Óbeinir skattar

Ákvarðandi bréf nr. 1026/2003

21.2.2003

Virðisaukaskattur - skólamötuneyti - verslunarrekstur.

21. febrúar 2003
G-Ákv. 03-1026

Í bréfi skólans dagsettu 12. febrúar 2003 er gerð grein fyrir því að skólinn reki verslun (sjoppu), sem selji nemendum samlokur og brauð er starfsmenn skólans smyrja með aðstoð nemenda.  Jafnframt séu seldir drykkir og sælgæti.  Ennfremur matur sem keyptur sé af flatbökueldhúsum eða öðrum slíkum matsölum.  Með versluninni sé leitast við að koma til móts við næringarþörf nemenda.  Álagningu sé stillt í hóf og hagnaði varið til kaupa á húsgögnum í vistarverur nemenda.

Fram kemur að stjórnendur skólans líti svo á að starfsemin sé undanþegin virðisaukaskatti skv. 4. tölul. 4. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, er kveður á um undanþágu skólamötuneyta.  Leitað er álits ríkisskattstjóra þar á.

Til svars fyrirspurninni skal eftirfarandi tekið fram.

Samkvæmt 4. tölul. 4. gr. laga nr. 50/1988 eru skólamötuneyti undanþegin virðisaukaskatti.  Í því felst að ekki ber að innheimta virðisaukaskatt við sölu fæðis til skólanemenda, enda eigi salan sér stað innan vébanda skólans og sem liður í starfi hans.  Skiptir ekki máli í því sambandi hvort skólinn sjálfur er seljandi fæðisins eða sjálfstætt starfandi fyrirtæki á grundvelli samnings við skólann.  Undanþágan tekur hins vegar ekki til aðfanga til rekstrarins.  Undanþágan veitir þannig mötuneytinu hvorki heimild til að kaupa hráefni og önnur aðföng án greiðslu virðisaukaskatts, né veitir hún mötuneytinu rétt á að fá virðisaukaskatt af aðföngum endurgreiddan úr ríkissjóði.

Undanþágan tekur aðeins til rekstrar mötuneytis en ekki til verslunarrekstrar og það eins þótt skólanemendur séu einu viðskiptavinir verslunar.  Með rekstri mötuneytis er átt við framreiðslu tilreiddrar matvöru.  Skil milli mötuneytis og verslunar með matvöru felast því í þeim þjónustuþáttum, að útbúa mat og skapa aðstöðu til að neyta hans.  Þjónustuþætti þessa þykir verða að meta saman á þann veg, að því ríkari sem annar hvor þáttanna er því minni kröfur þykir bera að gera varðandi hinn þáttinn.

Ekki kemur fram í fyrirspurninni hve ríkur sá þáttur í starfseminni er að skapa aðstöðu fyrir nemendur til að matast.  Af þeirri fullyrðingu að hagnaði af starfseminni sé varið til kaupa á húsgögnum í vistarverur nemenda má þó ráða að einhver slík aðstaða sé til staðar. Hins vegar kemur fram að starfsmenn skólans, með aðstoð nemenda, smyrja samlokur og annað brauð.  Verður af því ráðið að fram fari tilreiðsla af þeim toga sem hér um ræðir.  Þegar af þeirri ástæðu þykir ekki varhugavert að telja sölu skólans á smurðu brauði, þ.m.t. samlokum, til rekstrar mötuneytis í umræddum skilningi.  Þá þykir á grundvelli framangreindra sjónarmiða ekki varhugavert að telja sölu á flatbökum og öðrum aðkeyptum tilreiddum mat til rekstrar mötuneytis.

Að því er varðar sölu skólans á sælgæti og drykkjum er til þess að líta að sælgæti, og væntanlega margir hverjir drykkjanna, teljast ekki til matvara samkvæmt þeirri afmörkun matvöru sem er að finna í ákvæði 8. tölul. 2. mgr. 14. gr. og í viðauka laganna nr. 50/1988 um virðisaukaskatt, með síðari breytingum.  Sölu þess varnings, sem þannig telst ekki til matvöru, verður fremur að telja til verslunarrekstrar en rekstrar mötuneytis.  Umrædd undanþága getur því ekki tekið til þeirrar sölu.  Sölu þeirra drykkja, sem teljast til matvöru samkvæmt nefndri afmörkun, þykir hins vegar mega telja til mötuneytisrekstrarins, jafnvel þótt tilreiðsluþáttur af hálfu skólans sé enginn, enda verður almennt að telja að slíkir drykkir heyri til málsverðum sem fram eru reiddir í mötuneytum.

Ríkisskattstjóri

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum