Óbeinir skattar

Ákvarðandi bréf nr. 1029/2003

12.3.2003

Endurgreiðsla virðisaukaskatts til sveitarfélaga vegna holræsahreinsunar

12. mars 2003
G-Ákv. 03-1029

Í bréfi dagsettu 26. apríl 2002 er þess farið á leit við ríkisskattstjóra að hann láti í ljós álit sitt á því hvort endurgreiða skuli sveitarfélögum virðisaukaskatt af vinnu við hreinsun holræsa.  Frá því er greint að við hreinsun holræsa séu notuð sérhæfð tæki (dælu- og hreinsibílar) sem rekin séu á vegum sérstakra fyrirtækja er selja sveitarfélögum þjónustu sína.  Nauðsynlegt sé að hreinsa holræsi og frárennsli með jöfnu millibili því ella sé víst að þau fyllist og stíflist.  Þá er spurt hve langt aftur í tímann virðisaukaskatturinn sé endurgreiddur, skuli hann endurgreiddur.

Fyrirspurn þessi á sér þá forsögu að fyrirspyrjandi bar sama álitaefni undir ríkisskattstjóra í síma og í tölvuskeyti í október árið 2001.  Svaraði ríkisskattstjóri þeim fyrirspurnum í tölvuskeytum.  Eftirfarandi svar er efnislega samhljóða þeim svörum.  Beðist er velvirðingar á því hve lengi hefur dregist að svara fyrirspurninni.

Kveðið er á um endurgreiðslur virðisaukaskatts til sveitarfélaga og annarra opinberra aðila í 3. mgr. 42. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt (vsk-laga), og í III. kafla reglugerðar nr. 248/1990, um virðisaukaskatt af skattskyldri starfsemi opinberra aðila. Í 1. tölul. 3. mgr. 42. gr. laganna er tiltekið að endurgreiða skuli ríki, sveitarfélögum og stofnunum þeirra virðisaukaskatt sem þau hafa greitt við kaup á sorphreinsun, þ.e. söfnun, flutningi, urðun og eyðingu sorps og annars úrgangs, þ.m.t. brotamálma.  Við skýringar á hugtökunum sorp og annar úrgangur hefur í skattframkvæmd verið horft til skilgreininga í lögum nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir, og reglugerðum settra á grundvelli þeirra laga.

Af lýsingu í fyrirspurnarbréfi á hreinsun holræsa má ljóst vera að hún felst í því að fjarlægð eru föst efni sem safnast saman í holræsum. Slík föst efni falla undir hugtakið úrgang í þessu sambandi.  Holræsahreinsunin telst því til sorphreinsunar í skilningi 1. tölul. 3. mgr. 42. gr. vsk-laga.  Samkvæmt því skal endurgreiða sveitarfélögum virðisaukaskatt af aðkeyptri þjónustu atvinnufyrirtækja við títtnefnda hreinsun holræsa, að því gefnu að uppfyllt séu formskilyrði 14. gr. reglugerðar nr. 248/1990 varðandi umsóknir og grundvöll þeirra.

Samkvæmt 5. mgr. 14. gr. reglugerðarinnar nr. 248/1990 fellur réttur til endurgreiðslu niður ef umsókn berst viðkomandi skattstjóra eftir að sex ár eru liðin frá því að réttur til endurgreiðslu stofnaðist.

Ríkisskattstjóri

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum