Óbeinir skattar

Ákvarðandi bréf nr. 973/2001

23.4.2001

Önnur eiginleg heilbrigðisþjónusta- Power peel og æðaslitstæki -  virðisaukaskattsskylda.

23. apríl 2001
G-Ákv. 01-973

Ríkisskattstjóri hefur móttekið tölvupóst yðar, dags. 3. september 2000, þar sem óskað er eftir áliti ríkisskattstjóra á því hvort meðferð æðaslits og annarra húðlýta, unnin af hjúkrunarfræðingi og sjúkraliða á Power Peel tæki og æðaslitstæki, sé undanþegin virðisaukaskatti.

Í tilefni af skrifum yðar skal eftirfarandi tekið fram:

Skv. 1. tölul. 3. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, er þjónusta sjúkrahúsa, fæðingarstofnana, heilsuhæla og annarra hliðstæðra stofnana, svo og lækningar, tannlækningar og önnur eiginleg heilbrigðisþjónusta, undanþegin virðisaukaskatti.

Við afmörkun á hugtakinu "önnur eiginleg heilbrigðisþjónusta" í framangreindum skilningi er í skattframkvæmd miðað við að starfsemi þurfi að uppfylla tvö skilyrði;  1) að um sé að ræða þjónustu sem fellur undir lög nr. 24/1985, um starfsheiti og starfsréttindi heilbrigðisstétta, eða sérlög um heilbrigðismál og 2) að þjónustan felist í meðferð á líkama sjúklings til lækninga, hjúkrunar eða sambærilegrar meðferðar. Jafnframt hefur í skattframkvæmd verið litið svo á að starfsemi sálfræðinga sem hafa leyfi til að kalla sig sérfræðinga skv. reglugerð nr. 158/1990, um sérfræðileyfi sálfræðinga, og starfa á heilbrigðissviði sé undanþegin skv. umræddum 1. tölul. 3. mgr. 2. gr. (sbr. og 2. tölul. sömu málsgreinar starfi þeir á sviði félagslegrar þjónustu). Í vafatilvikum hefur ríkisskattstjóri leitað álits heilbrigðisyfirvalda á því hvort viðkomandi starfsemi falli undir viðurkennda heilbrigðisþjónustu að mati heilbrigðisyfirvalda.

Með bréfi dags. 30. október 2000 var leitað eftir áliti landlæknis á því hvort meðferð með Power peel tæki og æðaslitstæki teljist viðurkennd heilbrigðisþjónusta. Í bréfi landlæknis, sem barst ríkisskattstjóra 23. febrúar 2001, segir m.a.

"Meðferð æðaslits og annarra húðlýta er læknismeðferð innan heilbrigðisþjónustunnar og fellur vart undir hjúkrun eins og hún er skilgreind sem fag. Því verður að telja að notkun ofangreindra tækja sé því einungis heilbrigðisþjónusta sé henni beitt í lækningaskyni af læknum."

Undanþágur 3. mgr. 2. gr. laga um virðisaukaskatt ber samkvæmt almennum lögskýringarsjónarmiðum að túlka þröngt. Í ljósi umsagnar landlæknis er ekki unnt að líta svo á að þjónusta hjúkrunarfræðings og sjúkraliða, með umræddum tækjum, teljist til annarrar eiginlegrar heilbrigðisþjónustu í skilningi 1. tölul. 3. mgr. 2. gr. laga um virðisaukaskatt. Starfsemin er því virðisaukaskattsskyld samkvæmt meginreglu 2. mgr. 2. gr. laga um virðisaukaskatt.

Ríkisskattstjóri

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum