Óbeinir skattar

Ákvarðandi bréf nr. 1034/2003

27.5.2003

Virðisaukaskattur - sérfræðiþjónusta - endurgreiðsluréttur opinberra aðila.

27. maí 2003
G-Ákv. 03-1034

Í bréfi fyrirtækisins er barst ríkisskattstjóra með tölvupósti þann 14. apríl sl. er óskað leiðsagnar ríkisskattstjóra varðandi það hvernig fyrirtækinu beri að haga tilgreiningu seldrar þjónustu á sölureikningum, með tilliti til þess að opinberir aðilar í hópi viðskiptavina þess geti á grundvelli reikninganna sótt um endurgreiðslu virðisaukaskatts af sérfræðiþjónustu. Jafnframt er óskað leiðsagnar varðandi það hvernig haga beri sundurgreiningu hins selda í bókhaldi fyrirtækisins. Í bréfinu og fylgigögnum þess er all ítarleg lýsing á starfsemi fyrirtækisins sem felst í sölu á tölvubúnaði og þjónustu er lýtur að rekstri og ráðgjöf í tengslum við upplýsingakerfi viðskiptavina.

Samkvæmt 3. mgr. 42. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt (vsk-laga), og 12. gr. reglugerðar nr. 248/1990, um virðisaukaskatt af skattskyldri starfsemi opinberra aðila, skal endurgreiða ríki, sveitarfélögum og stofnunum þeirra virðisaukaskatt sem þau hafa greitt við kaup tiltekinnar þjónustu. Meðal þeirrar þjónustu sem endurgreiðslurétturinn tekur til er sérfræðiþjónusta sem svo er afmörkuð í framangreindu reglugerðarákvæði:
"Þjónusta verkfræðinga, tæknifræðinga, arkitekta, lögfræðinga, löggiltra endurskoðenda, tölvunarfræðinga og annarra sérfræðinga er almennt þjóna atvinnulífinu og lokið hafa háskólanámi eða sambærilegu langskólanámi eða starfa sannanlega á sviði fyrrgreindra aðila og veita sambærilega þjónustu."
Orðalag ákvæðisins er í ljósi þróunar þess skýrt svo að endurgreiðslurétturinn taki almennt til virðisaukaskatts af þeim toga sem sérfræðingar, er lokið hafa háskólanámi eða sambærilegu langskólanámi, veita á grundvelli menntunar sinnar, hvort heldur sá er þjónustuna innir af hendi hefur aflað sér þekkingar með skólanámi eða með öðrum hætti, en taki hins vegar ekki til þjónustu sem sérfræðingarnir veita á sviðum er falla utan menntunar þeirra.

Við skýringu ákvæðisins þarf að hafa í huga yfirlýstan tilgang með því, sem er að virðisaukaskattur raski ekki samkeppnisstöðu atvinnufyrirtækja sem eiga í viðskiptum við opinbera aðila sem geta þjónustað sig sjálfir. Endurgreiðsluréttur opinberra aðila er nátengdur skyldu sömu aðila til að skila virðisaukaskatti af vörum sem þeir framleiða til eigin nota og af þjónustu sem þeir inna af hendi í eigin þágu. Hvort tveggja byggir á samkeppnissjónarmiðum. Greiðsluskylda og endurgreiðsluréttur eftir því sem við á ræðst þannig af því hvort eigin þjónusta þessara aðila á viðkomandi sviði telst vera í samkeppni við þjónustu atvinnufyrirtækja. Í 2. mgr. 6. gr. umræddrar reglugerðar er tiltekið:
"Almennt skrifstofuhald, þ.m.t. færsla eigin bókhalds og rafræn gagnavinnsla í eigin þágu, telst ekki vera í samkeppni við atvinnufyrirtæki."

Endurgreiðslukræf sérfræðiþjónusta tölvunarfræðinga tekur til hugbúnaðargerðar og þá allra fjögurra þátta hennar, þ.e. beitingu vísindalegra aðferða við;

  • greiningu, svo sem þarfagreiningu, kerfisgreiningu, áhættugreiningu og greiningu reiknirita,
  • hönnun, svo sem kerfishönnun, viðmótshönnun og gagnaskipan (hönnun gagnalíkana og safnkerfa),
  • forritun, þ.e. beitingu forritunarmáls,
  • prófun forrita.

Sérfræðiþjónustan tekur jafnt til nýsmíði og viðhalds hugbúnaðar, þ.m.t. staðfærslu staðlaðs hugbúnaðar að þörfum notenda. Þá teljast til sérfræðiþjónustu öryggisúttektir á tölvukerfum sem beinast að uppbyggingu hugbúnaðarins sjálfs, en ekki að því hvernig hann virkar.

Til skattskyldrar eða endurgreiðslukræfrar þjónustu telst hins vegar ekki skráning og önnur innfærsla upplýsinga í tölvukerfi, vinnslur sem í kerfunum fara fram sem liður í reglubundinni starfsemi fyrirtækis eða stofnunar, afritun og gagnageymsla, svo og notendaaðstoð af þeim toga sem almennt er og venjulegt að fari fram í fyrirtækjum og stofnunum sem liður í þeirra starfsemi. Sama á við um daglegan rekstur stoðkerfa, svo sem stýrikerfa, gagnagrunna, öryggiskerfa, skrifstofukerfa og verkbókhalds. Ennfremur uppsetningu búnaðar, þ.m.t. uppsetningu net-, skráa-, vef-, prent- og gagnagrunnsþjóna. Innri þjónusta af þessum toga telst ekki vera í samkeppni við þjónustu sem atvinnufyrirtæki veita í þeim skilningi sem þykir bera að leggja í hugtakið samkeppni í þessu sambandi.

Eins og þjónustu fyrirspyrjanda er lýst í fyrirspurnarbréfi og fylgigögnum þess virðast ekki aðrir þættir hennar endurgreiðslukræfir í hendi opinberra aðila en hugbúnaðarþróun, þ.e. staðfærsla hugbúnaðar að umhverfi viðskiptavina og þróun sérsniðinna hugbúnaðarlausna, og öryggisúttektir er beinast að uppbyggingu hugbúnaðar.

Opinber aðili sem æskir endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna kaupa á sérfræðiþjónustu skal byggja beiðni sína á fullnægjandi sölureikningum frá seljanda þjónustunnar. Reikningarnir þurfa að uppfylla bæði efnis og formskilyrði 20. gr. vsk-laga og 4. gr. reglugerðar nr. 50/1993, um bókhald og tekjuskráningu virðisaukaskattsskyldra aðila, þ.m.t. varðandi tilgreiningu hins selda. Því aðeins er reikningur tækur grundvöllur fyrir endurgreiðslu að þjónusta sem endurgreiðsluréttur nær til sé aðgreind frá annarri sölu.

Samkvæmt 18. gr. vsk-laga og 23. gr. reglugerðar nr. 50/1993 skulu þeir sem virðisaukaskattsskyldir eru, aðgreina í bókhaldi sínu tekjur og gjöld eftir skatthlutföllum, svo og eftir því hvort um virðisaukaskattsskyldar tekjur er að ræða eða ekki, og eftir því hvort innskattsréttur fylgir kaupum aðfanga eða ekki. Enginn áskilnaður er hins vegar um að seljandi sérfræðiþjónustu, sem getur orðið tilefni endurgreiðslu til opinberra aðila, haldi slíkri sölu aðgreindri frá annarri sölu í bókhaldi sínu.

Ríkisskattstjóri

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum