Óbeinir skattar

Ákvarðandi bréf nr. 962/2000

2.11.2000

Virðisaukaskattur - leikskólamötuneyti.

2. nóvember 2000
G-Ákv. 00-962

Í bréfi S dagsettu 27. september 2000 eru fyrir ríkisskattstjóra lagðar spurningar varðandi virðisaukaskatt við kaup kaupstaðar á tilreiddum mat fyrir nemendur leikskóla. Spurt er um skattskyldu, skatthlutfall, innskattsrétt og endurgreiðslurétt.

Málsatvikum er þannig lýst, að kaupstaðurinn kaupi af sjálfstætt starfandi veitingamanni mat er hann tilreiðir á starfsstöð sinni og afhendir til leikskóla. Í leikskólunum er maturinn skammtaður á diska og reiddur fram. Kaupstaðurinn gerir forráðendum leikskólabarna að greiða gjald sem nemur aðeins hluta kostnaðarverðs matarins, en mismunurinn er greiddur úr bæjarsjóði.

Til svars erindinu vill ríkisskattstjóri taka eftirfarandi fram.

Skattskyldusvið virðisaukaskatts er skilgreint mjög víðtækt í 2. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt. Nær skattskyldan til allra vara og verðmæta, nýrra og notaðra, og til allrar vinnu og þjónustu sem ekki er sérstaklega undanþegin í 3. mgr. lagagreinarinnar.  Almennt tekur virðisaukaskattskylda til sölu á mat og þjónustu sem innt er af hendi við tilreiðslu og framreiðslu matar.

Skylda til að innheimta virðisaukaskatt og standa skil á honum í ríkissjóð hvílir á hverjum þeim sem í atvinnuskyni eða með sjálfstæðri starfsemi sinni selur eða afhendir vöru eða verðmæti ellegar innir af hendi skattskylda vinnu eða þjónustu, sbr. 1. tölul. 1. mgr. 3. gr. laga nr. 50/1988.  Þá hvílir virðisaukaskattsskylda á ríki, bæjar- og sveitarfélögum, stofnunum og fyrirtækjum þeirra að því leyti sem þau selja vörur eða þjónustu í samkeppni við atvinnufyrirtæki, sbr. 4. tölul. sömu málsgreinar. Í 4. tölul. 4. gr. virðisaukaskattslaga er kveðið á um að skólamötuneyti séu undanþegin virðisaukaskattsskyldu, sem jafnframt felur í sér undanþágu frá skráningarskyldu á grunnskrá virðisaukaskatts, sbr. 5. gr. laganna. Undanþágan tekur til fæðissölu beint til nemenda, þ.m.t. nemenda leikskóla, óháð rekstrarformi seljanda. Undanþágan tekur hins vegar ekki til kaupa á aðföngum skólamötuneytis.  Rekstraraðili skólamötuneytis skal því bera virðisaukaskatt af mat og þjónustu sem hann kaupir.

Almennt skatthlutfall virðisaukaskatts er 24,5%. Sala á tilteknum vörum og tiltekinni þjónustu ber þó aðeins 14% skatt, þ.m.t. sala á matvörum og öðrum vörum til manneldis, sbr. 8. tölul. 2. mgr. 14. gr. laga nr. 50/1988. Í ákvæðinu er sérstaklega tekið fram að sala veitingahúsa, mötuneyta og annarra hliðstæðra aðila á tilreiddum mat og þjónustu beri 24,5% virðisaukaskatt. Í 3. gr. reglugerðar nr. 554/1993, um virðisaukaskattsskylda sölu á vörum til manneldis o.fl., er tiltekið að þeir aðilar sem hafa með höndum framleiðslu tilbúinna rétta í heildsölu til matreiðslu eða neyslu teljist ekki til veitingahúsa, mötuneyta eða hliðstæðra aðila í þessu sambandi. Við slíka sölu skal því innheimta 14% skatt af söluverði hinna tilbúnu rétta. Almennt sjónarmið hér að lútandi er að sala teljist því aðeins vera í heildsölu í þessu sambandi að salan sé til aðila er hefur þá virðisaukaskattsskyldu starfsemi með höndum að endurselja matinn og sé skráður á grunnskrá virðisaukaskatts sem slíkur.

Í framangreindri 3. gr. reglugerðar nr. 554/1993 er jafnframt kveðið á um að skattstjóri skuli úrskurða um það hvort sölustaður teljist veitingahús, mötuneyti eða hliðstæður aðili gagnvart ákvæðum greinarinnar. Úrskurður skattstjóra er kæranlegur til ríkisskattstjóra. Í ljósi þeirrar skipan mála vill ríkisskattstjóri taka það fram að svar þetta felur ekki í sér úrskurð gagnvart veitingamanni þeim, er fyrirspyrjandi á umrædd viðskipti við, eða aðra beina afstöðu til þess hvort honum beri að innheimta 14% eða 24,5% virðisaukaskatt í viðskiptunum.

Innskattsréttur matsala er sá sami hvort heldur honum ber að innheimta 24,5% virðisaukaskatt sem veitingahúsi, mötuneyti eða hliðstæðum aðila, eða 14% skatt sem heildsala tilbúinna rétta. Endurgreiðsluréttur samkvæmt 4. gr. reglugerðar nr. 554/1993, sbr. breytingu með 1. gr. reglugerð nr. 559/2000, er hins vegar bundinn við fyrr greinda tilvikið.

Ríkisskattstjóri

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum