Óbeinir skattar

Ákvarðandi bréf nr. 999/2001

28.12.2001

Virðisaukaskattur - fyrirsvar fyrir erlent fyrirtæki - reikningaútgáfa

28. desember 2001
G-Ákv. 01-999

Ríkisskattstjóra bárust í tölvupósti dagana 30. september og 8. desember 2000 fyrirspurnir frá yður varðandi útgáfu sölureikninga vegna tölvuútleigu erlends fyrirtækis á Íslandi. Um virðisaukaskattsskyldu starfseminnar er að finna umfjöllun í bréfum embættisins frá 14. janúar 2000 (tilv. G-alm. 1/00 sbr. G-ákv. 932/00). Fyrirspurnirnar berið þér fram sem fyrirsvarsmaður hins erlenda fyrirtækis hér á landi, sbr. 6. tölul. 1. mgr. 3. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt. Svör voru veitt við fyrri fyrirspurninni í tölvupósti 3. október 2000 (tilv. Net 18/00) en hér á eftir þykir þó rétt að svara báðum fyrirspurnunum í samhengi. 

I.

Meginreglan um skattskyldu skv. lögum nr. 50/1988 er sú að hún hvílir á þeim sem í atvinnuskyni eða með sjálfstæðri starfsemi sinni selja eða afhenda vörur eða verðmæti ellegar inna af hendi skattskylda vinnu eða þjónustu, sbr. 1. tölul. 1. mgr. 3. gr. Skattskyldan nær jafnt til innlendra sem erlendra aðila, sem hér á landi reka skattskyld viðskipti, þ.e. selja hér skattskylda vöru eða þjónustu. Hafi erlendis búsettur aðili, sem rekur hér á landi skattskyld viðskipti, ekki fasta starfsstöð hérlendis ber að tilkynna umboðsmann/fyrirsvarsmann, með heimilisfesti hér á landi, til skráningar fyrir hans hönd, sbr. 6. tölul. 1. mgr. 3. gr. og 5. gr. laganna. Ábyrgð á skattgreiðslum er solidarísk.

Skráning fyrirsvarsmanns sem slíks, á grunnskrá virðisaukaskatts, er óháð og aðskilin skráningu hans vegna eigin starfsemi sem hann kann að stunda. Í samræmi við þetta skulu virðisaukaskattsskil umboðsmanns f.h. erlends aðila fara fram á sérstöku virðisaukaskattsnúmeri umboðsmannsins. Virðisaukaskattur af starfsemi erlenda aðilans hér á landi skal þannig gerður upp sérstaklega óháð uppgjöri fyrirsvarsmannsins vegna sinnar starfsemi. Að sjálfsögðu ber að halda starfsemi erlenda aðilans aðgreindri frá eigin starfsemi umboðsmannsins að því er varðar útgáfu sölureikninga og bókhald að öðru leyti.

Umrædd starfsemi lýtur að öllu leyti ákvæðum íslenskra laga og reglugerða um virðisaukaskatt, þ.m.t. ákvæðum varðandi form- og efniskröfur til sölureikninga í 20. gr. laga nr. 50/1988 og II. kafla reglugerðar nr. 50/1993, um bókhald og tekjuskráningu virðisaukaskattsskyldra aðila.

Meðal krafna sem gerðar eru til sölureikninga er sú krafa að reikningseyðublöð skulu vera fyrirfram tölusett í samfelldri töluröð. Eðli málsins samkvæmt tekur krafan um samfellda tölusetningu reikninga aðeins til reikninga vegna þeirra viðskipta hins erlenda aðila sem íslensk lög ná yfir, þ.e. viðskipta hans hér á landi. Reikningseyðublöð vegna þeirra viðskipta þurfa því að bera fyrirfram áprentaða samfellda töluröð, óháð tölusetningu reikninga vegna viðskipta er falla utan lögsögu Íslands.

Almenn krafa til reikninga er, skv. 4. gr. reglugerðar nr. 50/1993, sú að við útgáfu skal reikningur bera nafn, kennitölu og skráningarnúmer (VSK-númer) seljanda. Í tilvikum af þeim toga sem hér um ræðir þykir verða að skýra ákvæðið svo í samræmi við tilgang þess, að auk nafns, kennitölu og skráningarnúmers fyrirsvarsmanns skuli greina nafn hins erlenda aðila (seljanda). Á reikningi skal fjárhæð virðisaukaskatts koma fram annað hvort með beinni tilgreiningu eða sem hlutfall af heildarverði eftir því sem nánar greinir í 5. tölul. 2. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 50/1993.

Í tilvikum af þeim toga sem hér um ræðir er það tíðast svo að umboðsmaðurinn gefur út sölureikninga f.h. erlenda aðilans vegna hinna skattskyldu viðskipta á Íslandi. Í sumum tilvikum, eins og tilviki yðar, sér erlenda fyrirtækið þó um reikningsútgáfu og eru reikningar þá oft í erlendri mynt.

Íslenskur virðisaukaskattur ákvarðast í gjaldmiðli Íslands og það eins þótt hin skattskyldu viðskipti miðist við annan gjaldmiðil.  Virðisaukaskattur skal því að jafnaði tilgreindur í íslenskum krónum á reikningi. Miðist viðskipti við annan gjaldmiðil og sé virðisaukaskattur tilgreindur í þeim gjaldmiðli, þykir þó mega láta við það sitja að tilgreint sé skráð verðgildi hins erlenda gjaldmiðils gagnvart íslensku krónunni, þ.e. kaupgengi á útgáfudegi reiknings. Komi síðar til útgáfu kreditreiknings vegna veitts afsláttar eða leiðréttingar á sölureikningi, sbr. 3. tölul. 5. mgr. 13. gr. og 3. mgr. 20. gr. laga nr. 50/1988, og eftir atvikum til útgáfu nýs sölureiknings, eiga sömu sjónarmið við. Miða skal við verðgildi erlends gjaldmiðils gagnvart íslenskri krónu eins og það var skráð á útgáfudegi hins upphaflega sölureiknings, enda skal virðisaukaskatturinn ekki vera háður gengisþróun. Um útgáfudag reikninga vísast til 3. og 7. gr. reglugerðar nr. 50/1993, sbr. og 13. gr. laga nr. 50/1988.

Bókhald og bókhaldsgögn skulu varðveitt hér á landi, sbr. 1. mgr. 20. gr. laga nr. 145/1994, um bókhald.

II.

Hluti erindis yðar frá 8. desember 2000 felur í sér beiðni um undanþágu frá almennum reglum um tekjuskráningu virðisaukaskattsskyldra aðila, sbr. 10. gr. reglugerðar nr. 50/1993. Í umræddum hluta erindisins segir:

“Sérstök sölureikningaröð út af starfseminni á Íslandi til aðgreiningar frá starfseminni í heimaríki (í okkar tilviki Danmörku) með þeim hætti sem íslenzkar reglur ætlast til virðast okkur vera óþekkt fyrirbæri þar sem við þekkjum til erlendis. Jafnframt teljum við að framkvæmd hinna íslenzku reglna hjá stórfyrirtækjum erlendis ... sé óhugsandi. Notkun reikninga með fyrirframárituðum númerum í hlaupandi röð vegna íslenzkra skattareglna, sem ekki eiga sér hliðstæðu í reynd, gera málið og afar vandræðalegt. Telja má óraunhæft með öllu að ætlast til þess af erlendum aðila (sic), sem gerir leigureikninga fyrir Ísland erlendis, að sérstakt blað sé sett í prentarann í hvert skipti sem reikningur fyrir Ísland er gerður. Villumöguleikar í því efni eru óendanlegir og tölvukerfi vanbúin til slíks. Við förum því fram á, að horft sé fram hjá þessari kröfu enda sé viðunandi eftirlit tryggt með öðrum hætti.”

Í bréfi yðar kemur ekkert fram um öryggi, áreiðanleika og rekjanleika þess tekjuskráningarkerfis sem umbjóðandi yðar hyggst nota við gerð sölureikninga vegna starfsemi sinnar hér á landi, þannig að unnt sé að sannreyna að allar tekjur komi fram og viðunandi eftirlit tryggt. Ríkisskattstjóri getur þegar af þeirri ástæðu ekki veitt neina undanþágu. Bent er á að verði nánari upplýsingar lagðar fram væri hugsanlegt að veita undanþágu frá t.a.m. kröfum 3. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 50/1993 um samritafjölda reikninga, en embættið telur sér hins vegar almennt ekki heimilt að víkja frá skýrri kröfu laganna um fyrirfram tölusetta reikningseyðublöð í samfelldri númeraröð.

Vakin er athygli á því að þeim seljendum sem nota rafrænt bókhaldskerfi, sem uppfyllir ákvæði reglugerðar nr. 598/1999, um rafrænt bókhald, geymslu rafrænna gagna og lágmarkskröfur til rafrænna bókhaldskerfa, er heimilt að prenta út rafræna sölureikninga sína til kaupenda, sem ekki eru með slíkt kerfi, á reikningseyðublöð sem eru tölusett í samfelldri töluröð án þess að tölusetning reikningseyðublaðanna hafi verið áprentuð fyrirfram. Til að slíkur reikningur geti verið innskattsskjal hjá kaupanda, sbr. 4. mgr. 15. gr. reglugerðar nr. 50/1993, þarf hann, auk þeirra form- og efniskrafna sem gerðar eru í 1. mgr. 15. gr., við prentun hans að bera með sér að hann eigi uppruna sinn í rafrænu bókhaldskerfi skv. reglugerð nr. 598/1999.

Beðist er velvirðingar á þeirri töf sem orðið hefur á að svara erindi yðar.

Ríkisskattstjóri

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum