Óbeinir skattar

Ákvarðandi bréf nr. 1031/2003

19.3.2003

Virðisaukaskattur - sorphreinsun sveitarfélags.

19. mars 2003
G-Ákv. 03-1031

Ríkisskattstjóri móttók þann 18. janúar 2002 bréf yðar þar sem þér óskið álits hans á því hvort sveitarfélagi, umbjóðanda yðar, beri að innheimta virðisaukaskatt af sorphirðugjaldi sem það krefur atvinnufyrirtæki í sveitarfélaginu um.  Fram kemur að sveitarfélagið stendur fyrir sorphirðu í umdæmi sínu og hefur fengið til verksins lægstbjóðanda í útboði.  Fyrir sorphirðuna geri sveitarfélagið fyrirtækjum og stofnunum  reikning með virðisaukaskatti  samkvæmt gjaldskrá settri á grundvelli laga 7/1998, um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit.  Tilefni fyrirspurnarinnar sé að nokkrir greiðendur hafi dregið í efa réttmæti þeirrar skattheimtu.

Til svars fyrirspurninni tekur ríkisskattstjóri fram eftirfarandi:

Samkvæmt 4. tölul. 1. mgr. 3. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt (vsk-laga), hvílir skylda til að innheimta virðisaukaskatt og skila honum í ríkissjóð á sveitarfélögum, fyrirtækjum þeirra og stofnunum, að því leyti sem þau selja vörur eða skattskylda þjónustu í samkeppni við atvinnufyrirtæki.  Í 6. gr. reglugerðar nr. 248/1990, um virðisaukaskatt af skattskyldri starfsemi opinberra aðila, er skilgreint hvenær starfsemi sveitarfélaga, fyrirtækja þeirra og stofnana, telst vera í samkeppni við atvinnufyrirtæki.  Samkvæmt fyrri málsgrein greinarinnar telst starfsemi vera í samkeppni við atvinnufyrirtæki þegar viðkomandi vara eða þjónusta er almennt í boði hjá atvinnufyrirtækjum hér á landi, enda sé útskattur af hinni skattskyldu starfsemi að jafnaði hærri en frádráttarbær innskattur.  Samkvæmt síðari málsgrein greinarinnar telst lögbundin starfsemi sveitarfélaga, fyrirtækja þeirra og stofnana, ekki vera í samkeppni þegar annað tveggja á við, að öðrum er ekki heimilt að veita sambærilega þjónustu með sömu réttaráhrifum, eða þjónustan beinist eingöngu að öðrum opinberum aðilum, hún verður ekki veitt af atvinnufyrirtækjum nema í umboði viðkomandi opinbers aðila og að því tilskyldu að virðisaukaskattur af viðkomandi vinnu og þjónustu fáist endurgreiddur skv. 12. gr. reglugerðarinnar.

Fyrir liggur að ýmis atvinnufyrirtæki bjóða fram þá þjónustu sína að sækja sorp (úrgang) og flytja á brott.  Sorphirða hjá rekstraraðilum (fyrirtækjum og stofnunum) er ekki lögboðin starfsemi sveitarfélaga, enda hvílir skylda í þeim efnum á rekstraraðilunum sjálfum, skv. 10. gr. reglugerðar nr. 805/1999, um úrgang. Samkeppni við atvinnufyrirtæki telst því vera til staðar í skilningi reglugerðar nr. 248/1990.

Skilyrðið í umræddri 1. mgr. 6. gr. reglugerðar nr. 248/1990 þess efnis að útskattur skuli að jafnaði vera hærri en frádráttarbær innskattur, endurómar ákvæði 5. mgr. 5. gr. vsk-laga.  Þar er kveðið á um að ekki skuli skrá aðila á grunnskrá virðisaukaskatts ef samanlagðar tekjur hans af sölu skattskyldrar vöru og þjónustu eru að jafnaði lægri en kostnaður við aðföng sem keypt eru með virðisaukaskatti til starfseminnar, þar með talið vegna kaupa varanlegra rekstrarfjármuna.  Ekki verður hér lagt mat á það hvort skilyrði þetta er uppfyllt að því er varðar sölu umbjóðanda yðar á sorphirðu til rekstraraðila, enda er slíkt mat falið skattstjóra í nefndri 5. gr. vsk-laga.  Þá má af þeirri staðhæfingu í fyrirspurn, að umbjóðandi yðar innheimti virðisaukaskatt af umræddri þjónustu, ætla að skattstjóri hafi tekið afstöðu til þess.  Bréf yðar verður ekki skilið svo að í því felist ósk um að ríkisskattstjóri breyti hugsanlegri ákvörðun skattstjóra um skráningu.

Ríkisskattstjóri

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum