Óbeinir skattar

Ákvarðandi bréf nr. 997/2001

21.12.2001

Virðisaukaskattur - sala á fiskibáti - sala á skemmtibáti - leiðrétting innskatts af varanlegum rekstrarfjármunum.

21. desember 2001
G-Ákv. 01-997

Ríkisskattstjóri hefur móttekið fyrirspurn yðar, dags. 9. apríl 1999, þar sem spurt er um meðferð virðisaukaskatts við "sölu" á fiskibáti/skemmtibáti. Í fyrirspurninni eru í tveimur dæmum (a og b) tilgreindir málavextir og bornar upp spurningar.

Dæmi a)

Skráður virðisaukaskattsskyldur aðili í smábátaútgerð ákveður að hætta sjálfstæðri atvinnustarfsemi sinni og taka fiskibát sinn til eigin nota þ.e. taka hann út úr sinni atvinnustarfsemi og taka hann til notkunar sem skemmtibát. (Ári áður en þessi gjörningur fer fram eru keypt öll stjórntæki ný, ný vél og nýr gír og allt innskattað í botn.)

Ber þessum aðila að útskatta "sölu" sína á bátnum eða er hér um 12. gr. mál að ræða?

Ber þessum aðila að leiðrétta þegar fenginn innskatt af viðhaldi og uppbyggingu bátsins skv. ákvæðum 1. tl. 1. mgr. 12. gr. reglugerðar nr. 192/1993, um innskatt?

Samkvæmt. 3. mgr. 11. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt (vskl.), telst sala eða afhending á vélum, tækjum og öðrum rekstrarfjármunum til skattskyldrar veltu. Sama gildir um vélar, tæki og aðra rekstrarfjármuni þegar fyrirtæki tilkynnir sig út af grunnskrá virðisaukaskatts. Skal skattverð í því tilviki miðað við almennt gangverð sbr. 8. gr. sömu laga. Samkvæmt 12. gr. vskl. telst margvísleg afhending vöru og skattskyldrar þjónustu ekki til skattskyldrar veltu og þar segir í 6. tölul. 1. mgr. að sala og útleiga loftfara og skipa teljist ekki til skattskyldrar veltu. Undanþágan nær þó ekki til skipa sem eru undir 6 metrum að lengd, skemmtibáta eða einkaloftfara.

Í málavaxtalýsingu er gefið að um fiskibát sé að ræða. Engu að síður er vert að vekja athygli á úrskurði yfirskattanefndar nr. 463/2000 en í honum er að finna eftirfarandi umfjöllun um það hvernig túlka beri hugtakið "skemmtibátur" í 6. tölul. 1. mgr. 12. gr vskl. "Ekki þykja rök standa til annars en að skýra hugtakið "skemmtibátur" í ákvæði þessu samkvæmt hljóðan sinni þannig að átt sé við bát sem nýttur er til skemmtunar eða frístunda. Líta verður því fyrst og fremst til eiginlegrar notkunar báts svo og hafa að öðru leyti hliðsjón af byggingu hans, fyrirkomulagi og útbúnaði, við mat á því hvort um "skemmtibát" sé að ræða í skilningi ákvæðisins".

Í ljósi 6. tl. 1. mgr. 12. gr. vskl. telst sala á rekstrarfjármuninum fiskibáti ekki til skattskyldrar veltu skv. 3. mgr. 11. gr. sömu laga. Á sama grundvelli telst fiskibáturinn ekki til rekstrarfjármuna sem ber að standa skil á útskatti af við lok starfsemi sbr. síðari málslið 3. mgr. 11. gr. Í því tilviki ber þó að gæta að ákvæðum IV. kafla  reglugerðar nr. 192/1993, um innskatt. Samkvæmt 1. mgr. 12. gr. þeirrar reglugerðar ber skattskyldum aðila að leiðrétta (bakfæra) innskatt vegna skattskyldrar starfsemi sinnar verði breyting á forsendum fyrir frádrætti innskatts vegna öflunar þeirra varanlegu rekstrarfjármuna sem taldir eru upp í ákvæðinu. Í 1. mgr. 13. gr. segir að það teljist breyting á forsendum fyrir frádrætti á innskatti þegar skattaðili naut fulls frádráttarréttar eða frádráttar að hluta þegar eign var keypt eða þegar verk var unnið, en eignin er síðar seld, leigð eða tekin til annarrar notkunar þar sem skattaðila ber engin frádráttarréttur eða minni frádráttarréttur. Í 2. mgr. 13. gr. reglugerðarinnar er tiltekið að leiðréttingarskylda falli niður þegar sala eða afhending rekstrarfjármuna telst til skattskyldrar veltu sbr. 3. mgr. 11. gr. vskl. Eins og að framan telst sú ráðstöfun fiskibátsins, sem fyrirspurnin lýtur að, ekki til virðisaukaskattsskyldrar veltu. Leiðréttingarskyldan fellur því ekki niður heldur verður virk við ráðstöfunina. Í 1. mgr. 14. gr. kemur fram að leiðréttingarskyldan varir í fimm ár frá og með kaupmánuði þegar um lausafé er að ræða. Í 2. mgr. 14. gr. er að finna ákvæði um það hvernig leiðrétting innskatts skuli reiknuð út.

Í málavaxtalýsingu fyrirspurnar kemur ekki fram hvenær báturinn var keyptur en hins vegar kemur fram að nýlega hafi verið keypt í hann öll stjórntæki, ný vél og nýr gír og allt innskattað. Eins og segir að framan varir leiðréttingarskylda af lausafé í fimm ár frá og með kaupmánuði. Leiðréttingarskyldan getur því verið fyrir hendi bæði vegna öflunar bátsins, miðað við kaupmánuð hans, og einnig vegna þeirra endurbóta sem gerðar hafa verið á honum enda nemi kaupverð einstakrar eignar eða eignasamstæðu a.m.k. 113.700 kr., sbr. 1. tölul. 1. mgr. 12. gr. rglg. nr. 192/1993. Varðandi mat á því hvenær um eignasamstæðu er að ræða vísast til skattframkvæmdar varðandi 41. gr. laga nr. 75/1981, um tekju- og eignarskatt.

Dæmi b)

Skráður virðisaukaskattsskyldur aðili í smábátaútgerð ákveður að hætta sjálfstæðri atvinnustarfsemi sinni og selja fiskibát sinn til aðila sem ekki er í skráðri atvinnustarfsemi. (Ári áður en þessi gjörningur fer fram eru keypt öll stjórntæki ný, ný vél og nýr gír og allt innskattað í botn.)

Ber þessum aðila að útskatta "sölu" sína á bátnum eða er hér um 12. gr. mál að ræða?

Ber seljanda að leiðrétta þegar fenginn innskatt af viðhaldi og uppbyggingu bátsins skv. ákvæðum 1. tl. 1. mgr. 12. gr. reglugerðar nr. 192/1993, um innskatt?

Til svars við dæmi b) vísast að mestu til umfjöllunar að framan. Sökum ákvæðis 6. tl. 1. mgr. 12. gr. vskl. telst salan ekki skattskyldrar veltu þrátt fyrir ákvæði 3. mgr. 11. gr. sömu laga. Hins vegar verður leiðréttingarskylda skv. IV. kafla innskattsreglugerðar virk á sama hátt og í fyrra tilvikinu. Þótt ekki eigi við í umspurðu tilviki, miðað við gefna málavexti, þykir rétt að taka fram að þegar eignayfirfærsla á fasteign, vélum eða öðrum rekstrarfjármunum á sér stað í sambandi við eigendaskipti á fyrirtæki eða hluta þess skv. 4. mgr. 12. gr. vskl., á leiðréttingartímabilinu, getur kaupandi, sem hefur minnst sama frádráttarrétt vegna rekstrarfjármuna og seljandi hafði við öflun, yfirtekið alla leiðréttingarskylduna vegna eftirstöðva tímabilsins sbr. 2. mgr. 15. gr. rglg. 192/1993.

Ríkisskattstjóri

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum