Óbeinir skattar

Ákvarðandi bréf nr. 986/2001

9.11.2001

Virðisaukaskattur - beinþéttnimælingar í lyfjabúð - heilbrigðisþjónusta

9. nóvember 2001
G-Ákv. 01-986

I

Vísað er til tölvupósts yðar, dags. 8. nóvember 2000, þar sem spurst er fyrir um meðferð virðisaukaskatts vegna fyrirhugaðrar þjónustu á yðar vegum.

Fram kemur í fyrirspurn yðar að fyrirhugað sé að hefja sölu á beinþéttnimælingum og fleiri skyldum mælingum fyrir almenning í samvinnu við C. Mælingin verði framkvæmd af hjúkrunarfræðingum en þó í undantekningartilfellum af öðru starfsfólki í heilbrigðisstéttinni, þ.e. lyfjafræðingi, sjúkraliðum eða lyfjatækni. Þess er farið á leit að ríkisskattstjóri staðfesti að þessi þjónusta A fái sömu skattalegu meðferð og þegar hún sé veitt af ríkinu á sjúkrahúsi, þ.e. að ekki sé um virðisaukaskattsskylda starfsemi að ræða.

Samkvæmt samtali við yður símleiðis þann 7. nóvember 2000 er viðskiptavinum í framhaldi af mælingum beint til viðkomandi lækna gefi niðurstöður úr mælingum tilefni til þess.

II

Til svars við fyrirspurn yðar skal eftirfarandi tekið fram:

Skv. 1. tölul. 3. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, er þjónusta sjúkrahúsa, fæðingarstofnana, heilsuhæla og annarra hliðstæðra stofnana, svo og lækningar, tannlækningar og önnur eiginleg heilbrigðisþjónusta, undanþegin virðisaukaskatti.

Við afmörkun á hugtakinu "önnur eiginleg heilbrigðisþjónusta" í framangreindum skilningi er í skattframkvæmd miðað við að starfsemi þurfi að uppfylla tvö skilyrði;  1) að um sé að ræða þjónustu sem fellur undir lög nr. 24/1985, um starfsheiti og starfsréttindi heilbrigðisstétta, eða sérlög um heilbrigðismál og 2) að þjónustan felist í meðferð á líkama sjúklings til lækninga, hjúkrunar eða sambærilegrar meðferðar. Bæði þessi skilyrði verða að vera uppfyllt til að starfsemi sé undanþegin á grundvelli ákvæðisins. Jafnframt hefur í skattframkvæmd verið litið svo á að starfsemi sálfræðinga sem hafa leyfi til að kalla sig sérfræðinga skv. reglugerð nr. 158/1990, um sérfræðileyfi sálfræðinga, og starfa á heilbrigðissviði sé undanþegin skv. umræddum 1. tölul. 3. mgr. 2. gr. (sbr. og 2. tölul. sömu málsgreinar starfi þeir á sviði félagslegrar þjónustu). Í vafatilvikum hefur ríkisskattstjóri leitað álits heilbrigðisyfirvalda á því hvort viðkomandi starfsemi falli undir viðurkennda heilbrigðisþjónustu að mati heilbrigðisyfirvalda.

Með bréfi, dags. 11. júní 2001, var leitað eftir áliti landlæknis á því hvort beinþéttnimælingar og skyldar mælingar falli í einhverjum tilvikum undir starfssvið hjúkrunar eins og hún er skilgreind sem fag. Þá var einnig óskað eftir áliti á því hvort mælingarnar falli í einhverjum tilvikum undir starfssvið lyfjafræðinga, sjúkraliða eða lyfjatækna. Afrit af bréfinu var sent heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu. Í svari landlæknis, sem barst ríkisskattstjóra 25. október 2001, segir eftirfarandi:

"Heilbrigðisstarfsfólk, s.s. hjúkrunarfræðingar, sjúkraliðar, lyfjafræðingar og lyfjatæknar geta gert beinþéttnimælingar að undangenginni kennslu og þjálfun. Það er ekki hlutverk þessara stétta að ákveða hverjir ættu að fara í slíka mælingu né hvaða meðferð beri að veita ef beinþynning er greind í mælingunni. Hins vegar geta þær veitt almennar ráðleggingar og leiðbeint fólki um hvert það á að leita varðandi meðferð. Það er álit landlæknis að beinþéttnimælingar falli undir starfssvið ofantaldra heilbrigðisstétta."

 Í bréfi heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins til ríkisskattstjóra, dags. 31. október 2001, er tekið undir álit landlæknis.

III.

Með hliðsjón af svari heilbrigðisyfirvalda er það álit ríkisskattstjóra að sala á beinþéttnimælingum falli undir 1. tölul. 3. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, þegar mælingarnar eru framkvæmdar af því heilbrigðisstarfsfólki sem nefnt er í fyrirspurn yðar, þ.e. hjúkrunarfræðingum, sjúkraliðum, lyfjafræðingum og lyfjatæknum. Undanþágan nær þó aðeins til sölu eða afhendingar á beinþéttnimælingum, sbr. 4. mgr. 2. gr. sömu laga, en nær ekki til innskatts af aðföngum til starfseminnar þ.e. ekki er heimild fyrir neinum innskattsfrádrætti vegna beinþéttnimælinganna.

Rétt er að taka fram að sú meginregla gildir varðandi þá aðila sem stunda blandaða starfsemi, þ.e. bæði undanþegna og virðisaukaskattsskylda starfsemi, að þeim ber í bókhaldi sínu og á sölureikningum að aðgreina með skýrum hætti þær tekjur sem þeir hafa vegna hvorrar starfsemi um sig, sbr. 5. gr. og 1. mgr. 23. gr. reglugerðar nr. 50/1993, um bókhald og tekjuskráningu virðisaukaskattsskyldra aðila. Sé þessi aðgreining ekki gerð ber að innheimta virðisaukaskatt af allri starfseminni.

Ríkisskattstjóri

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum