að í þeim tilvikum sem fyrirspurnin lýtur að er hvorki því fyrir að fara að krafa sé fyrnd né hafa, með þeim hætti sem tiltekinn er í a-lið, verið færðar sönnur á ógjaldfærni skuldara.

Séu skilyrði a-liðar ekki fyrir hendi getur krafa talist sannanlega töpuð ef atvik eru með þeim hætti sem b-liður mælir fyrir um. Þar kemur fram að öll rök verða að liggja til þess að krafa sé töpuð. Fyrst og fremst er um það að ræða að sýna fram á að skuldari sé ófær til greiðslu. Afskrift kröfu verður að vera studd gögnum, sem sýna sannarlega fram á ógjaldfærni skuldara, t.d. gögnum sem sýna að innheimtutilraunir annarra kröfuhafa hafi leitt til þess að fjárnám var gert hjá skuldara og því lauk sem árangurslausu. Meta verður það í hverju tilviki fyrir sig hvort skilyrðum b-liðar sé fullnægt þannig að telja megi kröfu afskrifaða, og skiptir ekki máli hver fjárhæð kröfunnar er. Rök, eins og þau að könnun á eignastöðu skuldara hafi sýnt að ekki væru miklar líkur á að krafan fengist greidd, fjárhæð kröfunnar væri lág og því þætti það ekki svara kostnaði að óska eftir fjárnámi hjá skuldara, eru ekki nægjanleg til þess að afskrifa megi kröfu á grundvelli b-liðar, sbr. úrskurð yfirskattanefndar nr. 619/1997. Til viðbótar þessu komst yfirskattanefnd að þeirri niðurstöðu, í úrskurði 614/1998, að ekki væri heimilt að afskrifa kröfu að lokinni almennri innheimtu, sem felur í sér bréfaskipti við skuldara, heimsóknir til hans og símhringingar, jafnvel þótt slík innheimta fari fram hjá þriðja aðila enda sýndi slík innheimta, ein og sér, ekki fram á að skuldari væri ófær til greiðslu.  Í sama úrskurði kom fram hjá nefndinni að það teldist ekki fullnægjandi sönnun fyrir því að krafa væri töpuð að kröfuhafi sýndi fram á lélega eigna- og skuldastöðu skuldara eða að ársreikningur skuldara bæru með sér erfiðleika í rekstri. Sé skuldari í fullum rekstri þá bendir það til þess að krafa sé ekki sannarlega töpuð, sbr. sama úrskurð. Í úrskurði nr. 619/1997 komst yfirskattanefnd að þeirri niðurstöðu að upplýsingar um að dómstóll hafi samþykkt kröfu á hendur skuldara sem aðfararhæfa teldust ekki nægilegar til sönnunar fyrir því að krafa væri að fullu töpuð. Jafnframt hefur nefndin talið að ekki sé heimilt að afskrifa kröfu á því uppgjörstímabili þegar uppboð er auglýst þrátt fyrir að í ljós komi að eignir skuldara séu yfirveðsettar, sbr. úrskurð nr. 619/1997.

Fullljóst er að innheimtuaðgerðir fyrirspyrjanda geta ekki verið grundvöllur afskriftar kröfu í skattskilum. Jafnframt er ljóst að hvorki aðfararhæfur dómur né beiðni um uppboð færa sönnur á ógjaldfærni skuldara. Hins vegar þykir almennt mega líta svo á að með árangurslausu fjárnámi, sem gert er að kröfu þriðja manns, séu komnar fram forsendur til afskriftar kröfu enda hafi ekki fengist veð eða önnur trygging fyrir kröfunni. Vart verður afskrift byggð á árangurslausu fjárnámi, sem gert hefur verið fyrir meira en þremur mánuðum síðan, nema fjárnáminu hafi verið fylgt eftir með því að krefjast gjaldþrotaskipta á búi skuldarans á grundvelli þess, sbr. 1. tölul. 2. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl. Það að bú skuldara hafi verið tekið til gjaldþrotaskipta er eitt sér ekki næg forsenda afskriftar kröfu í skattskilum. Ef kröfulýsingarfrestur vegna skiptanna er liðinn án þess að kröfu hafi verið lýst í búið þykir hins vegar mega afskrifa kröfuna, enda sé ljóst að ekki kemur til fullnustu hennar við skiptin, hvorki að fullu né að hluta. Það skal tekið fram að ekki er eingöngu hægt að byggja afskrift kröfu á því að skuldari er gjaldþrota ef til kröfunnar var stofnað eftir að bú skuldara var tekið til gjaldþrotaskipta, þannig að ekki hefur stofnast réttur á hendur búinu.

Ríkisskattstjóri

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum