Óbeinir skattar

Ákvarðandi bréf nr. 1024/2003

5.2.2003

Virðisaukaskattur - höfundaréttargreiðslur vegna afsteypu af listaverki.

5. febrúar 2003
G-Ákv. 03-1024

Ríkisskattstjóri hefur móttekið fyrirspurn yðar, dags. 4. apríl 2001, þar sem óskað er eftir áliti ríkisskattstjóra á því hvort höfundaréttargreiðslur til listasafns vegna stækkunar og afsteypu listaverks, falli undir undanþáguákvæði 2. tölul. 4. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt. Í fyrirspurninni kemur fram að forráðamenn listasafns ætla að veita sveitarfélagi einu heimild til þess að láta stækka og gera eina afsteypu í brons af myndastyttu tiltekins listamanns. Afsteypan verður gerð hjá viðurkenndu steypuverkstæði í Bretlandi. Sveitarfélagið kostar gerð hennar og greiðir til safnsins, ákveðinn hundraðshluta þess kostnaðar, sem greiðslu fyrir hugverkið.

Til svars við fyrirspurn yðar skal eftirfarandi tekið fram:

Skattskyldusvið virðisaukaskatts er skilgreint mjög víðtækt í 2. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt. Nær skattskyldan til allra vara og verðmæta, nýrra og notaðra, og til allrar vinnu og þjónustu sem ekki er sérstaklega undanþegin í 3. mgr. lagagreinarinnar. Vöruhugtakið tekur til hvers konar efnislegra verðmæta. Myndastyttur eru samkvæmt þessu skattskyld vara (skattandlag) í skilningi virðisaukaskattslaga.

Aðeins þeir aðilar sem skattskyldir eru samkvæmt lögum nr. 50/1988 skulu innheimta og skila virðisaukaskatti af viðskiptum. Í 3. og 4. gr. laganna kemur fram hverjir eru skattskyldir aðilar og hverjir eru undanþegnir skattskyldu. Meginreglan er sú að skattskylda er bundin við þá sem stunda atvinnurekstur eða hafa með höndum sjálfstæða atvinnustarfsemi, enda nemi samtals sala þeirra á skattskyldri vöru og þjónustu kr. 220.000 á tólf mánaða tímabili. Sérákvæði gildir um listamenn, sbr. 2. tölul. 4. gr. laga nr. 50/1988. Samkvæmt ákvæðinu eru listamenn undanþegnir skattskyldu að því er varðar sölu þeirra á eigin listaverkum sem falla undir tollskrárnúmer 9701.1000 til 9703.0000. Ákvæði 2. tölul. 4. gr. laga nr. 50/1988 tekur aðeins til vörusölu og af þeim sökum falla höfundaréttargreiðslur ekki undir ákvæðið.

Samkvæmt 2. gr. virðisaukaskattslaga er meginreglan sú að sala eða afhending á réttindum (óefnislegum verðmætum) er skattskyld, sbr. framangreint. Greiðslur vegna framsals á höfundarétti, t.a.m. rétti til birtingar, eru því almennt virðisaukaskattsskyldar. Frá því er að finna undanþágu í 12. tölul. 3. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988. Þar segir að starfsemi rithöfunda og tónskálda við samningu hugverka og sambærileg liststarfsemi sé undanþegin virðisaukaskatti. Samkvæmt ákvæðinu er sala rithöfundar á útgáfurétti ritverks undanþegin. Sama gildir um sölu tónskálds á útgáfurétti eða flutningsrétti tónverks. Í báðum þessum tilvikum er um að ræða framsal á tilteknum þáttum höfundaréttar. Við mat á því hvað teljist sambærileg liststarfsemi hefur verið litið svo á að ákvæðið taki einnig til framsals höfundar á tilteknum þáttum höfundaréttar þeirra listaverka sem eru undanþegin skattskyldu, sbr. 2. tölul. 4. gr. virðisaukaskattslaga. Framsal höfundar á tilteknum þáttum höfundaréttar vegna annarra listaverka en ritverka, tónverka og þeirra myndverka sem falla undir 2. tölul. 4. gr. er því skattskylt. Undanþáguákvæði umrædds 12. tölul. 3. mgr. 2. gr. tekur aðeins til gjalds er rennur til höfundar sjálfs, en ekki til annarra er kunna að eiga slík réttindi yfir listaverki sem um ræðir.

Með vísan til framangreinds er það álit ríkisskattstjóra að greiðslur sem listasafnið fær fyrir heimild til gerðar afsteypu af listaverki verði hvorki felldar undir ákvæði 2. tölul. 4. gr. né 12. tölul. 3. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt.

Beðist er velvirðingar á þeim óhæfilega drætti sem orðið hefur á að svara fyrirspurn þessari.

Ríkisskattstjóri

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum