Óbeinir skattar

Ákvarðandi bréf nr. 1046/2004

7.1.2004

Breytingar á lögum og stjórnvaldsfyrirmælum

7. janúar 2004
G-Ákv. 04-1046

Í bréfi þessu eru raktar þær breytingar sem gerðar hafa verið á lögum og stjórnvaldsfyrirmælum á sviði virðisaukaskatts, vörugjalds, úrvinnslugjalds og skilagjalds frá 3. október 2002, þ.e. frá síðasta yfirlitsbréfi ríkisskattstjóra, G-ákv 1019/02. Einnig eru kynntar í bréfi þessu breytingar á nokkrum eyðublöðum.

1. Virðisaukaskattur

Lagabreytingar

Nr.
77/2003

Breyting á lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt. Með lögunum eru annars vegar gerðar þær breytingar að hafnir sveitarfélaga með hafnarstjórn eru gerðar virðisaukaskattsskyldar. Sjá nánar leiðbeiningar ríkisskattstjóra um virðisaukaskatt af rekstri hafna sem birtar eru á vef ríkisskattstjóra, rsk.is. Með lögunum nr. 77/2003 voru hins vegar gerðar þær breytingar að heimild til endurgreiðslu virðisaukaskatts samkvæmt ákvæði til bráðabirgða með lögum nr. 57/2001 er framlengd til 31. desember 2005.
Nr. 145/2003 Breyting á lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt. Breytingin felst í því að virðisaukaskattur af sölu hljóðbóka verður 14% í stað 24,5%, þ.e. sala á hljóðupptökum af lestri þeirra bóka sem falla undir ákvæði 6. tölul. 2. mgr. 14. gr. laga nr. 50/1988 ber 14% virðisaukaskatt.

Reglugerðarbreytingar

Nr. 287/2003 Breytingar á reglugerð nr. 248/1990, um virðisaukaskatt af skattskyldri starfsemi opinberra aðila. Breytingar varða skilgreiningu á samkeppnishugtaki reglugerðarinnar annars vegar og upptalningu á þeirri sérfræðiþjónustu sem endurgreitt er vegna hins vegar.
Nr. 298/2003 Breytingar á reglugerð nr. 562/1989, um virðisaukaskatt af eigin þjónustu og úttekt til eigin nota innan óskattskyldra fyrirtækja og stofnana. Breytingar varða skilgreiningu á samkeppnishugtaki reglugerðarinnar annars vegar og upptalningu á þeirri sérfræðiþjónustu sem endurgreitt er vegna hins vegar.
Nr. 438/2003 Breytingar á reglugerð nr. 248/1990, um virðisaukaskatt af skattskyldri starfsemi opinberra aðila. Breyting á skattskyldu hafnarsjóða. Breytingarnar eru gerðar til samræmis við breytingu á lögum nr. 50/1988 með lögum nr. 77/2003 og gildistöku nýrra hafnarlaga nr. 61/2003.
Nr. 786/2003 Breytingar á reglugerð nr. 63/1994, um frjálsa skráningu vegna fólksflutninga á milli landa. Breyting á skilgreiningu þeirra aðila sem sótt geta um skráningu samkvæmt ákvæðum reglugerðarinnar.
Nr. 868/2003 Breytingar á reglugerð nr. 540/2001, um tímabundna endurgreiðslu 2/3 hluta virðisaukaskatts vegna kaupa eða leigu hópbifreiða. Breytingar til samræmis við þá breytingu sem gerð var á ákvæði til bráðabirgða með lögum nr. 50/1988 með lögum nr. 77/2003, þar sem heimild til endurgreiðslu er framlengd til 31. desember 2005.

Grunnfjárhæðir
Sjá ákvarðandi bréf nr. 1045/03 vegna ársins 2004.

Eyðublöð
Eyðublöðin RSK 10.22 (tilkynning um virðisaukaskattsskylda starfsemi) og RSK 10.35 (beiðni um endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna sölu veitingastaða á tilreiddum mat) voru gerð útfyllanleg á vef ríkisskattstjóra, rsk.is. Ekki er þó um rafræn skil á eyðublöðunum að ræða heldur verður að prenta þau út og skila þeim í pappírsformi. Þess skal og getið að síðarnefnda eyðublaðið er með innbyggðri reiknivél.

2. Vörugjald

Lagabreytingar

Nr. 169/2002 Auglýsing nr. 169/2002, um breyting á viðauka I við tollalög nr. 55/1987, með síðari breytingum, hefur áhrif á tollskrárnúmer í C hluta viðauka I við lög nr. 97/1987, um vörugjald.
Nr. 150/2003 Auglýsing nr. 150/2003, um breyting á viðauka I við tollalög nr. 55/1987, með síðari breytingum, hefur áhrif á tollskrárnúmer í A, C og E hluta viðauka I við lög nr. 97/1987, um vörugjald.

3. Úrvinnslugjald

Lagabreytingar

Nr. 162/2002 Ný lög um úrvinnslugjald.
Nr. 8/2003 Breyting á lögum nr. 162/2002, um úrvinnslugjald. Breytingarnar felast í því að gildistöku stofnlaganna er frestað að hluta auk þess sem að breytingar eru gerðar á viðauka.
Nr. 144/2003 Breyting á lögum nr. 162/2002, um úrvinnslugjald. Breytingar á gjaldatímabili þeirra bifreiða sem undanþegnar eru bifreiðagjaldi. Einnig eru gerðar breytingar á tollskrárnúmerum og fjárhæðum í viðaukum við lögin o.fl. Nánari upplýsingar um þær breytingar sem hafa áhrif á málningarvöru- og leysiefnaframleiðslu má finna í orðsendingu ríkisskattstjóra nr. 1/2003.

Reglugerðarbreytingar

Nr. 227/2003 Ný reglugerð um úrvinnslugjald. Hún var síðar felld úr gildi með reglugerð nr. 501/2003.
Nr. 501/2003 Ný reglugerð um úrvinnslugjald.

Eyðublöð
Tvö eyðublöð voru tekin í notkun vegna úrvinnslugjalds, þ.e. annars vegar RSK 10.80 (tilkynning um úrvinnslugjaldsskylda starfsemi) og hins vegar RSK 10.81 (úrvinnslugjaldsskýrsla). Skýrslan er útfyllanleg á vef ríkisskattstjóra og er hún jafnframt með innbyggðri reiknivél. Ekki er þó hægt að skila skýrslunni rafrænt heldur verður að prenta hana út og skila henni í pappírsformi.

4. Skilagjald

Lagabreytingar

Nr. 20/2003 Breyting á lögum nr. 52/1989, um ráðstafanir gegn umhverfismengun af völdum einnota umbúða fyrir drykkjarvörur. Breytingar á fjárhæðum.    

Reglugerðarbreytingar

Nr. 437/2003 Breytingar á reglugerð nr. 368/2000, um söfnun, endurvinnslu og skilagjald á einnota umbúðir fyrir drykkjarvörur. Breytingar varða fyrirkomulag á innheimtu gjaldsins.     

Eyðublöð
Skilagjaldsskýrsla, RSK 10.48, var gerð útfyllanleg á vef ríkisskattstjóra og er hún jafnframt með innbyggðri reiknivél. Hún er ekki lengur send árituð til gjaldenda. Ekki er hægt að skila skýrslunni rafrænt heldur verður að prenta hana út og skila henni í pappírsformi.

Ríkisskattstjóri

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum